Kópavogur, 10. september 2025
Umsögn um: Aðalskipulag Reykjavíkur 2040 - Keldur og nágrenni.
Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa skoðað tillögu að kynntum drögum að breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sem varða einkum breytta stefnu um þróun byggðar og mótun uppbyggingar í landi Keldna og nágrennis. Samkvæmt drögunum er ráðgert að á svæðinu geti risið þrjú ný skólahverfi með um 5.800 íbúðum, í bland við fjölbreytta þjónustu og atvinnustarfsemi. Drög að aðalskipulagstillögu byggja á ítarlegri vinnu ráðgjafahóps um skipulagningu og hönnun hverfanna og eru drög að skýrslum ráðgjafanna kynntar samhliða. Drögin eru sett fram í samræmi við ákvæði skipulagslaga um rammahluta aðalskipulags (2. mgr. 21. gr.), sem felur í sér að sett er fram ítarlegri stefna og skipulagsákvæði um fyrirhugaða uppbyggingu en venjan er að gera í aðalskipulagi. Einnig eru lögð fram drög að umhverfismati aðalskipulagsbreytingar, sbr. lög nr. 111/2021 um umhverfismat áætlana. Um drög að að ræða, sem fara nú í forkynningu, áður en lögformleg aðalskipulagsbreyting verður endanlega mótuð og auglýst.
LHM er með eftirfarandi punkta og athugasemdir við einstök atriði á þessu stigi við drög að aðalskipulagsbreytingu og við drög að samgönguskipulagi.
Heildarsýn fyrir hverfið.
LHM tekur heilshugar undir heildarsýn fyrir hverfið með þeim metnaðarfullu markmiðum sem þar eru sett fyrir hlutdeild ferðamáta. Það fyrirkomulag að hafa bílastæði í sérstökum bílastæðahúsum er til fyrirmyndar. Að hafa risabílakjallara undir hverri lóð sem þekur alla lóðina á jafnvel tveimur hæðum er slæmt fyrirkomulag ef ætlunin er að fá almenning til að breyta um ferðavenjur. Þótt skjalið með samgönguskipulagi sé ekki nǽgilega vel þýtt er það ferskur andblær, því höfundar átta sig á hvaða þættir í skipulagi og hvatningu vega þyngst til að fá fleiri til að velja virka ferðamáta.
Fyrirkomulag bílastæðahúsa
Það virðist ekki alveg ljóst með hvaða hætti uppbyggingu, rekstri og gjaldtöku verði háttað af bílastæðum. Það er erfitt að átta sig á því fyrirkomulagi sem er lýst í samgönguskipulaginu með kröfunni um skyldubundin kaup allra heimila og vinnustaða á bílastæðum hverfisins. Eiga þau að vera rekin sem einkafyrirtæki, borgarfyrirtæki, sjálfseignarstofnun hverfisins eða sér af þeim byggingum sem hafa afnot af þeim? Það er eðlilegt viðmið að kostnaður við byggingu, viðhald og rekstur verði greiddur af notendum stæðanna en ekki niðurgreiddur af þeim sem ekki nota bíl eða af skattfé, eins og nú tíðkast. Aðgengi þarf að vera að húsum með bíl þótt bílastæði verði í sérstökum bílastæðahúsum. Væntanlega þarf líka að tryggja hreyfihömluðum aðgang að byggingum með því að hafa stæði við þau fyrir hreyfihamlaða. Tryggja þarf að þau stæði nýtist hreyfihömluðum t.d. með því að vera á upphituðum flötum og/eða með bílskýlum með þaki yfir. Bílastæðaeftirlit þarf að tryggja að stæði hreyfihamlaðra verði ekki notuð af öðrum.
Þjónusta innan hverfis - leikskólar
Mikilvægt er að hafa nauðsynlega þjónustu innan hverfisins til að kostir hverfisins nýtist. Fyrir foreldra hverfisins skiptir t.d. miklu máli að leikskólapláss séu aðgengileg innan hverfisins svo ekki þurfi að leggja í löng ferðalög með leikskólabörn á leið úr og í vinnu sem óhjákvæmilega myndi ýta undir notkun bíla. Því miður hefur það stundum verið erfitt fyrir foreldra að fá leikskólapláss á réttum tíma innan síns hverfis. Það er sérstaklega mikilvægt að það verði tryggt að það gerist ekki á Keldum.
Ferðir skólabarna styðji við almenningssamgöngur
Mikilvægt er að ferðir skólabarna styðji við almenningssamgöngur frekar en að það verði rekið aðskilið kerfi skólabíla. Ferðir skólabarna þarf að skipuleggja þannig að þau geti gengið, hjólað eða notað almenningssamgöngur frekar en skólabíla fyrir ferðir sem tengjast skólastarfi, s.s. í íþróttir, sund, tómstundir og ferðir á skólatíma.
Fyrirkomulag endurvinnslu
Það myndi styðja við markmið hverfisins ef hægt væri að koma skilagjaldsskyldum umbúðum til skila án þess að leggja í langt ferðalag með fulla poka af dósum og flöskum. LHM leggur til að matvöruverslanir í hverfinu taki við einnota skilagjaldskyldum umbúðum í verslunum með móttökuvélum sem lesa strikamerki og skili inneign í verslun í staðinn. Þetta er staðlaður búnaður í mörgum erlendum matvöruverslunum.
Stöðvar fyrir deilifarartæki á tveimur hjólum.
Það hefur orðið plagsiður á stígum og gangstéttum að notendur deilifarartækja / rafskúta skilji þau eftir á miðjum stígum og gangstéttum. Tækin eru fyrir á stígunum, þau geta dottið um koll og valda slysahættu. LHM barðist í áratugi gegn föstum hindrunum sveitarfélaga á stígum sem skapaði hættu fyrir hjólandi umferð. Það skýtur skökku við að samtökin þurfi nú aftur að vekja máls á þessu vandamáli af völdum færanlegra hindrana sem geta birst hvar sem er. LHM leggur til að stöðvar til skilja þessi deilifarartæki eftir verði skipulagðar frá upphafi og að óheimilt verði að skilja þau eftir nema á skilgreindum stöðvum. Þessar stöðvar geta verið mjög víða og nýst öllum þjónustum deilifarartækja á tveimur hjólum.
Gróður til að skapa skjólsælt og vistlegt umhverfi
Í upptalningu á endurbótum fyrir greiðfærri stofnhjólaleið ætti einnig að taka fram að gróður gagnast til að draga úr vindi og skapa vistleg skilyrði á hjólaleið sbr. mynd hér að neðan sem sýnir lækkun meðalvinds í Reykjavík frá 1948 tl 2019. Dæmi um vindasamt svæði má taka aðstæður sem núna eru á hjólaleið við mislæg gatnamót Vesturlandsvegar og Víkurvegar, sem er berangur með grasi. Þarna væri miklu betra að hafa trjágróður. Ef þetta svæði hefði ekki verið slegið á hverju sumri frá upphafi hefði náttúrulegur fjölbreyttur trjágróður vaxið þarna upp og þarna væri núna skjól en ekki næðingur. Skjólmyndandi gróður ætti einnig að vera á öðrum helgunarsvæðum stofnbrauta.
Mynd. Meðalvindur (m/s) mældur í Reykjavík frá 1948-2019. Myndin sýnir að meðalvindur hefur lækkað statt og stöðugt eftir því sem byggð hefur aukist og trjágróður vaxið upp.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna
Árni Davíðsson stjórnarmaður
Um Landssamtök hjólreiðamanna
Landssamtök hjólreiðamanna ( LHM) eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði m.a. að efla hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Öll helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga sem telja yfir 2000 manns heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists' Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. Aðildarfélög ECF er að finna í flest öllum löndum Evrópu. LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi.