Þetta kemur fram í pistli eftir Gísla Martein í Fréttablaðinu 21/12 2010 sem má einnig lesa á blogginu hans.
Capacent spurði borgarbúa í október síðastliðnum hvaða þjónustu Reykjavíkurborg þyrfti helst að bæta. Það einstaka atriði sem flestir Reykvíkingar nefndu var að það þyrfti að bæta almenningssamgöngur, tæp 16%.
Á heimasíðu Vegagerðarinnar er nú að finna áfangaskýrsluna "Skipulag á höfuðborgarsvæðinu - sjálfbær þróun í samgöngum". Skýrslan er unnin af þeim Hörpu Stefánsdóttir og Hildigunni Haraldsdóttir arkitektum faí.
Skýrsla þessi er annar hluti rannsóknarverkefnisins “Skipulag á höfuðborgarsvæðinu, sjálfbær þróun í samgöngum” sem styrkt er af Vegagerðinni og er unnin af teiknistofunum Arkitektúra og Hús og skipulag. Hún fjallar um samgöngur hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda, en vorið 2010 birtist fyrsti hluti í skýrslu þar sem fjallað er um almenningssamgöngur. Verkefni þetta er hluti verkefnisins Betri borgarbragur, sem er rannsóknarverkefni um sjálfbærni í skipulagi. Það verkefni hlaut öndvegisstyrk frá tækniþróunarsjóði (RANNÍS) og að því standa Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóli Íslands og arkitektastofurnar Gláma-Kím, Tröð, Kanon, Ask, Hús og skipulag og Arkitektúra.
Umferðin í Peking er þungbærari ökumönnum en í nokkurri annari borg samkvæmt nýlegri alþjóðlegri könnun. Þar er horft til reiðhjólsins til að létta á samgöngukerfinu með því að setja upp almenningshjólakerfi líkt og stórborgir hafa verið að innleiða undanfarin ár með góðum árangri. Önnur úrræði sem þarna eru nefnd eru veggjöld inn á ákveðin svæði í borginni og takmörk á heildarfjölda bifreiða hins opinbera. Í fréttinni er einnig nefnt að Sjanghæ borg takmarkar fjölda þeirra bifreiða sem fá skráningu og hefur gert síðan 1986. 20. nóvember voru t.d. boðin upp 8,500 skráningarleyfi og var meðalverðið um 800.000 kr. (45,291 yuan / $ 6,807)
Sigrún Helga Lund stærðfræðingur og stofnandi samtaka um bíllausan lífsstíl segir Íslendinga vana niðurgreiðslu á einkabílnum og því líti samfélagið oft framhjá kostnaðinum. „Klárlega er verið að niðurgreiða einkabílinn. Það er útlagður kostnaður og einhver þarf að borga hann. Hver bíll nýtir sér að lágmarki þrjú stæði í eigu annarra. Ef við metum kostnaðinn á hvert stæði sem 10.000 krónur en það er mjög hóflegt og mun minna en raunverulegur kostnaður þá er samfélagið að greiða 360.000 krónur árlega á hvern bíl.“
Færri nota nú einkabílinn til að fara til og frá vinnu og færri grunnskólabörn eru keyrð í skólann en árin 2009 og 2008. Reiðhjól eru aftur á móti á uppleið. Þetta kemur fram í árlegri ferðavenjukönnun sem Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar lætur gera.
Út er kominn skýrsla sem heitir „Skipulag á höfuðborgarsvæðinu - sjálfbær þróun í samgöngum - áfangaskýrsla október 2010“ (pdf 4,8 mb), eftir arkítektana Hörpu Stefánsdóttur og Hildigunni Haraldsdóttur. Hún fjallar um samgöngur hjólreiðamanna og gangandi vegfarenda en er hluti af stærra verkefni sem þær vinna að.
Harpa er nú í doktorsnámi í Noregi og vinnur að rannsókn á hjólreiðaumhverfi.
Margur hjólreiðakappinn rann til í óvæntri hálkunni sem kom um daginn. Það getur verið verulega varasamt að hjóla í hálku og dæmi um að fólk beinbrotni illa við að detta á mikilli ferð á hjólum sínum. Raunin er líka sú að það er oftast miklu meiri hálka á hjólreiðastígum og gangbrautum heldur en á götunum þar sem bílarnir aka, einfaldlega vegna þess að þar er ekki borið salt í hálku. En það er engin ástæða til að leggja hjólinu og hætta að hjóla yfir vetrarmánuðina, því rétt eins og með bílana þá er hægt að kaupa nagladekk undir reiðhjólin. Þau fást í reiðhjólaverslunum. Örninn, GÁP, Markið og Everest selja nagladekk og þau er hægt að fá ýmist lítið negld eða mikið negld. Þau sem eru negld einvörðungu í köntunum kosta 6-7.000 krónur en þau sem eru mikið negld kosta um 10.000 kr stykkið. Sumir láta jafnvel duga að kaupa aðeins nagladekk að framan, en öruggast er auðvitað að hafa bæði dekkin negld.
Ferðamáti íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur breyst talsvert frá því fyrir efnahagshrun. Þannig hefur þeim fækkað sem nota yfirleitt einkabíl til sinna ferða og á sama tíma hefur þeim hlutfallslega fjölgað sem fara gangandi og hjólandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar á ferðavenjum Íslendinga 2010 sem unnin var fyrir samgönguyfirvöld.
Hver þekkir ekki vandamálið við húfu undir reiðhjólahjálmi. Ólöf Jónsdóttir kjólmeistari hefur leyst þann vanda með þessum eyrnaskjólum. Í eyrnaskjólunum er yfirleitt þæfð ull eða ullarblanda í ytra byrði og flís að innan og síðan er franskur rennilás innan í til að halda þessu saman. Skrautið eru ýmist perlur og steinar eða eitthvað annað skemmtilegt skraut.
Í Reykjavík hefst alþjóðadagurinn klukkan 14.00 á sunnudaginn með hjólreiðatúr frá Austurvelli og upp Hverfisgötu að Hlemmi. Þar verður m.a. boðið upp á stutta kynningu á Hjólafærni og einkaleiðsögn án endurgjalds.
Páll Guðjónsson skrifar ítarlega grein um umfjöllun fjölmiðla vegna tilraunaverkefnis um hjólamerkingar á Hverfisgötu. Hann segir í grein sinni, sem birtist á vef Íslenska fjallahjólaklúbbsins „Það var margt jákvætt við þetta verkefni enda lýstu Landssamtök hjólreiðamanna yfir ánægu sinni með verkefnið. Það virðist þó alveg hafa farið frá hjá fréttamiðlunum [...]Þvert á móti komu hinar furðulegustu fréttir í fjölda fréttamiðla sem opinberuðu í besta falli mikla fáfræði og fordóma fjölmiðla eða kraftmikinn áróður í þágu einkabílisma hjá ósjálfráða fjölmiðlum. “
Ræðumenn á málþinginu Myndum borg voru sammála um að berjast fyrir grænni borg til að bæta lýðheilsu borgarbúa og gera borgina skemmtilegri. „Samgöngurnar eru sóknarfæri Reykvíkinga í grænu málunum, lýðheilsa eykst og umhverfið batnar,“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri þegar hann setti málþingið á Samgönguviku og að Reykjavíkurborg yrði áfram í fararbroddi umhverfismála á Íslandi.
Þessi mynd var tekin á evrópsku Samgönguvikunni þar sem nokkrir þingmenn á þingi Evrópusambandsins hjóluðu um á þessu skemmtilega fundahjóli.
Einn þingmaðurinn lét þau orð falla að það þyrfti að gera ráð fyrir hjólaleiðum í fjárveitingum til samgöngumála innan Evrópusambandsins samkvæmt þessari frétt.
Stríðsöxin verður ekki grafin fyrr en framkvæmdum lýkur á veginum á Öxi Styttir hringveginn um 71 kílómetra
Djúpivogur | Sveitarstjórnarmenn í Djúpavogshreppi hafa um árabil barist fyrir bættum samgöngum á svæðinu og á síðustu árum hefur heilsársvegur um Öxi verið helsta baráttumálið. Síðastliðið haust átti nýframkvæmd um Öxi að vera klár til útboðs samkvæmt loforðum frá samgönguyfirvöldum en þessu framfaramáli í samgöngum á Austurlandi hefur seinkað eins og öðrum framkvæmdum vegna fjármálakreppunnar.
Keppendur í ævintýrakeppninni sem efnt verður til laugardaginn 2. október þurfa að hlaupa 10 km, hjóla 20 km og róa kajökum 5 km leið. Hlaupaleiðin er ekki merkt heldur er um svokallað rathlaup að ræða en þá reynir á kunnáttu keppenda í að lesa af korti og áttavita. Ekki er upplýst um keppnisleið, sem eykur enn á spennuna. Um liðakeppni er að ræða og eru fjórir í hverju liði.
Aðstandandi keppninnar, sem nefnist Októberspretturinn 2010, er Félag íslenskra ævintýrakeppna. Fyrirmyndin er frá útlöndum en þar taka keppnir frá 12 klukkustundum og upp í tíu daga.
Annir á reiðhjólaverkstæðum hafa aukist umtalsvert eða um allt að 40 prósent síðustu tvö árin. Þá hefur sala á aukabúnaði, svo sem nagladekkjum og töskum á bögglabera og öðru sem gefur til kynna aukna notkun reiðhjóla, stóraukist.
"Það sem við sjáum í sölu á varahlutum fyrir reiðhjól, sem snúa að sliti reiðhjóla, gefur óyggjandi vísbendingu um að fólk sé að nota hjólin sín meira sem samgöngutæki. Þannig hefur orðið gríðarleg aukning í sölu á þessum standard búnaði sem slitnar á reiðhjólum, tannhjólum og slíku, eða um 30-40 prósent aukning," segir Ragnar Ingólfsson, sölustjóri hjá Erninum. "Við sjáum þetta vel á verkstæðinu sem áður stóð ekki undir sér yfir vetrartímann en er nú fullt allan ársins hring." Mikið er einnig um að fólk sé að ná í gömlu hjólin sín að sögn Ragnars, hjól sem hafa staðið óhreyfð í bílskúrnum lengi og minna um að fólk fái sér nýtt hjól á hverju ári eins og algengt var fyrir hrun. "Enn frekari vísbending um auknar hjólreiðar í borginni er svo að salan í aukabúnaði, nagladekkjum, bögglaberatöskum og slíku, hefur aukist um 30-40 prósent á síðustu tveimur árum."
Fjallahjólreiðar er vaxandi íþrótt á Íslandi og er nú komið að því að vígja fyrstu sérhönnuðu fjallahjólabraut landsins en hún er í Kjarnaskógi við Akureyri. Á laugardaginn verður brautin vígð formlega og í kjölfarið verður leiðsögn um spennandi og krefjandi fjallahjólaleiðir. Vígslan fer fram við snyrtihúsið Kjarnakot kl. 10.00.
Suðurgata verður einstefnugata fyrir akandi umferð til suðurs frá Kirkjugarðsstíg að Skothúsvegi en tvístefnugata fyrir hjólandi umferð. Þetta var samþykkti í umhverfis- og samgönguráði í vikunni. „Við vonum að þessi breyting bæti aðstæður fyrir gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur,“ segir Karl Sigurðsson formaður ráðsins og að einnig muni um leið draga úr umferðarhraða og hávaða.
Umhverfis- og samgöngusviði var falið að útfæra tillöguna með þeim orðum að hefta ekki gangandi umferð. Hjólandi umferð mun fara af gangstéttum yfir á götuna og veita gangandi um leið betra rými. Gatan er þröng um þessar mundir og vandasöm fyrir strætisvagna. Akstur stórra bifreiða er nú þegar bönnuð til norðurs. 30 km hámarkshraði er á þessum kafla Suðurgötunnar.
Page 7 of 13