Samantekt
Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) vilja með erindi þessu koma á framfæri athugasemdum við umferðaröryggi hjólreiðamanna á hjólastíg við Álfabakka 6 og 4, sem og hönnun og merkingar/skiltun þess stígs, og lýsa yfir mjög þungum áhyggjum sínum af umferðaröryggi hjólreiðamanna ef sama hönnun verður notuð við Álfabakka 2.
Erindi
Í upphafi þessa árs bárust af því fréttir að árið 2024 hefði verið það heitasta frá upphafi mælinga og að meðalhiti í heiminum mældist í fyrsta sinn meira en 1,5°C hærri en fyrir iðnbyltingu (sjá t.d. https://www.ruv.is/frettir/erlent/2025-01-10-2024-heitasta-ar-fra-upphafi-maelinga-432740). Svokallað Parísarviðmið er þó enn ekki fallið; þar er miðað við 20 ára meðaltal; en ljóst að þetta er vond þróun og viðmiðið er í augljósri hættu. Þróuninni þarf að snúa við og mun þurfa mikið átak til þess, mun meira en gert hefur verið á undanförnum árum; fleiri loftlagsvænar framkvæmdir en umfram allt betri slíkar framkvæmdir.
Síðan vorið 2022; eða nærri því í þrjú ár, þegar framkvæmdir hófust við Álfabakka 6; hefur hjólreiðafólk sent mikinn fjölda athugasemda við hjólastíginn meðfram Álfabakka, sérstaklega þar sem hann fer framhjá bílaplani Garðheima við Álfabakka 6. Þær athugasemdir hafa verið í formi samfélagsmiðlapósta, opinna bréfa til borgarinnar, tugum ábendinga í gegnum ábendingakerfi borgarinnar sem ekki sér fyrir endann á og með ýmsum öðrum hætti.
Í sem stystu máli er ekki að sjá að nokkur einasti árangur hafi verið af öllum þeim athugasemdum; ekki er á nokkurn hátt sjáanlegt að borgin hafi brugðist við.
Í fréttum nýverið, í tengslum við framkvæmdir við Álfabakka 2, lýstu varaformaður og framkvæmdastjóri ÍR því yfir að ekkert hafa verið hugað að umferðaröryggi við þær framkvæmdir (sjá t.d. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-01-10-umferdaroryggi-barna-a-leid-a-ithrottaaefingar-ekki-tryggt-vid-alfabakka-432718) og að ekkert samráð hafi verið haft við ÍR. Við viljum annars vegar taka heilshugar undir þær athugasemdir forsvarsmanna ÍR um skort á umferðaröryggi og skort á samráði en vill hins vegar benda á að þetta hófst ekki sl. sumar 2024 þegar framkvæmdir hófust við Álfabakka 2 heldur áður en framkvæmdir hófust við Álfabakka 6 vorið 2022.
Við Álfabakka 6 hafa ítrekað orðið umferðaratvik á undanförnum árum þar sem bílstjórar hafa keyrt í veg fyrir hjólreiðafólk, þar sem einungis tilviljun forðaði stórslysum, sem og að bílstjórar hafa ruglast og keyrt eftir hjólastígnum haldandi að það væri gatan. Bara undirritaður hefur ítrekað sent borginni fjölda persónulegra frásagna af ákeyrsluatvikum sem og myndefni af tveimur atvikum þar sem bílstjóri hefur keyrt eftir hjólastígnum en frásagnir eru af mun fleiri slíkum atvikum.
Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) vilja því með þessu erindi hér koma formlega á framfæri athugasemdum við þennan hjólastíg og lýsa yfir áhyggjum sínum vegna aukinnar umferðar um hann þegar starfsemi hefst við Álfabakka 4 og þungum áhyggjum sínum vegna umferðar í tengslum við Álfabakka 2. Einnig vill LHM benda á að ekki er hugsað fyrir tengingum við þennan hjólastíg við Árskóga. Ennfremur vill LHM leggja til að gatnamót Árskóga og Álfabakka verði fjarlægð til að tryggja að umferð tengd Álfabakka 6, 4 og 2 geti alls ekki farið um Árskóga til að forgangsraða með skýrum hætti umferðaröryggi hjólreiðafólks, iðkenda við ÍR, og íbúa við Árskóga; ekki er nóg að banna með einu litlu skilti að gegnumumferð flutningabíla sé óheimil.
Til mikils er að vinna fyrir grænar og virkar samgöngur, sem styðja við loftlagsmarkmið og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, sem og til þess að reyna að draga úr aukningu á bílaumferð, að hjólastígar hvetji til hjólreiða og tengist vel við núverandi og komandi hjólastíga. Hjólaleiðir þurfa að vera eindregnar, beinar, greiðar og án óþarfa hæðarbreytinga eins og frekast er kostur; en umfram allt öruggar jafnvel þó svo það sé á kostnað órökstuddra meintra þæginda bílstjóra.
Hjólastígurinn meðfram Álfabakka uppfyllir þetta ekki að mati LHM og er borgin hér með eindregið hvött til þess að gera lagfæringar þar á.
Virðingarfyllst f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna
Erlendur S. Þorsteinsson formaður stjórnar
Um Landssamtök hjólreiðamanna
Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði m.a. að efl a hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Öll helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga sem telja yfi r 2000 manns heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists' Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. Aðildarfélög ECF er að fi nna í fl est öllum löndum Evrópu.
LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efl a hjólreiðar á Íslandi.
Greinargerð
Álfabakki 6: Við Álfabakka 6 er það ítrekað svo að bílstjórar taka beygjur inn á eða út af bílaplani Garðheima á fullri ferð því það er ekkert sem gefur til kynna í hönnun, skiltun, merkingum eða umhverfi að það sé hjólastígur meðfram götunni. Þvert á móti lítur þetta út fyrir bílstjórum eins og botnlangi og því þurfi ekkert að hægja á sér og ekkert að horfa í kringum sig. Sérstaklega er þetta áberandi við inn-/útkeyrslu Garðheima nær Kópavogi. Nær Mjóddinni horfa bílstjórar einatt eingöngu til vinstri þegar þeir koma út af bílaplaninu og ætla að beygja til hægri í átt að Mjóddinni, en horfa ekki til hægri eftir hjólreiðafólki þar. En til vinstri er svo risastórt og mjög bjart skilti sem byrgir þeim sýn á hjólastíginn (og byrgir sýn hjólreiðafólks á bílstjórana) og þeir sjá því eingöngu umferð á götunni.
Afleiðingin er sú að besta falli fara bílstjórar upp á hjólastíginn áður en þeir horfa í kringum sig og hægja á sér en í versta falli taka þeir einfaldlega allar beygjur á ferðinni og dúndra yfir stíginn á fullri ferð og án þess að horfa í kringum sig.
En bílstjórum er svo sem vorkunn því ekki er að sjá að höfð hafi verið hliðsjón af
HÖNNUNARLEIÐBEININGAR FYRIR HJÓLREIÐAR
Leiðbeiningar sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar 19.12.2019
við hönnun stígsins við Álfabakka 6. T.d., en þessi listi hér að neðan er ekki tæmandi:
- Stígurinn er í sama hæðarplani og bílaplanið í stað þess að vera greinilega í hærra hæðarplani.
- Sama yfirborðsefni er á stígnum annars vegar og á bílaplaninu og götunni í kringum stíginn hins vegar í stað þess að þar sé annað yfirborð með áberandi annarri áferð (t.d. hellur) til að skilja á milli.
- Yfirborðsmerkingar gefa ekki til kynna hvar bílaplanið endar og hjólastígurinn byrjar.
- Ekki eru biðskylduþríhyrningar í yfirborði.
- Öllu fremur hvetja örvar á bílaplaninu bílstjóra til að keyra of langt og of hratt.
- Ekki er skiltuð biðskylda við stíginn þó það megi skv. umferðarlögum og -reglugerðum.
- Ekki er skiltað að búast megi við umferð hjólreiðafólks úr báðum áttum.
- Ekki er upplýsingaskilti til bílstjóra á götunni að það sé hjólastígur samhliða götunni. Slíkt skilti er vissulega ekki til í reglugerð og borgin hefur hafnað því að setja upp slíkt skilti með þeim rökstuðningi. Engu að síður er á sama tíma skilti í Elliðaárdal um hjólagötur; skilti sem er ekki í reglugerðum um hugtak sem fyrirfinnst ekki í lögum.
- Risastórt auglýsingaskilti er við hjólastíginn á innkeyrslunni nær Mjódd sem byrgir bílstjórum sýn og hindrar líka sýn hjólreiðafólks sem er að hjóla í áttina að Mjódd. Heilu jepparnir týnast á bak við þetta skilti rétt áður en þeim er dúndrað yfir hjólastíginn á fullri ferð. Skiltið er mjög bjart og nánast ómögulegt að sjá hjólreiðafólk í myrkri sem er að koma frá Kópavogi vegna þess hve yfirþyrmandi birta er af skiltinu.
LHM hvetur til þess að öll ofangreind atriði verið tekin til greina og verði löguð og að til viðbótar verði gerðar allar þær aðrar breytingar þarna sem stuðlað gætu að auknu öryggi hjólreiðafólks, einkum þær sem stoppa bílstjóra og fá þá til að horfa vel í kringum sig áður en áfram er haldið. Almennt að öryggi hjólreiðafólks verði forgangsraðað umfram allt annað.
Álfabakki 4: LHM vill ennfremur lýsa yfir áhyggjum sínum af því að ekki er vitað hvar umferð tengd Álfabakka 4 muni fara inn af og út á götuna. Verði það um núverandi inn-/útgang við Álfabakka 6 sem er nær Mjódd mun umferð um þann inn-/útgang aukast verulega, með tilheyrandi aukinni slysahættu. Sögusagnir eru af því að þarna verði bílasala með tilheyrandi umferð.
Álfabakki 2: LHM lýsir yfir þungum áhyggjum af áformum borgarinnar vegna Álfabakka 2. Þar voru skipulagðar margar lóðir sem vissulega hefðu haft í för með sér mikla umferð en þó allavega líklegast umferð einkabíla. Í staðinn voru lóðirnar sameinaðar í eina en sú breyting var auglýst sumarið 2022 með vægast sagt undarlegum hætti sem fór framhjá flestu fólki, þ.m.t. fulltrúum LHM:
Það gerir samtökum eins og LHM, sem hafa takmörkuð fjárráð og ekki fasta starfsmenn, mjög erfitt fyrir í starfsemi sinni fyrir að breytingar séu auglýstar með þessum hætti.
Í framhaldinu voru gerðar enn fleiri breytingar á notkun og núna er þarna risið lagerhús fyrir kjötvinnslu og aðra starfsemi og ljóst að þarna verður mikil umferð vöruflutningabíla af ýmsum stærðum og gerðum.
Nýlega birtist skýrsla frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RSNA) um skelfilegt slys á Ásvöllum í Hafnarfirði haustið 2023 (sjá https://www.rnsa.is/umferd/fr%C3%A9ttir-umferdarsvids/2024/asvellir-hafnarfirdi/). Ein af ábendingum RSNA í skýrslu sinni
Hægri beygja stærri ökutækja við gatnamót
Rannsóknarnefnd samgönguslysa vill koma á framfæri við ökumenn stærri ökutækja að huga sérstaklega vel að óvörðum vegfarendum þegar hægri beygja er tekin á gatnamótum. Útsýn úr stærri bifreiðum er oft takmörkuð og rannsóknir sýna einnig sjónræn mistök ökumanna við skimun eftir óvörðum vegfarendum þegar beygt er. Því er sérstök ástæða til þess að huga að hættum við slíkar beygjur.
á við um hjólastíginn meðfram Álfabakka þar sem hann fer framhjá Álfabakka 2. Bílstjórar stórra ökutækja munu óhjákvæmilega ítrekað taka hægri beygjur inn og út af bílaplaninu þarna og því þarf að huga sérstaklega að þeim hættum sem því fylgja í hönnun hjólastígsins þar.
Ennfremur til stuðnings miklum áhyggjum LHM um bílaumferð við Álfabakka 2 birtist í fréttum RÚV nýlega (sjá https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/frettir/30762/b0j8f7/hagar-beittu-miklum-thrystingi-i-alfabakka og https://www.ruv.is/frettir/innlent/2025-01-23-mikil-samskipti-vid-borgina-fyrir-byggingu-graena-voruhussins-mest-um-bilastaedi-433980) að eigandi hússins og leigutaki höfðu þröngvað borginni til að breyta bílastæðastefnu sinni og að við húsið verði tæplega 200 bílastæði fyrir starfsmenn. Í frétt RÚV segir m.a.
Skipulagsfulltrúi segir að miðað við fyrirhugaða starfsemi sé hægt að miða við 51 til 100 stæði. Ekki sé hægt að bera þetta saman við Garðheima sem eru með verslun við Álfabakka 4 til 6 og ekki sé hægt að víkja frá þessu nema bíla-og hjólastæðisstefnu borgarinnar verði breytt með einhverjum hætti varðandi þessa lóð og slíkt sé þungt ferli.
en ljóst er að slíkar breytingar hafa verið gerðar. Því eiga allar athugasemdir LHM um hjólastíginn við Álfabakka 6 einnig við um hjólastíginn við Álfabakka 2 en til viðbótar þarf að auki að huga að þessari umferð stórra bíla við Álfabakka 2 (sem ekki er mikið um við Álfabakka 6). Svæðið í kringum Álfabakka 2 hefur alla burði til þess að vera hættulegra, jafnvel mun hættulegra, en svæðið í kringum Álfabakka 6 og hefur svæðið í kringum Álfabakka 6 þegar reynst hættulegt.
LHM vill spyrja til hvað mótvægisaðgerða borgin hafi ætlað sér að grípa fyrir örugga umferð hjólreiðamanna í ljósi þess að mun fleiri bílastæði eru við húsið en eðlilegt er. Hvernig var hönnun hjólreiðastígsins meðfram Álfabakka 2 breytt til að taka á þessari auknu umferð bíla, sérstaklega í ljósi þess að hönnun hans við Álfabakka 6 er verulega áfátt?
Það er ljóst af fréttum að eigandi Álfabakka 2 og leigutaki höfðu miklar áhyggjur af umferð, en greinilega einungis af bílaumferð og engan áhuga á umferð gangandi & hjólandi, hvorki að umferð þeirra væri greið eða örugg. Borgin lét undan varðandi bílastæði við húsið og greip alltof seint í taumana varðandi húsið sjálft. Mun borgin grípa hér í taumana varðandi hjólastíginn, áður en það er of seint, með slíkum hætti að til eftirbreytni er?
Tengingar við Árskóga: LHM vill ennfremur benda á það að hjólastígurinn meðfram Álfabakka endar bara við Árskóga. Þar er ekkert framhald og engin tenging við aðrar hjólaleiðir eins og staðan er núna. Stígurinn gufar bara upp. LHM er með tvær ábendingar í þessu samhengi:
Annars vegar, í framhaldi af athugasemdum um hægri beygjur hér að ofan, að þá þarf að koma í veg fyrir gegnumumferð í gegnum Árskóga á milli Skógarsels og Álfabakka. Það er þegar eitt lítið skilti sem bannar gegnumumferð vörubíla en af persónulegri reynslu undirritaðs að þá hunsa bílstjórar það og svo er einnig mjög mikil umferð einkabíla í Garðheima sem á ekkert erindi í gegnum Árskóga; ennfremur vill LHM aftur vísa á þessi tæplega 200 bílastæði fyrir starfsfólk í Álfabakka 2, en sú umferð á ekkert erindi í gegnum Árskóga. Allt ofangreint skerðir öryggi hjólreiðafólks á þessum gatnamótum og verður ekki lagað nema með því að fjarlægja þessi gatnamót (merkt A1 og A2 á mynd hér að neðan). Að öðrum kosti þyrfti lögreglan stöðugt að vakta Árskóga beggja vegna og sekta vörubílstjóra, sem er algjörlega óvinnandi verkefni og myndi hvort eð er ekkert gera til að minnka óviðkomandi umferð einkabílstjóra.
Hins vegar þarf að skoða tengingar við Álfabakka norður og undirgöng undir Reykjanesbraut við Mjódd niður í Fossvogsdal (því það er að verða æ erfiðara að hjóla á götunni þann götubút vegna aukinnar bílaumferðar) og tengingar við Stekkjarbakka í gegnum Grænastekk og niður í Elliðaárdal.
Álfabakki niður í Fossvogsdal: Með því að fjarlægja gatnamótin við Árskóga gefst tækifæri til þess að leggja hjólastíg yfir þann kafla og undir Breiðholtsbrautarbrúna (blá lína) en svo til skamms tíma að hækka hæð stígsins á öllum innkeyrslunum að Þara- og Þönglabökkum úr hæðarplani götunnar í hæðarplan stígsins (merkt B1 til B4 á myndinni) auk allra viðeigandi yfirborðsmerkinga og skiltunar, þar til færi gefst til þess að leggja hjólastíg þar:
Þessi tenging væri frá Álfabakka suður í gegnum Álfabakka norður að undirgöngum undir Reykjanesbraut við Mjódd og þaðan niður í Fossvogsdal í gegnum stígakerfi Kópavogsbæjar, en Íbúaráð Breiðholts og fulltrúar LHM hafa bent á mikilvægi samvinnu Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar um hjólaleiðir á höfuðborgarsvæðinu.
Álfabakki niður í Elliðaárdal: LHM vill benda á að huga þarf betur að tengingum þessa hjólastígs við aðrar skipulagðar leiðir á svæðinu. T.d. er leiðin frá Álfabakka suður í gegnum Stekkjarbakka niður í Elliðaárdal svokölluð „fjólublá stofnleið hjólreiða á höfuðborgarsvæðinu“ en við gatnamót Árskóga er skyndilega 90° beygja á þessum stíg og svo fleiri sveigjur og krúsidúllur á honum á milli Breiðholtsbrautar og Árskóga 2-8. Þetta þarf að laga og taka af þessar kröppu beygjur. Undirritaður hefur áður persónulega sent Reykjavíkurborg ábendingar í þessa veru, að hjólreiðafólk eigi ekki að þurfa að taka 90° beygjur því slíkar beygjur eru mjög óþægilegar og jafnvel varhugaverðar fyrir hjólreiðafólk; t.d. varðandi beygjur á Bæjarleið við Flugvallarveg og nálægt Sprengisandi við Ásenda svo dæmi séu nefnd. Þessari beygju við Árskóga er hér með bætt við þann lista og almenna athugasemdin þar um hér með formlega send í nafni LHM.
Lokaorð: Að endingu vill LHM gera athugasemdir við þá tímasóun að hjólreiðafólk og samtök þeirra þurfi að verja hartnær þremur árum í að gera athugasemdir við einn hjólastíg. Enginn tími gefst til og engin orka er aflögu til stærri samræðna og verkefna ef ekki er hægt að treysta því að hönnunarleiðbeiningum sé fylgt en í staðinn þurfi að verja þurfi mörgum árum í að gera athugasemdir í smáatriðum við hvern og einn stíg.
Vill undirritaður í því samhengi benda á að viðbúið er að sambærilegar athugasemdir verði gerðar við hönnun og tengingar hjólastígs meðfram Skógarhlíð; en komið hefur í ljós að borgin bauð út gerð hans mörgum mánuðum áður en deiliskipulagsbreytingar voru auglýstar sem LHM gat gert umsögn um; en LHM vissi ekki af og gat ekki vitað af því að hönnun var frágengin og verkið hafði þegar verið boðið út. Vinnubrögð sem þessi gera samtökum eins og LHM, sem eins og áður sagði hafa takmörkuð fjárráð og ekki fasta starfsmenn, mjög erfitt fyrir. Augljóslega var ekki tekið tillit til umsagnar LHM að neinu leyti, því tímalínan var öfug, og vinna LHM því tilgangslaus. Einnig hefur komið í ljós að ekki hefur verið farið eftir hönnunarleiðbeiningum við gerð þess hjólastígs og fálega hefur verið tekið í rökstuddar athugasemdir hjólreiðafólks þar um.
PDF: Hjólastígurinn við Álfabakka 6 og 4