Hjólað í betri borg

Eitt af undrum veraldar, nánast jafn hreint og tært og vatnið og er til á flestum íslenskum heimilum, er hið dásamlega tæki Reiðhjól. Flest erum við alin upp við ágætt aðgengi að hjólinu frá 6 - 7 ára aldri. Sumir jafnvel fyrr. Og frá því snemma á vorin og fram eftir sumri voru hjólin einhvers staðar saman úti á túni á meðan við krakkarnir lékum löggu og bófa og fórum ekki heim fyrr en heyrðist í fyrstu mömmunni á svölunum hrópa: "MATUR!" Þá voru hjólin gripin og húrrast heim og bílarnir stoppuðu og við leiddum hjólin yfir og mörg þeirra sváfu úti yfir nóttina.

Algengt var að hjólin væru í sæmilegu standi fram eftir sumri en svo sprakk einn daginn. Þá voru pabbarnir í vinnunni og mömmurnar bráðum líka og það var eiginlega bara hætt að hjóla í staðinn fyrir að fá hjálp við að gera við dekkið. Mennirnir á planinu á BP áttu ventil en þeir voru ekkert að hjálpa til við sprungið dekk. Synd. Þeir hefðu átt að vera orðnir vinir hjólabarnanna fyrir langa löngu og vera manna flinkastir við að bæta slöngur og taka um leið í bremsurnar og sjá hvort þær væru í lagi. Þá hefðu hjólin sjálfsagt ekki endað svona snemmsumars aftur í hjólageymslunni.      

Þegar börn eru 7 ára gömul hjóla þau í fullum rétti á meðal bílanna á götunni. Er ekkert skrítið við það? 17 ára er það bílprófið og þá er ökuskóli og þá þarf að vita um hvað umferðin snýst. En 7 ára mega lögum samkvæmt trilla með reiðhjólin sín út á götuna og rúlla af stað. Og það er látið eins og ekkert þurfi að brýna fyrir þeim annað en að festa á sig hjálminn. Umferðamerki; hvað merkja þau? Handabendingar hjólreiðafólks; hvað er nú það? Bílarnir; stórhættuleg skrímsli sem börn eiga að vara sig á - og hvað? "Farðu upp á gangstétt." En hjólreiðamaður á gangstétt er til almennra óþæginda fyrir gangandi vegfarendur, er þar gestur og á engan rétt.

Löndin austan megin við okkur eru löngu búin að átta sig á því að við björgum ekki borgum með fleiri bílastæðum. Það nennir engin að láta sjá sig í borg sem er bara fyrir bíla. Þeir geta verið flottir en þú heimsækir ekki borgir til þess að skoða bíla. Til þess ferðu á bílasölur. Og það er eðlilegt að þær séu í útjaðri borga. Þar eru bílastæðin ódýrara landsvæði en bílastæði í kjarna borga - þangað sem fólk sækir. Í stærri borgum er eðlileg hugsun að fækka bílastæðum til þess að draga úr umferð einkabíla í miðborginni. Og þú hjólar í miðbæinn. Eða tekur strætó í bæinn og nælir þér þaðan í Borgarhjól/Citybyke fyrir lítinn eða engan pening. Reiðhjólabyltingin er hafin stóð í Mogganum í síðustu viku. Borgir í Evrópu eru að hjólvæðast.

Væri ekki flott að stíga skrefið með nágrannaþjóðum okkar? Leggja okkar að mörkum til að byggja betri borg. Láta sjá okkur úti í umferðinni. Brosandi. Njótum þess að finna vindinn í kinnunum og mætum veðrinu eins og það er. Gerum klárt fyrir hjólreiðar í forstofunni. Finnum til regngallann og setjum aukafötin í þægilegan bakpoka. Það þarf að hafa gleraugu á nefinu. Það er vont að fá korn í augun. Sleppum samferðafólki okkar við bræluna úr bílunum okkar. Verðum hraust í daglega lífinu. Hjólum í ræktina. Finnum góðar leiðir. Spörum okkur læknisferðir og óþarfa lyfjakostnað. Lækkum blóðþrýstingin með daglegum lífstíl. Lengjum líf okkar með þeirri ánægjulegu hreyfingu sem hjólreiðar eru. Á ábyrgan hátt.

Hjólafærni; hvað er nú það? Eitthvað fyrir alla sem vilja ferðast um á hjóli. Það gerir lífið bara skemmtilegra og fær okkur til þess að hugsa upp á nýtt um þversagnirnar í umferðinni. Og eflir okkur og styrkir í að njóta borgarinnar okkar: Á hjóli.

Sesselja Traustadóttir
Blaðagrein eftir Sesselju Traustadóttir birtist í Morgunblaðinu 25. apríl. 2008

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl