Umsagnarnefnd Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) hefur skoðað tillögu þar sem gert er fyrir að breyting sé gerð á ákvæðum sem ná til stígakerfa í 4. kafla aðalskipulags Garðabæjar 2016-2030. Viðfangsefni breytingartillögunnar er heildarendurskoðun á stígakerfi Garðabæjar og er áætluninni ætlað að vera til leiðbeiningar fyrir deiliskipulagsgerð, verkhönnun og uppbyggingu stíga í Garðabæ til framtíðar. Markmiðið er að til verði stefna um vistvænar samgöngur og uppbyggingu stígakerfisins í þágu útivistar og lýðheilsu og umhverfisverndar, með öryggi að leiðarljósi.
LHM eru jákvæð í garð þessarar tillögu um breytingu á aðalskipulagi, sem felur í sér heildarendurskoðun á stígakerfi Garðabæjar. Samtökin eru þó með nokkrar athugasemdir við tillöguna sem koma hér að neðan.
LHM vilja jafnframt leggja til að þetta tækifæri verði notað af sveitarfélaginu til að setja sér hjólreiðaáætlun eða áætlun um virkar samgöngur. Í slíkri áætlun ætti að felast stefnumótun um hlutdeild virkra ferðamáta, stefna um gerð stíga og um gerð hjólastæða við vinnustaði og skóla, samgöngusamningar með samgöngugreiðslum fyrir starfsmenn og stefna um breytt hugarfar til að hvetja til breyttra ferðavenja. Fjármögnun ætti að vera hluti af áætluninni. Samtökin hyggjast senda sveitarfélaginu sérstakt erindi um þetta efni á næstunni.
Athugasemdir við einstök atriði í tillögunum.
- Áningarstaðir. Staðsetning áningarstaða á ekki að hvetja til þess að aðgreindir hjólastígar séu þveraðir af gangandi til að komast á áningarstaði. Áningarstaður ættu almennt að vera þeim megin sem göngustígur er eða milli göngu- og hjólastígs.
- Staðsetning hjóla og göngustíga gagnvart akbrautum og vatni.
Sú hefð hefur skapast á Íslandi að aðgreindir hjólastígar eru hafðir nær akbrautum heldur en göngustígar og göngustígar eru hafðir nær sjó og vatni heldur en hjólastígar. Það má taka fram þessa almennu reglu í aðalskipulaginu. - Lega stíga.
- Samgöngustígar.
Lega samgöngustígs meðfram Reykjanesbraut er óráðin. Þarna hefði farið best á því að skilgreina annaðhvort stíginn vestan við eða austan við Reykjanesbrautina sem samgöngustíg og gera hann þannig úr garði að hann væri með beinni legu. - Stofnstígar.
- Stofnstígar yfir Garðahraun eru almennt of krókóttir eins og sjá má af uppdrætti (1. mynd). LHM hefur ítrekað mælt með lagningu beinni stiga yfir Garðahraun sem hefðu meiri einkenni stofnstíga en af einhverjum ástæðum hafa yfirvöld (Garðabær, Vegagerðin og Umhverfisstofnun) þráast við og búið til krókótta stíga jafnvel þótt það þýði lengri stíga og að meira af vernduðu hrauni fari undir stígana. Þessir stígar uppfylla sennilega ekki að öllu leyti hönnunarleiðbeiningar fyrir reiðhjól og skapa meiri hættu á árekstrum og falli vegna hálku í beygjum, sem er miður.
- Stofnstígur þarf að tengja Vífilsstaðaveg við Kórahverfi í Kópavogi meðfram Vatnsendavegi (2.mynd). Updráttur tekur ekki af öll tvímæli um að það verði raunin.
- Tengistígar.
LHM hefur bent á þörfina á að hafa tengistíg frá fyrirhuguðum stofnstíg meðfram Vatnsendavegi frá Vífilsstaðavatni að Salahverfi í Kópavogi að stíg við Öldusali. (2. mynd) - Útivistarstígar.
LHM hefur bent á þörfina á stíg t.d. útivistar tengistíg frá skátaskála austan Grunnuvatna að Guðmundarlundi í Kópavogi í samskonar legu og núverandi línuvegur.
- Samgöngustígar.
- Flokkun stíga
- Reiðstígar að gerð 2. Það eru stígar í náttúru og fjarri hesthúsahverfum og að minnsta kosti 3,5 metrar að breidd. Það kemur fram að þeir séu eingöngu fyrir ríðandi og að þeir ákvarðast í deiliskipulagi og verkhönnun. Ekki liggur fyrir lega þeirra i aðalskipulagi á uppdrætti. Skilningur LHM er að stígar að gerð 2 geti aðeins verið aðalstígar ríðandi í mörkinni og fyrst og fremst þeir stígar sem eru í notkun allt árið. Æskilegra hefði verið að skilgreina þá stíga sem eru að gerð 1 og 2 í aðalskipulagi svo hægt hefði verið að ræða legu þeirra. Ákveðin hætta er á að margir reiðstígar verði túlkaðir sem gerð 2 og það myndi takmarka aðgengi annara á milli útivistarsvæða. Minna má á að notkun ríðandi og hjólandi á stígum er að miklu leyti á ólíkum árstímum. Ríðandi nýta þá einkum þegar líða tekur á veturinn og fram á vor og hjólandi á sumrin og fram á haust. LHM óskar eftir því að kallað verði eftir sjónarmiðum hjólandi þegar deiliskipulag reiðstíga er í umfjöllun.
- Útivistarstígar. Um þá segir að þeir séu fyrir blandaða umferð. Inni á kortinu er stígurinn í Búrfellsgjá merktur sem útivistarstígur en núna er búið að koma fyrir skilti sem bannar hjólandi að nota stíginn. Ef það á að banna hjólreiðar á einhverjum stíg þarf að mati LHM að gera það eftir auglýsingu og með fyrirvara svo hjólandi geti komið sínum sjónarmiðum að. Þá þarf að leggja mat á það hvort leggja þurfi annan stíg sem heimilar hjólreiðar á sömu slóðir til að tryggja aðgengi og samgöngur milli útivistarsvæða. Árstíðabundnar lokanir koma til greina þar sem jarðvegur er viðkvæmur eða vernda þarf náttúru en það ætti þá með sama hætti að vera að undangenginni auglýsingu.
1. mynd. Krókóttir stofnstígar í Garðahrauni.
2. mynd. Tillaga að legu stíga meðfram Vatnsendavegi og yfir golfvöllinn að Öldusölum.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar LHM
Árni Davíðsson
Um Landssamtök hjólreiðamanna
Landssamtök hjólreiðamanna ( LHM) eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði m.a. að efla hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Öll helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga sem telja yfir 2000 manns heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists' Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. Aðildarfélög ECF er að finna í flest öllum löndum Evrópu. LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi.