Stefnumál Landssamtaka hjólreiðamanna

Stefnumál Landssamtaka hjólreiðamanna
Uppfærð og samþykkt á ársþingi 25 febrúar 2010.

Forgangsmál

HöfuðborgarsvæðiðNet hjólaleiða og hjólabrautir meðfram umferðaræðum

Unnin verði hjólreiðaáætlun fyrir allt höfuðborgarsvæðið og stærri þéttbýlisstaði.

Það þarf að klára að mynda net hjólaleiða um allt höfuðborgarsvæðið. Koma þarf upp ásættanlegum leiðum þar sem þær vantar og núverandi leiðir þarf að lagfæra með þarfir hjólandi umferðar í huga. Huga þarf að því að leiðirnar séu samfelldar, án óþarfa útúrdúra og fari eins stutta leið og hægt er.

Klára þarf að leggja hjólabrautir meðfram þeim umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins þar sem umferðarþungi / hraði er yfir viðmiðunarmörkum.

 

Þung hröð umferðargata en enginn stígur

Hröð og þung umferð þar sem eru afreinar, aðreinar og mislæg gatnamót,
þarna hefur frá upphafi verið þörf á aðskilinni hjólabraut en ekkert bólar á henni.

 

Greiðar leiðir yfir gatnamót

Þar sem leið hjólreiðafólks liggur yfir gatnamót þarf hún að vera bein og greið líkt og eftir akrein. Krókóttar leiðir gangandi vegfarenda og tvískipt ljós yfir gatnamót henta ekki fyrir hjólandi umferð, og  sér í lagi ekki fyrir þá sem eru með barnakerru eða barnatengihjól aftan í hjólinu og eiga því erfitt með að ná beygjunum. Þrengslin geta valdið gangandi vegfarendum óþarfa óþægindum þegar þeir mæta hjólreiðamanni. Snjóruðningur er erfiður í þessum þrengingum sem á öðrum hjólaleiðum.

teikn-pg600

Á efri teikningunni er sýnt með rauðu hversu flókin leiðin er yfir gatnamót ef
hjólað er eftir gönguleiðinni en bláa línan sýnir beinu leiðina sem ætti að vera.

greið leið fyrir hjól og núverandi gönguleið

Neðri teikningin sýnir sama við gatnamót Kringlumýrar og Miklubrautar en
gæna línan hvernig mætti kljúfa hjólandi umferð af stígnum og beint yfir
gatnamótin samhliða forgangakreininni sem þarna er.

Bein leið yfir stór gatnamót

Stór gatnamót erlendis en bein og greið leið
yfir og umferð gangandi og hjólandi aðskilin

IMG_1693w

Umferðarstýrð umferðarljós - óviðunandi ástand.

Víðsvegar um höfuðborgarsvæðið eru notaðir skynjarar til að skynja umferð við gatnamót og stýra umferðarljósum. Þessir skynjarar skynja sjaldnast reiðhjól svo hjólreiðafólk fær ekki grænt ljós, sama hversu lengi er beðið. Það þarf átak í að lagfæra þetta því það er óviðunandi ástand að gatnakerfinu sé lokað hjólandi umferð með þessum hætti.
Við teljum þetta skýlaust brot á rétti hjólreiðafólks.  

 

Takkastýrð umferðarljós

Takkastýrð umferðarljós erlendis

umferðarskynjarar í götu

Erlendis: Sér nemar fyrir hjólandi og akandi umferð tryggja að umferðarljósin
hleypi öllum yfir, einnig eru fáanlegir myndavélaskynjarar og fleiri lausnir.

 

Önnur áherslumál

 

Forgang og færri höft

Sérreinar þær sem víða hefur verið komið fyrir og eru með afar lítilli umferð ber að nýta fyrir hjólandi umferð, líkt og víða erlendis. Tilgangur lagningar þessara sérreina var að fækka bílum á götunum og með því að bjóða hjólreiðafólki að nota þessar ágætu leiðir fækkar um einn bíl við hvern þann sem velur að nota hjólið umfram einkabílinn.

Umferðarteppa og auð sérakrein sem ætti að nýta fyrir hjólandi

Umferðarteppa og auð sérakrein við Hlemm sem ætti að nýta fyrir hjólandi

Það má greiða götur hjólafólks með ýmsum hætti. T.d. með því að undanskilja þau þeim hömlum sem umferð bifreiða er sett, s.s. að opna fyrir hjólreiðar í báðar áttir eftir einstefnugötum, að upplýsa með skilti um leiðir gegnum botnlangagötur og áfram eftir tengdum stígum og fleira í þeim dúr.

 

Hjólarein á móti einstefnu  

Hjólarein leyfir hjólandi umferð í báðar áttir á einstefnugötu.

Hjólað í báðar áttir Hjólað í báðar áttir

Gatnakerfið hentar hjólafólki best til samgangna

Öruggustu, greiðustu og auðveldustu leiðir reynds hjólreiðafólks liggja eftir hinu almenna gatnakerfi og eðlilega eiga hjólreiðar heima þar samkvæmt lögum. Leiðir hjólafólks eiga að vera samkeppnishæfar þeim leiðum sem ökumönnum er boðið upp á og sambærilegar að gæðum.

Flestar götur henta vel til hjólreiða en þó er víða þörf á átaki til að bæta aðstæður t.d. þar sem akreinar eru það mjóar að það truflar eðlilegt samspil hjólandi og akandi sem aftur skerðir öryggistilfinningu hjólreiðafólks.

Það þarf að gefa reiðhjólinu aukið vægi í skipulagi - sem ökutæki sem notað er til samgangna.

Hjólabrautir, hjólareinar, hjólavísar eða blandaðir stígar?

Víða erlendis hefur verið komið fyrir sér hjólareinum samhliða akbrautum í þeim tilgangi að auka öryggi hjólafólks. Reynslan sýnir að horfa þarf til aðstæðna við val á lausn því röng lausn eykur slysahættu öfugt við tilgang framkvæmdanna. Það eru til viðmiðunarreglur um hvenær hentar að blanda umferð akandi og hjólandi og hvenær ber að leitast við að aðskilja leiðirnar vegna umferðarþunga eða hraða.

 

gagnslaus hjólarein eykur ekki öryggi

Gagnslaus hjólarein sem hvorki eykur öryggi né þægindi.

Norskar viðmiðunarreglur

Norskar viðmiðunarreglur um hvenær sé ráðlegt að blanda umferð hjólandi
og akandi og hvenær umferðin er það þung (y) eða hröð (x) að borgi sig að
aðskylja umferðina með hjólarein eða hjólabraut

Breið akrein með rólegri umferð er ákjósanleg fyrir blandaða umferð.

Samspil hjólandi og akandi umferðar er með besta móti þar sem akbraut er hæfilega breið og umferðarhraði rólegur. Nægt pláss fyrir bifreiðar til að fara fram úr hjólum án þess að þrengja að þeim þó önnur bifreið komi á móti. Þarna geta hjólavísar gagnast til að minna bílstjóra á að þeir deila akbrautinni með hjólandi.

100_2722w


Sumstaðar eru áform um breytingar á götum til að hægja á umferð og ber þar að leita lausna sem sannanlega eru líklegar til að auka öryggi og þægindi hjólreiðafólks.

hönnun sem hægir á umferð

Erlendis: Hönnun sem hægir á umferð

Aðskilnaði fylgja kostir og hættur

Það er þekkt þversögn í öryggismálum hjólreiðafólks að aðgreindar hjólareinar valda stundum aukinni slysatíðni á gatnamótum. Öryggistilfinning á aðgreindum stígum eða reinum er þó að jafnaði mun meiri en í blandaðri umferð sem aftur hvetur til hjólreiða.

Hættan á því að ökumenn séu ekki meðvitaðir um umferð hjólreiðamanns á stíg margfaldast ef hjólaleiðin er hulin gróðri, kyrrstæðum bifreiðum eða öðru. Athyglissvið bílstjóra einskorðast yfirleitt við götuna framundan og hjólreiðamaðurinn því utan athyglissviðs bílstjórans sem gætir ekki að sér þegar leiðir þeirra skerast skyndilega á gatnamótum.

ahorfspunktur

Athyglissvið bílstjóra - mynd úr íslenskri kennslubók.


Aðeins hentar að aðskilja  leiðir þannig að hjólreiðamenn verði síður sýnilegir, þar sem langt er á milli gatnamóta, innkeyrsla og annars þar sem leiðir akandi og hjólandi skerast. Jafnframt þarf sérstaklega að huga að því að vara ökumenn við með merkingum þegar leiðir þeirra skarast við leið hjólreiðafólks á aðskilinni hjólabraut eða stíg.

Þar sem viðmiðunarmörk umferðarþunga og hraða segja til um að hjólabraut henti, háttar oftast líka þannig til að aðstæður fyrir hjólabrautir eru með besta móti. Langt er á milli gatnamóta, innkeyrsla og þeirra staða þar sem leiðir hjólandi og akandi skerast með þeim hættum sem þar geta skapast.

Aðskildar hjólabrautir og -reinar henta illa þar sem stutt er á milli gatnamóta og innkeyrsla eins og algengt er í eldri hverfum og hætt við að þeir veiti aðeins falskt öryggi frekar en raunverulegt öryggi, með tilheyrandi slysahættu samhliða því að óreyndir hjólreiðamenn fara of geyst miðað við aðstæður

Langholtsvegur-vistgata

Íslenskar hugmyndir sem eru skólabókadæmi í gerð slysagildra. Hjólandi umferð falin bak við kyrrstæðar bifreiðar (ekki teiknaðar) í götu með 300 innkeyrslum. Götu sem í dag er breið og góð og merkt með hjólavísum svo samspil hjólandi og akandi er með besta móti.

Hjólavísar geta sameinað kosti mismunandi lausna

Aðskilnaður umferðar hjólandi og akandi eykur mjög flækjustigið í umferðinni og það á kostnað hjólandi fólks sem þarf að vera vakandi fyrir aðstæðum á töluvert stærra svæði. Samspil hjólandi og akandi skaðast því hvor um sig á sitt svæði og gerir ráð fyrir að fá að hafa það út af fyrir sig. Þannig eru ökumenn ekki jafn tilbúnir að víkja fyrir hjólreiðamanni sem þarf skyndilega að sveigja hjá hindrun á hjólareininni. Afmörkunin gefur hjólafólki þannig minna svigrúm til að staðsetja sig eftir þörfum við síbreytilegar aðstæður í umferðinni.

Rannsóknir sýna að við framúrakstur víkja bílstjórar betur fyrir hjólafólki sem þeir deila akrein með en fyrir hjólafólki á þröngt afmörkuðum hjólareinum. Ef gert er ráð fyrir þeirri breidd sem hjólarein tekur en línunni sleppt og leiðin mörkuð með hjólavísum má ná fram kostum hjólareinar án þeirra ókosta sem fylgja aðskilnaði.

hjólavísar

Blandaðir stígar og gangstéttar henta siður  til samgangna.

Stígakerfið á höfuðborgarsvæðinu ber þess glögg merki að vera ekki hannað til samgangna hjólandi fólks. Þó er það nauðsynlegur valkostur fyrir börn og reynslulitla því þeir upplifa sig öruggari þar. Að sama skapi geta þeir nýst vel fólki sem leggja meira upp úr útivist, kyrrð og fjarlægð frá bílum en að komast hratt og örugglega á milli staða. Vel hannaðir stígar þar sem þeir eiga við, hvetja hins vegar til hjólreiða um leið og þeir auka öryggi.

 

blönduð umferð á þröngum stíg

 

Fræðsla og þjálfun. - Aukin áhersla á gagnsemi og heilsubót.

Umræðan einkennist um of af meintum hættum því við nánari skoðun er hjólreiðafólki síst hættara í umferðinni en þeim sem ganga leiðar sinnar svo hjólreiðar geta því ekki talist til hættulegs athæfis. Ef tekið er tillit til þess að reglulegar hjólreiðar til samgangna eru líklegri til að lengja líf og heilsu fólks en nokkur önnur hreyfing og slysatíðnin er minni en í flest öllum íþróttum eru kostirnir augljósir. Mikilvægt er því að fræða fólk um gagnsemi hjólreiða og þjálfa fólk í hjólreiðum t.d. með því að koma á fót kennslu og námskeiðum í notkun reiðhjóla til samgangna eins og Bretar og fleiri þjóðir gera með markvissri þjálfun í hjólafærni (Bikability).

Hjólafærni kennir hjólreiðamönnum að samlagast umferðinni, að temja sér að hræðast hana hvorki né forðast. Þeir læra að bregðast með virkum hætti við þeim aðstæðum sem upp koma á þann hátt sem er öruggastur og auðveldastur í umferðinni. Með þjálfun í hjólafærni má kenna fólki að forðast slysin án þess að hræða fólk frá hjólreiðum.

Öryggismál: Fjölgun hjólreiðafólks á götum = aukið öryggi hjólreiðafólks á götum

Það sem mest eykur öryggi fólks sem notar hjólið til samgangna er aukinn fjöldi hjólreiðafólks í umferðinni. Því má ná fram með jákvæðum áróðri og vönduðum úrbótum í aðbúnaði.

Með hræðsluáróðri eins og stundum hefur einkennt áróður fyrir notkun reiðhjólahjálma er alið á ótta og stundum gengið full langt í þeim afmarkaða hluta öryggismála hjólreiðafólks sem hjálmanotkun er á kostnað annarra mikilvægra atriða. Slíkur hræðsluáróður getur verið valdur að ranghugmyndum um að hjólreiðar séu stórhættulegar.

Notkun reiðhjólahjálma á að vera val hvers og eins. Stærsti hluti mannkyns nýtur þess frelsis að mega hjóla með eða án reiðhjólahjálms og engin rök eru fyrir því að gera hjólreiðar án reiðhjólahjálms að glæp á Íslandi. Reynslan þar sem skyldunotkun hefur verið reynd sýnir afar skaðleg áhrif á heildarhagsmuni hjólreiðafólks og samfélagsins í heild, því hjólreiðafólki fækkar og öryggisáhrif fjöldans minnkar. Umræða og fræðsla um reiðhjólahjálma þarf að byggja á staðreyndum og lofa ekki meiri árangri en tilefni er til og má þar vísa á íslenska rannsókn á virkni reiðhjólahjálma þar sem öll hjólaslys yfir fjögurra ára tímabil voru skoðuð til að meta vernd hjólahjálma í slysum en ekki fannst marktækur munur á milli þeirra sem voru með og án reiðhjólahjálms.

Vegir í dreifbýli og stofnbrautir í þéttbýli

Vegagerðin endurbyggi núverandi vegi þannig að þeir uppfylli núverandi veghönnunarreglur varðandi vegaxlir og öryggisræmur þar sem er kantsteinn. Vegaxlir og öryggisræmur eru hjólreiðafólki afar mikilvægar, sér í lagi þar sem umferð er þung og hröð.  Í þéttbýli er ákjósanlegt að byggja sérstakar hjólreiðabrautir sem valkost hjólreiðamanna við stofnbrautir. Góðar vegaxlir eru mjög mikilvægar fyrir öryggi allra vegfarenda eins og rannsókn sýnir.

Ekki á að skerða samkeppnishæfni reiðhjólsins sem samgöngutækis.

Draga þarf úr niðurgreiðslum til handa bílstjóra í formi gjaldfrjálsra bílastæða við stofnanir, verslanir og fyrirtæki, óbeinnar gjaldtöku af umferðarmannvirkjum og hverju því sem með óeðlilegum hætti dregur úr samkeppnishæfni annarra valkosta við einkabílinn. (**)

Hvetja má atvinnuveitendur til að gera samgöngustefnu og samgöngusamninga þar sem kostnaður við bílastæði og slíkt er gerður sýnilegur með gjaldtöku og /eða starfsmenn verðlaunaðir sem ferðast á umhverfisvænni hátt til vinnu. Fordæmi verkfræðistofunnar Mannvit og Fjölbrautarskólans í Ármúla eru til fyrirmyndar í þessum efnum.

*Sjá grein : Þversagnir í umferðaröryggi
** Sjá bréf til umhverfisráðuneytis um aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem fer nánar út í jafnræði samgöngumáta og niðurgreiðslur til handa notendur bíla.

Brýnustu aðgerðir í málefnum hjólreiðamanna Eldri útgáfa af þessum stefnumálum hjólreiðamanna.

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.