Bæði segja þau umræðu um þessi mál vera á lágu plani. „Við erum bara svo vön ókeypis stæðum að við sjáum kostnaðinn ekki. Nú er krafa gerð um að Háskóli Íslands skeri mikið niður og á meðan verið er að leggja niður námskeið og niðurskurður er að koma niður á náminu þá eru bílastæði frí fyrir nemendur og kennara. Það er varla hlutverk háskólans að borga stæði fyrir þá sem kjósa að nýta sér einkabíl. Það var því meira en lítið skondið þegar Stúdentaráð mótmælti hugmyndum um gjaldtöku fyrir bílastæði við skólann. Ég skil ekki að hagsmunum nemenda sé betur borgið með fríum bílastæðum á kostnað námsvals,“ segir Sigrún. Þorsteinn segir umræðuna vera að breytast. „Kannski er kreppan ástæða þess að fólki er meira umhugað um þessi mál. Verðmætamatið hefur breyst nú þegar ekki er allt vaðandi í peningum og þetta nýtur ekki sama forgangs og það gerði.“
Frétt á Smugunni 3. des. 2010