Til mikils er að vinna fyrir grænar og virkar samgöngur, sem styðja við loftlagsmarkmið og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, sem og til þess að reyna að draga úr aukningu á bílaumferð, að Kópavogsbær hafi skýra stefnu um hvernig hlutur hjólreiða í samgöngulitrófinu verði aukinn og samofinn öðrum virkum, vistvænum og skilvirkum samgöngumátum; hvort sem það er með hjólastíganýframkvæmdum, uppsetningu öruggra hjólastæða í skjóli fyrir veðri&vindum, vetrarþjónustu fyrir hjólreiðar sem samgöngumáta, eða átaksverkefnum til að auka hlut hjólreiða, svo örfá dæmi séu tekin.
LHM er ekki kunnugt um að Kópavogsbær, annað stærsta sveitarfélag landsins, sé með hjólreiðaáætlun í gildi en sum nágrannasveitarfélög bæjarins eru með slíka áætlun í gildi eða í vinnslu, t.d. Reykjavíkurborg (2021–2025; uppfærsla er í vinnslu), Hafnarfjarðarbær (2023-2029) og Garðabær (í vinnslu).
Einkum og sér í lagi vegna þess að Reykjavíkurborg er í ár (2025) að vinna nýja hjólreiðaáætlun (sem verður líklega 2026-2030), og mörk borgar og bæjar er aðliggjandi og hjólaleiðir tengjast og skarast, vill LHM sérstaklega hvetja til þess að bærinn stefni að því að setja sér hjólreiðaáætlun með svipaðan tímaramma og borgin og að í hjólreiðaáætlunum bæjar og borgar verði sérstaklega skoðuð sameiginleg verkefni.
Sem dæmi um slík sameiginleg verkefni vill LHM nefna:
• tengingu Fossvogsdals (í gegnum Kópavogsbæ við Fossvogsbrún) við Elliðaárdal ofan stíflu við Höfðabakkabrú
• betri tengingu Breiddar og Mjóddar (sérstaklega fyrir gangandi farþega Strætó en líka hjólandi), • hjólastíga í kringum væntanlega Fossvogslaug, • tengingu á milli Jaðarsels og Ögurhvarfs sunnan Breiðholtsbrautar, og • uppfærslu á Selhryggsstígnum (milli Linda- og Salahverfa Kópavogs og Seljahverfis Reykjavíkur) í göngu- og hjólastíga:
Af verkefnum innan Kópavogsbæjar má nefna samgönguhjólastíga meðfram Dalvegi og/eða í Kópavogsdal; sem myndu tengjast við stofnleiðir við undirgöng undir Hafnarfjarðarveg við Þinghól og þaðan þræða suðurströnd Kársness beina og greiða leið án óþarfa hæðarbreytinga að Öldu, brú yfir Fossvoginn, sem eru verkefni í Samgöngusáttmálanum:
Einnig þarf að bæta aðstæður hjólandi allt í kringum Smáralindina, þ.m.t. á Smáratorgi og í Hlíðarsmára og nálægum götum.
Í tengslum við þessar og aðrar framkvæmdir gæti bærinn mótað sér stefnu í hjólreiðaáætlun um skynsamlegar og öruggar hjáleiðir fyrir gangandi&hjólandi þegar framkvæmdir eru í bæjarlandinu, hvort sem það eru eigin framkvæmdir bæjarins eða annarra. Þegar þetta er ritað er nokkur misbrestur á þessu í framkvæmdum meðfram Fífuhvammsvegi og mjög mikill misbrestur á þessu í framkvæmdum á Arnarnesvegi við Rjúpnaveg.
Sérstaklega þarf að huga að vetrarþjónustu í hjólreiðaáætlun, bæði þjónustu við stofn- og safnstíga en líka hvernig hjólreiðafólk kemst inn á þá stíga úr húsagötum: Því miður er það vaninn í dag að moka húsagötur þannig að risastór snjóhraukur myndast innst í hverri götu og þá lokast leið hjólreiðafólks á stíga sem fara þar á milli. Í nokkrum tilfellum þarf að vinna þetta í samstarfi við Reykjavíkurborg, t.d. tengingar í Fossvogsdal, tengingar á milli Mjóddar og Breiddar, og tengingar inn á Selhryggsstíginn.
Skoða þarf áform um uppsetningu hjólastæða og annarrar aðstöðu fyrir hjólreiðar. Einnig þarf áætlun um stæði fyrir smáfarartæki (rafskútur / rafhlaupahjól) og jafnframt hvernig koma megi í veg fyrir að smáfarartæki séu skilin eftir á hjólastígum þar sem þau valda hættu.
Því tengt eru margskonar átaksverkefni möguleg; t.d. að skoða hvernig auka megi hlutdeild hjólandi á stóra vinnustaði, svo sem skóla, og á stór vinnusvæði, svo sem Breidd, Dalveg, Smáratorg, Smáralind, Hlíðarsmára (og nálægt svæði). Hér má líka skoða í hjólreiðaáætlun að bærinn gangi á undan með góðu fordæmi fyrir einkafyrirtæki og opinberar stofnanir í bænum með fyrirmyndaraðstöðu fyrir hjólandi á starfsstöðvum bæjarins – þ.m.t. sérstaka aðstöðu fyrir starfsmenn bæjarins (t.d. læstar hjólageymslur, sturtur og búningsherbergi, og þurrkklefa) sem og samgöngustyrki til að hvetja starfsmenn bæjarins til að nota ekki einkabíla til&frá vinnu.
Það væri eðlilegt að horfa á hjólreiðaáætlun Kópsvogsbæjar 2012 til að sjá hver staðan sé í dag í samanburði og hvað eigi enn við úr þeirri eldri áætlun, en hafa verður í huga að mjög margt hefur breyst á 13 árum.
Að lokum vill LHM benda á að Kópavogsbær þarf að leggja til sína eigin fjármuni í hjólastíganýframkvæmdir; óháð öllum greiðslum í Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, óháð öllum framlögum úr þeim sjóði, óháð þeim verkefnum sem sá sjóður fjármagnar, og óháð fjármunum sem varið er í almenna göngustígagerð innan hverfa. Sem dæmi að þá ver Reykjavíkurborg 550 milljónum árlega í sínar eigin hjólastígaframkvæmdir. M.v. mannfjölda Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar ætti Kópavogsbær að verja um 160 milljónum árlega í sínar eigin hjólastígaframkvæmdir bara til að standa borginni jafnfætis. LHM vill hvetja bæinn til að vera hér í fararbroddi og verja um 180-200 milljónum árlega í sínar eigin hjólastígaframkvæmdir.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna
Erlendur S. Þorsteinsson
formaður stjórnar