Hjólreiðaáætlun Akureyrarbæjar

Erindi um: Hjólreiðaáætlun Akureyrarbæjar (PDF)

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) vilja með erindi þessu hvetja Akureyrarbæ til að leggja fram hjólreiðaáætlun fyrir bæinn, með mælanlegum markmiðum um árangur, í framhaldi af greinargerð um stígakerfi bæjarins.

Til mikils er að vinna fyrir grænar og virkar samgöngur, sem styðja við loftlagsmarkmið og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, sem og til þess að reyna að draga úr aukningu á bílaumferð, að Akureyrarbær hafi skýra stefnu um hvernig hlutur hjólreiða í samgöngulitrófinu verði aukinn og samofinn öðrum virkum, vistvænum og skilvirkum samgöngumátum; hvort sem það er með hjólastíganýframkvæmdum, uppsetningu öruggra hjólastæða í skjóli fyrir veðri&vindum, vetrarþjónustu fyrir hjólreiðar sem samgöngumáta, eða átaksverkefnum til að auka hlut hjólreiða, svo örfá dæmi séu tekin.

LHM er ekki kunnugt um að Akureyrarbær, höfuðstaður Norðurlands, sé með hjólreiðaáætlun í gildi en sum stærstu sveitarfélög landsins eru með slíka áætlun í gildi eða í vinnslu, t.d. Reykjavíkurborg (2021–2025; uppfærsla er í vinnslu), Hafnarfjarðarbær (2023–2029) og Garðabær (í vinnslu).

Fyrir um 5 árum síðan, 21. maí 2020, sendi LHM umsögn „Nýtt stígakerfi Akureyrarbæjar“ til bæjarins og sagði þar m.a.


Hjólreiðaáætlun.

Greinargerð með tillögunni er ítarleg og fjölbreytt. Kannski gæti greinargerðin verið grunnur að sérstakri göngu- og hjólreiðaáætlun fyrir Akureyri. Í göngu- og hjólreiðaáætlun þarf, auk þess að lýsa nauðsynlegum framkvæmdum, að fjalla um ferðavenjur og þær mjúku aðgerðir sem hvetja til hjólreiða og göngu og hvernig þær eru kynntar.


LHM vill endurnýja þessa áskorun og hvetja til þess að bærinn leggi fram hjólreiðaáætlun.

Meðal annars ætti hjólreiðaáætlunin að vera byggð á þessari greinargerð um stíga, þar sem markmið um framkvæmdir væru tímasett í grófum dráttum.

Í tengslum við þessar framkvæmdir gæti bærinn mótað sér stefnu í hjólreiðaáætlun um skynsamlegar og öruggar hjáleiðir fyrir gangandi&hjólandi þegar framkvæmdir eru í bæjarlandinu, hvort sem það eru eigin framkvæmdir bæjarins eða annarra.

Skoða þarf áform um uppsetningu hjólastæða og annarrar aðstöðu fyrir hjólreiðar. Einnig þarf áætlun um stæði fyrir smáfarartæki (rafskútur / rafhlaupahjól) og jafnframt hvernig koma megi í veg fyrir að smáfarartæki séu skilin eftir á hjólastígum þar sem þau valda hættu.

Því tengt eru margskonar átaksverkefni möguleg; t.d. að skoða hvernig auka megi hlutdeild hjólandi á stóra vinnustaði og á stór vinnusvæði og hvernig þau svæði eru tengd saman á skilvirkan og öruggan hátt fyrir hjólreiðafólk. Hér má líka skoða í hjólreiðaáætlun að bærinn gangi á undan með góðu fordæmi fyrir einkafyrirtæki og opinberar stofnanir í bænum með fyrirmyndaraðstöðu fyrir hjólandi á starfsstöðvum bæjarins – þ.m.t. sérstaka aðstöðu fyrir starfsmenn bæjarins (t.d. læstar hjólageymslur, sturtur og búningsherbergi, og þurrkklefa) sem og samgöngustyrki til að hvetja starfsmenn bæjarins til að nota ekki einkabíla til&frá vinnu, og auglýsi vel framtak sitt.

Sérstaklega þarf að huga að vetrarþjónustu í hjólreiðaáætlun, bæði þjónustu við stofn- og safnstíga en líka hvernig hjólreiðafólk kemst inn á þá stíga úr húsagötum.

Að lokum vill LHM benda á að Akureyrarbær þarf að leggja til fjármuni í hjólastíganýframkvæmdir. Sem dæmi þá ver Reykjavíkurborg 550 milljónum árlega í sínar eigin hjólastígaframkvæmdir. M.v. mannfjölda Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar ætti Akureyrarbær að verja um 80 milljónum árlega í sínar eigin hjólastígaframkvæmdir bara til að standa borginni jafnfætis. LHM vill hvetja bæinn til að vera hér í fararbroddi og verja um 90-100 milljónum árlega í sínar eigin hjólastígaframkvæmdir.

Bærinn ætti að sjálfsögðu að leita samstarfs við Vegagerðina um mörg verkefni (þ.m.t. um fjármögnun) m.a. þar sem hringvegurinn fer í gegnum bæinn og skoða mætti hvernig hjólastígar séu lagðir samhliða honum. Einnig vegna þess að aukning hefur orðið á umferð um Akureyrarflugvöll og æskilegt væri að það sé hjólastígur milli miðbæjarins og flugvallarins, sem og aðstaða fyrir starfsmenn og ferðalanga á flugvellinum sjálfum. Stærra samhengið þar er auðvitað allt litróf samgangna til&frá flugvellinum, þ.m.t. almenningssamgöngur, sem eru engar á flugvellinum í dag.

Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna


Erlendur S. Þorsteinsson
formaður stjórnar

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.