Tillaga að nýju deiliskipulagi Ásbrautar

Kópavogur, 18. september 2025

Umsögn um: Tillögu að nýju deiliskipulagi Ásbrautar. (PDF)

Upplýsingar um málið: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/930

Umsögn um: Tillögu að nýju deiliskipulagi Ásbrautar.

Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa skoðað tillögu að nýju deiliskipulagi Ásbrautar.

Skipulagssvæðið nær yfir fjölbýlishúsalóðir 3-21 og göturými við Ásbraut. Markmið með deiliskipulaginu er að endurhanna göturými Ásbrautar til að bæta stígakerfi og tryggja með samræmdum hætti örugga og greiða umferð gangandi og hjólandi vegfarenda í samræmi við aðalskipulag Kópavogsbæjar. Með deiliskipulaginu er núverandi byggðarmynstur fest í sessi og lagðar skipulagslegar forsendur fyrir vistlegri götumynd og öruggari göngu- og hjólaleiðum.

LHM hafa gert umsagnir um deiliskipulag Ásbrautar á fyrri stigum. Við höfum m.a. bent á að samkvæmt leiðbeiningum um hönnun fyrir reiðhjól kallar fjöldi bíla og ökuhraði í götunni ekki á umfangsmikla endurgerð götunnar og að fé samgönguáætlunar gæti verið betur varið í aðrar brýnni framkvæmdir í Kópavogi.

Á þessu stigi vilja LHM koma með tillögu um að leið hjólandi verði með aðalbrautarrétti og koma með almenna ábendingu um betri tengingu umrædds kafla um Ásbraut við aðra stíga í norður og suður.

Aðalbrautarréttur

LHM leggja til að leið hjólandi og akandi verði með aðalbrautarrétti yfir Hábraut og Hamraborg með því að hafa biðskyldu á umferð upp og niður Hábrautina við gatnamót Ásbrautar og Hábrautar og með því að hafa biðskyldu á umferð um Hamraborg við gatnamót Hábrautar og Hamraborgar, eins og sýnt er á mynd 1.

Mynd 1. Tillaga um biðskyldu á Hábraut og Hamraborg.


Tengingar við aðra stíga í nágrenni

Huga þarf vel að hönnun tengingar frá Ásbraut niður að Kársnesbraut því sú tenging verður óhjákvæmilega nokkuð brött. Ekki er gefið að betra sé að setja hlykki á stíginn. Slík lausn gæti í staðinn búið til fleiri og alvarlegri vandamál s.s. fall í sönduðum og hálum beygjum eða vesen með vetrarþjónustu.

Þverun yfir Kársnesbraut og Sæbólsbraut getur verið hættuleg en skoða má hvort það myndi auka öryggi að hafa samtíma ljósafasa þar sem allar þveranir gangandi og hjólandi fá grænt ljós á sama tíma, þ.e. sambærilega lausn og er við gatnamót Borgarholtsbrautar Urðarbrautar.

Ganga þarf frá gerð hjólastígs í framhaldi af deiliskipulagssvæðinu í Ásbraut í suður og laga tengingu stíga frá götunni Hamraborg í suður framhjá Salnum og Bókasafninu. Núverandi fyrirkomulag er óheppilegt, mikill bratti upp frá safnasvæðinu í norður og hætta á samstuði við bílstjóra við litla hringtorgið við götuna Hamraborg og ekki nægjanlega skýr skil milli hjólandi og gangandi á safna- og leiksvæðinu. Þennan hluta leiðarinnar mætti endurhanna.

Að öðru leyti gerir LHM ráð fyrir því að í hvívetna verði höfð hliðsjón af HÖNNUNARLEIÐBEININGAR FYRIR HJÓLREIÐAR og Leiðbeiningar sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar (19.12.2019 eða nýrri útgáfu) og óskar eftir að fá tækifæri á seinni stigum til að rýna og senda inn athugasemdir.

Gróður og skjólmyndun: Leggja þarf áherslu á gróður til skjólmyndunar. Við stíga ætti að gera ráð fyrir gróðri og trjám sem draga úr vindi og skapa skjól án þess að hindra stígsýn við gatna- og stígamót.

Merking leiða: Gera þarf ráð fyrir merkingu göngu- og hjólastíga með leiðarmerkjum og gerum við ráð fyrir að gerð verði grein fyrir þeim í verkhönnun.

Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna

Árni Davíðsson
stjórnarmaður

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.