Samgönguhjólreiðar

Nýjasta útgáfa af þessu kennsluefni er að finna á vefnum hjólreiðar.is ásamt miklu af gagnlegu efni fyrir þá sem eru að tileinka sér reiðhjólið sem samgöngutæki: http://hjolreidar.is/samgonguhjolreidar-greinar/samgognuhjolreidar

 

 

Samgönguhjólreiðar – kynning John Franklin

Ráðhús Reykjavíkur. 22. september 2007

 

Inngangur

Tilgangur þessarar kynningar er að gefa gagnlegar ráðleggingar um hvernig best sé að nota reiðhjól sem samgöngutæki (e: vehicular cycling). {jathumbnail off}

Flestir halda að hjólreiðar séu nokkuð sem ekki þarf að læra mikið um, allir kunna jú að snúa pedulunum og koma sér áfram, er þetta eitthvað flóknara? Ja, ef þessi kynning fjallar bara um það sem þið vitið nú þegar, þá er ég mjög ánægður með að hafa svona vel upplýstan áheyrendahóp. Algengast er samt að flestir sem hjóla gætu gert það með auðveldari og ánægjulegri hætti og öruggari að auki, og flestir sem hjóla ekki gætu haft mikinn hag af því að stunda þær ef þeir öðluðust skilning á því hvernig þeir geta yfirstigið ótta sinn og kvíða og öðlast sjálfsöryggi til að hjóla með öruggum hætti í umferðinni.

Sumt af því sem ég segi um bestu hjólaaðferðir kann að virðast öfugsnúið en það er allt í samræmi við það sem fullorðnum og börnum er kennt í Bretlandi undir formerkjum "National Cycle Training Scheme" áætlunarinnar sem hefur verið vandlega metin af sérfræðingum og nýtur stuðnings stjórnvalda, sérfræðinga í umferðaröryggismálum og samtökum hjólreiðafólks.  

Að sjálfsögðu eru mismunandi aðstæður og viðhorf á milli landa en mér skilst að á Íslandi eins og í Bretlandi njóti reiðhjólið lagalegs réttar ökutækis og að hjólreiðafólk njóti sömu réttinda og beri sömu skyldur og  aðrir ökumenn. Þar af leiðandi sýnist mér að þið hefðuð gagn að því að þekkja til meginreglna samgönguhjólreiða.

Ég skal reyna að útskýra aðeins hugtakið samgönguhjólreiðar sem er kannski nýtt fyrir ykkur. Megnið af þessari kynningu mun fjalla um þau lykilatriði hjólafærni sem hjólreiðafólk þarf að búa yfir til að stunda samgönguhjólreiðar, sum þeirra þarf að kynna betur. Síðan mun ég fjalla aðeins um val á leiðum og að lokum segja ykkur frá hjólaþjálfunaráætlunum sem verið er að innleiða í nokkrum löndum og byggja á meginreglum samgönguhjólreiða. Kannski gætuð þið sannfært íslensk yfirvöld um að innleiða eitthvað slíkt hér.

 

Samgönguhjólreiðar

Samgönguhjólreiðar snúast um að nota reiðhjólið sem ökutæki. Reiðhjólið er ökutæki, rétt eins og bílar og mótorhjól, og reiðhjólafólk hefur sömu réttindi og flestar sömu skyldur og aðrir ökumenn.

Hjólandi ökumenn leitast við að samlaga sig umferðinni, hræðast hana ekki né forðast. Þeir stjórna hjólinu eins og ökutæki og bregðast með virkum hætti við þeim aðstæðum sem upp koma á þann hátt sem er öruggastur og auðveldastur. Samgönguhjólreiðar snúast ekki um að fylgja ósveigjanlegum reglum óháð afleiðingunum. Þetta er lang áhrifaríkasta aðferðin til að hámarka öryggi og gera hjólreiðar auðveldar og ánægjulegar. Þótt sumsstaðar hafi verið settar upp hjólabrautir og annar aðbúnaður jafnast ekkert á við almenna gatnakerfið sem öruggur og hagkvæmur kostur fyrir hjólreiðar þegar á heildina er litið, og samgönguhjólreiðar nýta þessa kosti til fulls.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að samgönguhjólreiðar eru ekki aðeins fyrir líkamsræktarfólk. Í flestum tilfellum er það tæknin sem skiptir máli en ekki kraftur og hreysti. Það er vel hægt að stunda samgönguhjólreiðar á rólegum hraða.

Nú kann ég að hafa ruglað einhverja hér. Er það rétt að það sé öruggt að hjóla í umferð? Jafnvel öruggara en ef umferðin er aðskilin? Eru ekki reiðhjól og vélknúin ökutæki ósamrýmanleg í eðli sínu? Ég ætla að fjalla aðeins um algengar ranghugmyndir í öryggismálum hjólafólks.

 

Hlutfallslegar áhættur

Fólk sem hjólar reglulega lifir að jafnaði lengur en fólk sem hjólar ekki og á síður á hættu að tapa heilsunni. Rannsóknir sýna að árangursríkasta leiðin til að lengja lífið er að stunda hjólreiðar. Grafið hér fyrir neðan ber saman áhættuna við hjólreiðar og aðrar algengar athafnir. Hjólreiðar eru ekki aðeins öruggari en augljósar áhættuathafnir eins og klifur og akstursíþróttir, þær eru einnig öruggari en algengar íþróttir eins og tennis, fótbolti og sund. Kannski er ótrúlegast að þær eru öruggari en stangveiði, ég þurfti svolítið að sannfæra sjálfan mig en það eru víst margir sem drukkna við stangveiðar.

Það sem þetta þýðir er sem sagt að hver sem áhættan við hjólreiðar er þá er meiri hætta fólgin í því að stunda þær ekki. Hjólreiðar eru öruggar, rétt eins og það að ganga. Ekki láta telja ykkur trú um annað.

paradox-hlutfall-2w.png

 

Enn fremur, ef þið lærið að hjóla af færni eins og með samgönguhjólreiðum sem ég ætla að lýsa, munið þið auka öryggið enn fremur.

Þó þið munið oft verða vitni að slæmu aksturslagi þá er það oftast fyrirsjáanlegt. Það má búast við því og koma í veg fyrir afleiðingarnar. Enn fremur mun öryggið aukast eftir því sem fleiri hjóla. Góð leið til að auka öryggi þitt í umferðinni er að hvetja vini og fjölskyldu til að hjóla með þér.

En hvað með hjólabrautir og hjólareinar? Slíkur hjólaaðbúnaður getur stundum veitt greiðari eða notalegri leið en aðeins einstaka sinnum veitir hann aukið öryggi. Hætturnar á hjólabrautum eru ekki jafn fyrirsjáanlegar og á götum og getur verið erfiðara að forðast þær. Almennt séð sýnir sagan að hjólabrautir og hjólareinar eru ekki öruggar. Svo notið þær ef þær gagnast ykkur en einbeitið ykkur að því að öðlast kunnáttu til að hjóla á götunum. Öruggasta hjólafólkið er það sem hefur lært tæknina sem notuð er í samgönguhjólreiðum og getur beitt þeirri kunnáttu hvar sem þeir hjóla.

 

Lykilatriði hjólafærni

Lykilatriðin í hjólreiðum eru:

  • Fullkomin stjórn á hjólinu (hvernig á að nota bremsur og gíra, horfa aftur fyrir sig, gefa merki og að knýja hjólið með skilvirkum hætti.
  • Skilningur á umferðarkerfinu
  • Eftirtekt og fyrirhyggja
  • Staðsetning
  • Viðhorf
  • Samvinna, þeir sem langt eru komnir geta virkjað aðra í umferðinni til að auka öryggi á umferðarþungum götum.

 

Staðsetning

Staðsetning er sá grunnþáttur sem gefur hjólreiðamanninum besta færi á að auka öryggi sitt. Markmið með réttri staðsetningu á götu eru:

Athyglissvið bílstjóraa) Að auka öryggi með því að hjóla þar sem þú sérð best til, þar sem aðrir sjá best til þín og geta séð fyrir um hreyfingar þínar og þar sem þú aftrar öðrum frá því að fara þangað sem þeir leggja þig í hættu.

b) Að leita beinustu leiðanna sem spara þér erfiði og auðveldar um leið stjórn hjólsins. Það að forðast að vera ekki fyrir öðrum er ekki góð staðsetning í sjálfu sér. Ökumenn beina athyglinni aðeins að litlum hluta vegarins framundan, þar sem þeir eiga von á hættum (sjá efri teikningu). Þeir sjá fátt annað en það sem er framundan. Þetta svið sem athyglinni er beint að er þröngt og þrengist með auknum hraða. Til að vera sem öruggastur sem hjólamaður þarft þú að vera innan þessa athyglissviðs, ekki utan þess.

image005.pngTil að skilja staðsetningu í umferð þarf líka að gera sér grein fyrir því hvernig umferðin fer eftir götunni þá stundina. Hún flæðir fram hjá kyrrstæðum bílum og öðrum hindrunum en fer ekki endilega eftir akbrautamerkingum á yfirborði gatna. Á neðri teikningunni má sjá skyggða leið umferðarinnar sem hlykkjast framhjá kyrrstæðum bifreiðum og myndi einnig hlykkjast framhjá umferðareyjum. Breidd þeirrar brautar sem umferðin fylgir er breytileg eftir ökutækjunum.

Sem hjólreiðamaður á staðsetning þín alltaf að miðast við flæði umferðarinnar en ekki vegbrúnina. Þetta er ein ástæðan fyrir því að hjólareinar sem fylgja vegbrún geta verið erfiðar og hættulegar.

Í umferðinni ætti hjólamaður að velja sér aðra af helstu staðsetningunum:

Staðsetning í umferð, þegar hjólað er í miðju flæði umferðarinnar eins og neðri hjólamaðurinn á teikningunni. Þannig skal staðsetja hjólið þegar þú getur fylgt hraða umferðarinnar, þegar þú þarft sérstaklega að vera sýnilegur umferðinni framundan eða til að hindra ógætilegan framúrakstur. Þessi staðsetning er sú þar sem hjólreiðamaðurinn er sýnilegastur öðrum og gefur honum besta útsýnið yfir veginn framundan.

Þessi staðsetning getur að sjálfsögðu valdið bílsjórum fyrir aftan hjólið óþægindum svo hjólreiðamaðurinn ætti að færa sig til hliðar við flæði umferðarinnar þegar hún getur með öruggum hætti tekið fram úr hjólinu.

Hliðarstaðsetning er um 1m til hliðar við flæði umferðarinnar en aldrei nær vegbrúninni en hálfum meter, sjá efri hjólreiðamanninn á teikningunni. Færðu þig aftur inn í umferðina áður en þú kemur að næstu hættu með því að líta aftur fyrir þig í leit að öruggri staðsetningu, gefa merki til vinstri og fara síðan inn í umferðina.

 

Flæði umferðar

Staðsetning í reynd

Þar sem hjólað er fram hjá hliðargötu er gott dæmi um hvar maður á að beita staðsetningunni til að auka öryggi sitt, sjá efri teikningu.

Helstu áhættuþættirnir eru þrír: Ein er frá ökutækjum sem koma úr hliðargötunni án þess að virða rétt hjólamannsins eða af því bílstjórinn tók ekki eftir honum sem getur verið erfitt ef hjólað er upp við kantinn.

Annar áhættuþáttur er bíll sem fer fram úr þér og tekur síðan hægri beygju.

Þriðji eru bílstjórar sem koma úr gagnstæðri átt og taka vinstri beygju í veg fyrir þig.

Ef þú ert viss um að engar hættur séu til staðar getur þú hjólað áfram en annars getur þú gert þig sýnilegri með því að færa þig í miðja umferðarleiðina þegar þú nálgast gatnamótin auk þess sem það fælir aðra frá því að taka fram úr þér og gefur þér svigrúm í neyð ef réttur þinn er ekki virtur.

 

Framúrakstur

framúraksturFramúrakstur er annað dæmi um aðstæður þar sem hjólreiðamaður ætti að fara inn í umferðina tímanlega, og hjóla síðan í öruggri fjarlægð frá bílhurðum sem gætu verið opnaðar, sjá teikningu og mynd. Ef þú dregur of lengi að fara inn í umferðina verður það erfiðara og líklegra til að valda ruglingi eða ágreiningi.Ef það eru nokkur ökutæki sem þarf að taka fram úr með stuttu millibili, haltu þá staðsetningunni þar til þú ert kominn fram úr þeim öllum.  framúrakstur

 

 

 

Hægri beygja

beygt til hægriAð beygja til hægri kann að virðast einfalt en þú þarft enn að gæta þín á óþolinmóðum ökumönnum fyrir aftan þig sem gætu reynt að taka fram úr þér og fara síðan í veg fyrir þig eða ökumönnum sem koma á móti og beygja of fljótt í veg fyrir þig.

Það kann að virðast einkennilegt að fara fyrst til hægri til að beygja til vinstri en reyndu að gera þeim sem eru á eftir það ljóst hvað stendur til og ef einhver af áhættuþáttunum er til staðar skal taka hægri beygjur úr miðri umferðinni. Haltu þeirri staðsetningu á hliðargötunni þar til öruggt er að færa sig til hliðar við umferðina.

Myndin sýnir hægri beygju úr hliðargötu inn í aðalgötu. Takið eftir hvernig hjólreiðamaðurinn undirbýr strax að taka fram úr kyrrstæðu bifreiðinni með því að hjóla ekki við vegarbrún.

Ættir þú að gefa merki um hægri beygju? Almenna reglan segir já en í raun er þá hætta á að það myndi hvetja bílstjóra á eftir þér að taka fram úr þér á gatnamótunum, nokkuð sem er algengt í Bretlandi. Þú verður að meta aðstæðurnar hverju sinni og gefa merki ef það gagnast öðrum án þess að setja þig í hættu, en það er ekki alltaf gott að gefa merki um hægri beygju.

 

við gatnamót

Gatnamót

Gatnamót, s.s. við umferðarljós, eru dæmigerðir staðir þar sem sumir hjólreiðamenn leggja sig í hættu.

Það er skiljanlegt að hjólreiðamaður vilji ekki bíða fyrir aftan langa röð bifreiða en að hjóla alveg við vegbrún framhjá bifreiðum eru hættulegar aðstæður. Það er miklu betra að fara inn í umferðina á þeirri akrein sem leið þín segir til um. Ef þú kemur þér fram hjá langri röð bifreiða blandaðu þér þá aftur í umferðina tveim ökutækjum áður en þú kemur að gatnamótunum. Ef það eru aðeins nokkur ökutæki á undan tapar þú ekki miklum tíma með því að halda þig fyrir aftan þá. Það er einnig oft öruggara að fara vinstra megin fram úr bifreiðaröð heldur en hægra megin.

 

Vinstri beygja

image017.pngVinstri beygjur á götu með tveim akreinum eru ekkert flóknari en framúrakstur. Færðu þig eftir þörfum úr hliðarstaðsetningu inn í umferðina en ekki of nálægt gatnamótunum. Ef þú þarft að bíða vegna umferðar á móti þá ættir þú ekki að stoppa of nærri miðlínunni og ekki að vera feiminn við að stöðva umferð fyrir aftan þig ef hún kemst ekki með öruggum hætti framhjá þér. Þegar leiðin er greið beygðu þá inn í hliðargötuna en gættu þín á umferð úr hliðargötunni. Að gefa merki um vinstri beygju er mjög mikilvægt því þetta er öryggismerki til annarra um hvert leið þín liggur.

Að beygja til vinstri á breiðari götum er flóknara en þó fært flestu vönu hjólreiðafólki. Það krefst meiri færni í því að ná tengslum við aðra ökumenn og fá þá til að aðstoða. Þessari tækni og fleirum er lýst í bókinni "Cyclecraft".

 

hringtorg

Hringtorg

Hringtorg. Margir hjólreiðamenn óttast hringtorg en flest þeirra þurfa þó alls ekki að vera vandamál þó erfitt sé að alhæfa um þau, það fer allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Þrjú af fjórum slysum sem snerta hjólreiðamenn við þessar aðstæður eiga sér stað þegar hjólreiðamaður fer fram hjá hliðargötu. Bílstjórar beina athygli sinni fram á veginn til vinstri þar sem þeir eiga von á umferð. Mikilvægasta regla hjólreiðamanna í hringtorgum er að hjóla aldrei við ystu brún hringtorgsins. Fylgið umferðinni eins og frekast er kostur.

Á teikningunni eru hjólreiðamenn A og B staðsettir þar sem þeir sjást illa og eru því mjög berskjaldaðir. Hjólamaður C er betur staðsettur.

Það er best að staðsetja sig inni í umferðinni áður en komið er að hringtorgum með einni akrein og að forðast að hjóla meðfram ytri brúninni.

hringtorg tvær akreinarHringtorg með tveim akreinum eru flóknari og á leiðum þar sem umferðarhraði er mikill þá eru þau meðal fárra staða þar sem það gagnast að ná að hjóla hratt. Aftur, haldið ykkur alltaf frá ytri brún, hjólið í umferðinni á þeirri akrein sem þið ætlið að fylgja og reynið að virkja ökumenn til samvinnu þar sem því verður viðkomið til að verja ykkur. Samvinna í umferðinni gegnir lykilhlutverki í miklum umferðarþunga.

 

 

 

 

blindsvæði

Löng ökutæki

Stundum verður þú að aðlaga þig að þeirri umferð sem þú mætir og löngum ökutækjum fylgja sérstakar hættur. Ég hef lagt áherslu á að hjóla þar sem þú sést og löng ökutæki hafa mikið stærri blindsvæði en fólksbílar og litlir sendibílar. Teikningin sýnir að ef þú hjólar á blindsvæðinu sér bílstjórinn þig ekki og þú sérð heldur ekki fram fyrir þig. Ef þú sérð ekki hliðarspegil ökutækisins fyrir framan þig sér ökumaðurinn þig ekki heldur. Svarið er að hjóla aftar og til vinstri við ökutækið þar sem þú verður sýnilegastur.

image027.png

Löngum ökutækjum fylgja enn fleiri hættur þegar þeim er beygt til hægri, því miðhluti ökutækisins fer mikið lengra til hægri en fram- eða afturhlutinn.

Hjólreiðafólki stafar mikil hætta af þessum ökutækjum ef þau þrengja þannig að leið hjólafólks við hægribeygju. Aldrei fara fram úr löngu ökutæki, ekki einu sinni á hjólarein, nema þú sért 100% viss um að það færi sig ekki á þeim tíma sem tekur þig að fara framúr því. Fylgist með sama hætti með löngum ökutækjum þegar þið takið vinstri beygju við gatnamót.

 

 

Hjólaaðbúnaður

Ég hef nefnt það áður að hjólastígar eru oft ekki þeir ákjósanlegu staðir til hjólreiða sem margir halda. Ég ætla nú að benda á nokkur af vandamálunum og hvernig má draga úr þeim.

misstórt sjónarhornTeikningin til hliðar sýnir tvo hjólreiðamenn, einn á stíg og annan á götu, og sjónarhornið sem þeir þurfa að fylgjast með til að greina aðsteðjandi hættur.

Það er mun auðveldara fyrir hjólreiðamanninn á götunni að fylgjast með sínu litla sjónarhorni því hann þarf einungis að hreyfa augun. Hjólamaðurinn á stígnum þarf að hreyfa allt höfuðið til að fylgjast með sínu stóra sjónarhorni, sem er seinlegra og meiri hætta á að breyttar aðstæður fari fram hjá honum. Meðan hjólamaðurinn á götunni blasir við umferð sem kemur úr sömu átt eða gagnstæðri þá er hjólamaðurinn á stígnum utan þess svæðis sem ökumenn beina athygli sinni að og því verður hann að passa sig sjálfur.

Notið þessa stíga ef ykkur finnst þeir gagnast ykkur og að áhætturnar séu viðráðanlegar, en ekki líta á þá sem öruggar leiðir því það eru þeir ekki. Verið viðbúin því að fara hægar yfir og varið ykkur sérstaklega þegar stígurinn þverar götur og gatnamót.

hjólareinSvipað á við um hjólareinar. Hjólafólk kvartar oft yfir að bílar gefi því ekki sama rými þegar ekið er framúr því þar sem hjólarein er til staðar en þar sem hún er ekki til staðar, þar sem bílstjórunum finnst í lagi að keyra upp að línunni en hefðu annars vikið betur frá. Rannsóknir sýna að bílstjórar fara jafnframt fram úr á meiri hraða en ella. Hjólareinar geta haft sína kosti þegar t.d. er farið fram úr röð bíla sem eru kyrrstæðir eða hreyfast hægt en þó eru hjólreiðamenn alltaf berskjaldaðir gagnvart því þegar bílhurðir opnast óvænt.

Við gatnamót staðsetja hjólareinar þig einmitt þar sem hættan er mest, sjá mynd, þar sem önnur ökutæki fara inn á gatnamótin án þess að taka eftir þér. Ef það er gerlegt ættir þú að færa þig út í umferðina til að taka meira rými eða þá að þú verður að hægja á þér og fara sérlega varlega.

 

Að velja sér leið

Leiðin sem þú velur þér hefur mikil áhrif á hversu ánægjuleg ferðin verður. Hjólreiðamenn hafa oft meira val um leiðir en ökumenn bifreiða og þið ættuð að nýta ykkur það.

Þegar þú hefur öðlast nægjanlega færni getur þú hjólað hvaða leið sem þér er leyft að hjóla um samkvæmt lögum en líklega verður leiðin ánægjulegri og lausari við streitu ef þú forðast eftirfarandi:

  • Gatnamót með hraðri umferð og flókinni hliðarumferð. Stór gatnamót og hringtorg eru algengustu dæmin.
  • Þröngar yfirfullar götur. Ef þú er ekki tilbúinn til að sitja í hægfara umferðinni er hætta á að þú freistist til að taka framúr þar sem ekki er öruggt pláss til þess.
  • Þröngar götur með röð kyrrstæðra bifreiða. Hurðir geta opnast mjög óvænt eða fólk skotist út á götu milli bílanna. Þessar götur krefjast mikillar eftirtektarsemi þó þar sé ekki mikil umferð.
  • Hliðarvegir sem hafa ekki forgang. Sumir hliðarvegir eru ágætir, sérstaklega þeir sem bjóða hjólreiðafólki leiðir sem bjóðast ekki öðrum, en ef þú þarft ítrekað að stoppa og taka af stað verður hjólaferðin erfiðari og hættan á mistökum eykst.

Góðar leiðir eru með léttri umferð eða litlum hraða en umfram allt nægu rými. Umferðarþung gata getur verið ágæt til reglulegra ferða ef akreinarnar eru nægilega breiðar, gatnamótin hefðbundin og hraðinn hóflegur.

Ef þú hjólar eftir götum með mikilli en hægri umferð er ýmis tækni sem er vert að temja sér til að auka öryggi sitt í umferðinni. Góð staðsetning í umferðinni er lykilatriði ásamt því að horfa fram á veginn og stilla hraða þinn þannig að þú þurfir sem sjaldnast að stoppa. Það dregur úr þreytu. Að mjaka sér fram úr bílaröðinni getur hjálpað þér áleiðis en þarf að gera af mikilli varkárni og það getur verið öruggara vinstra megin við röðina en við vegbrúnina. Svona tækni er bara ein af fjölmörgum sem notaðar eru í samgönguhjólreiðum af þeim sem langt eru komnir.

 

Hjólaþjálfun

Verið er að innleiða áætlanir um hjólaþjálfun sem byggja á samgönguhjólreiðum í fjölda landa um þessar mundir. Ég var viðriðinn Bresku hjólaþjálfunaráætlunina. "The UK National Cycle Training Standard" sem var komið á 2001 að frumkvæði CTC, hinna bresku landssamtaka hjólreiðamanna. Kennsluáætlunin var skrifuð af stýrihópi sem samanstóð af opinberum starfsmönnum sem störfuðu bæði á landsvísu og í sveitarfélögum, hjólreiðafólki og samtökum sem þegar störfuðu við hjólaþjálfun. Hún var byggð á bók minni Cyclecraft (Hjólafærni) og ég var hluti af stýrihópnum. Síðan var komið á stjórnkerfi og gæðastaðli, þar á meðal skrá á landsvísu yfir þá sem höfðu öðlast þjálfunarréttindi. Opinbert fjármagn kostar skráningu og þjálfun þeirra sem sækja um þjálfunarréttindi. Aðeins þeir sem hjóla reglulega geta fengið þjálfunarréttindi. Þjálfun er síðan veitt af sjálfstætt starfandi þjálfurum, sérhæfðum þjálfunarsamtökum eða sveitarstjórnum.

Þjálfun fullorðinna eftir nýja staðlinum byrjaði 2003 og í ár (2007) var byrjað að þjálfa börn í Englandi. Svipuð markmiðssetning er væntanleg í Skotlandi, Wales og Norður Írlandi.

Markmiðið er að helmingi allra 11 ára barna bjóðist þjálfun í hjólreiðum fyrir 2009 og öllum á þessum aldri fyrir 2011.

johnfranklin_paradoxes_in_cycling_safetyHjólaþjálfun fullorðinna er oft kostuð af atvinnurekendum, þar má nefna stjórnvöld á landsvísu, sveitarfélög og lögreglu, ásamt vaxandi fjöldi einkarekinna fyrirtækja.

Ef þú hefur áhuga á hjólaþjálfun, hvort sem það væri sem verðandi nemandi eða skipuleggjandi eða kennari, þá ættir þú kannski að hvetja stjórnvöld eða sveitafélagið þitt til að innleiða eitthvað í svipuðum dúr.

Bókin mín, Cyclecraft (Hjólafærni),er bókin sem notuð er við þjálfun eftir Breska hjólaþjálfunarstaðlinum og fjallar ítarlega um allar hliðar samgönguhjólreiða sem ég hef talað um hér og mikið meir. Þó hún sé skrifuð með vinstri umferð í huga á meirihluti efnisins við allsstaðar og mér er sagt að það sé auðvelt að horfa á teikningarnar í spegli! 

John Franklin
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
www.cyclecraft.co.uk

ISBN 978-0-11-703740-3

Þýðing: Páll Guðjónsson

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.