Þegar börn eru 7 ára gömul hjóla þau í fullum rétti á meðal bílanna á götunni. Er ekkert skrítið við það? 17 ára er það bílprófið og þá er ökuskóli og þá þarf að vita um hvað umferðin snýst. En 7 ára mega lögum samkvæmt trilla með reiðhjólin sín út á götuna og rúlla af stað. Og það er látið eins og ekkert þurfi að brýna fyrir þeim annað en að festa á sig hjálminn. Umferðamerki; hvað merkja þau? Handabendingar hjólreiðafólks; hvað er nú það? Bílarnir; stórhættuleg skrímsli sem börn eiga að vara sig á - og hvað? "Farðu upp á gangstétt." En hjólreiðamaður á gangstétt er til almennra óþæginda fyrir gangandi vegfarendur, er þar gestur og á engan rétt.
Löndin austan megin við okkur eru löngu búin að átta sig á því að við björgum ekki borgum með fleiri bílastæðum. Það nennir engin að láta sjá sig í borg sem er bara fyrir bíla. Þeir geta verið flottir en þú heimsækir ekki borgir til þess að skoða bíla. Til þess ferðu á bílasölur. Og það er eðlilegt að þær séu í útjaðri borga. Þar eru bílastæðin ódýrara landsvæði en bílastæði í kjarna borga - þangað sem fólk sækir. Í stærri borgum er eðlileg hugsun að fækka bílastæðum til þess að draga úr umferð einkabíla í miðborginni. Og þú hjólar í miðbæinn. Eða tekur strætó í bæinn og nælir þér þaðan í Borgarhjól/Citybyke fyrir lítinn eða engan pening. Reiðhjólabyltingin er hafin stóð í Mogganum í síðustu viku. Borgir í Evrópu eru að hjólvæðast.
Væri ekki flott að stíga skrefið með nágrannaþjóðum okkar? Leggja okkar að mörkum til að byggja betri borg. Láta sjá okkur úti í umferðinni. Brosandi. Njótum þess að finna vindinn í kinnunum og mætum veðrinu eins og það er. Gerum klárt fyrir hjólreiðar í forstofunni. Finnum til regngallann og setjum aukafötin í þægilegan bakpoka. Það þarf að hafa gleraugu á nefinu. Það er vont að fá korn í augun. Sleppum samferðafólki okkar við bræluna úr bílunum okkar. Verðum hraust í daglega lífinu. Hjólum í ræktina. Finnum góðar leiðir. Spörum okkur læknisferðir og óþarfa lyfjakostnað. Lækkum blóðþrýstingin með daglegum lífstíl. Lengjum líf okkar með þeirri ánægjulegu hreyfingu sem hjólreiðar eru. Á ábyrgan hátt.
Hjólafærni; hvað er nú það? Eitthvað fyrir alla sem vilja ferðast um á hjóli. Það gerir lífið bara skemmtilegra og fær okkur til þess að hugsa upp á nýtt um þversagnirnar í umferðinni. Og eflir okkur og styrkir í að njóta borgarinnar okkar: Á hjóli.
Sesselja Traustadóttir
Blaðagrein eftir Sesselju Traustadóttir birtist í Morgunblaðinu 25. apríl. 2008