Umsagnarnefnd Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) hefur skoðað kynningu á breytingu á deiliskipulagi Skógarhlíðar.
Í breytingunni sem lögð er til felst að afmörkum deiliskipulagssvæðis er stækkuð til norðausturs til þess að ná utan um breytingar á lóðum í tengslum við uppbyggingu nýs göngu- og hjólastígs. Þá er lóðarmörkum breytt í samræmi við gildandi lóðauppdrætti og mæliblöð. Jafnframt er bílastæðum fækkað á lóðum Skógarhlíðar nr. 22 og fyrirkomulagi bílastæða á bílastæðalóð við enda Skógarhlíðar, austan við Skógarhlíð nr. 20, breytt og stæðum fjölgað. Bílastæðalóðir austan við Skógarhlíð 20 falla út og í kjölfarið færast bílastæði yfir í borgarland. Bílastæðum á lóð Eskihlíðar 24-26 fækkað um 1 stæði og þá stækkar lóð við Skógarhlíð 20 til suðvesturs og austurs.
LHM er hlynnt þeim breytingum sem boðaðar eru með breyttu deiliskipulagi.
Með þeim skapast tækifæri til að auka öryggi hjólandi og gangandi umferðar og gera leið þeirra greiðari, skilvirkari og vistlegri.
Við reiknum með að hönnun verði í fyllsta samræmi við hönnunarleiðbeiningar fyrir reiðhjól og útkoman verði vel merkt og skiltuð.
LHM vill þó koma með eftirfarandi ábendingar við deiliskipulagið:
- Að gert verði ráð fyrir gangbraut yfir Skógarhlíð við heilsugæsluna í Skógarhlíð 18 í plani við stíga og gangstéttir.
- Að skoðað verði hvernig best er að tengja nýja stíginn meðfram Skógarhlíð við núverandi hjólastíg í Lönguhlíð. Hjólastígakerfið á að mynda net og er sjálfsagt að skoða þessa tengingu þegar svona stutt er á milli stíga og breytingar eru fyrirhugaðar á deiliskipulagi.
- Við hönnun á stíg væri skynsamlegt að skoða hvernig má tryggja að bílum sé ekki lagt á stíg við Skógarhlíð 22. Það væri hugsanlegt að gera með grindverki eða pollum eða skýrum skiltum til bílstjóra, sjá bláar örvar á uppdrætti að neðan.
Sjá nánar í umsögn LHM: Skógarhlíð