Breytingatillaga að stjórnunar- og verndunaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs er varðar Vonarskarð 

Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna við breytingatillögu að stjórnunar- og verndunaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs er varðar Vonarskarð 

Mynd: Vonarskarð, Auður Lilja Arnþórsdóttir
Mynd: Vonarskarð, Auður Lilja Arnþórsdóttir

Í ár eru 12 ár liðin síðan Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) kærðu staðfestingu ráðherra á banni við hjólreiðum í Vonarskarði í stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs til Umboðsmanns Alþingis sem brást við að beina því til LHM að fullreyna fyrst að fá ráðherra til að endurskoða afstöðu sína, sem brást við með áskorun til Þjóðgarðsins að taka þá ákvörðun upp, en það ferli hefur nú tekið röskan áratug.

LHM voru ávallt á móti þessu furðulega banni við hjólreiðum sem var ekki rökstutt með neinum þeim öðrum rökum fyrir lokun „fyrir umferð reiðhjóla þar sem ógreinilega skil gætu verið á skilgreiningu vélhjóls og reiðhjóls.“, hvað sem það kann að koma málinu við.

Ákvörðun þessi var enda ekki rökstudd í þeirri stjórnunar- og verndaráætlun, en þó má finna „rökstuðning“ í fylgiritum svo sem bréfi framkvæmdastjóra þjóðarðsins, í nafni stjórnar „[t]il þeirra sem sendu ábendingar og athugasemdir til stjórnar Vatnajökuls þjóðarðs ...“ http://www.umhverfisraduneyti.is/media/frettir/brefstjornarvjtj.pdf 

En þar segir á bls. 3 í kafla um akstur vélknúinna ökutækja um Vonarskarð: "Stjórn þjóðgarð sins ákvað í kjölfarið að fela teymi sérfræðinga við Háskóla Íslands [að] gera faglega úttekt á náttúruverndar- og útivistargildi Vonarskarðs. ... Teymið komst einnig að þeirri niðurstöðu að náttúruverndargildi Vonarskarðs og viðkvæm náttúra þess kallaði á enn sterkari verndar stöðu en nú er fyrir hendi og að réttast væri [að] hækka hana úr IUCN flokki II í flokk Ib (óbyggð víðerni) og þar með loka skarðinu alveg fyrir vélvæddri umferð allt árið, sem og fyrir umferð reiðhjóla þar sem ógreinilega skil gætu verið á skilgreiningu vélhjóls og reiðhjóls. Teymið taldi hins vegar að leyfa ætti umferð hesta um Vonarskarð í samráði við og með leyfi þjóðgarðsvarða.

Meirihluti stjórnar ákvað að fara bil beggja, þ.e. halda núverandi heimild til aksturs vél knúinna ökutækja á frosinni snævi þakinni jörð, opna fyrir hestaumferð en banna umferð reiðhjóla. Meirihluti stjórnar telur jafnframt að rök sem koma fram í athugasemdum gefi ekki tilefni til breytinga á þessari afstöðu og vísar að öðru leyti til greinagerðar rannsóknar teymisins, sem sjá má á vef þjóðgarðsins."  

Af þessum skrifum má ljóst vera stjórn þjóðgarðsins bar rökstuðning "teymisins" fyrir sig þegar kemur að banni á hjólreiðum í Vonarskarði. Greinagerð teymisins er hins vegar að finna hér: http://www.umhverfisraduneyti.is/media/frettir/brefstjornarvjtj.pdf En þar segir: "Einnig er lagt til að umferð reiðhjóla verði óheimil í Vonarskarði. Nú eru komin á markað rafknúin reiðhjól og því gæti orðið erfitt að skilja milli reiðhjóla og vélhjóla. Varðandi umferð hrossa í Vonarskarði þá leggur teymið til að hestaferðir séu háðar leyfi."  

Nú mætti þreyta lesendur með því að fjalla um hversu veruleikafirrtir menn þurfa að vera til þess að ætla að umferð reiðhjóla geti í einhverjum tilfellum verið skaðlegri náttúru landsins en umferð hests og knapa, sem samtals vega rúmt hálft tonn, hvers snerting við jörðu er að jafnaði einn hófur (innan við 100 cm2) og knúnir eru áfram af einu hestafli (746 W) og að á þeim grundvelli sé bann við umferð reiðhjóla en ekki hesta óskiljanlegt.

Kæran byggði fyrst og fremst á broti á 12. gr. stjórnsýslulaga (37/1993) hvar segir: Stjórn vald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Nú er svo að skilja að banna eigi umferð reiðhjóla á þeim grundvelli að þar sem „[n]ú eru komin á markað rafknúin reiðhjól og því gæti orðið erfitt að skilja milli reiðhjóla og vél hjóla“.  

Nú er ómögulegt að átta sig á því að einhver telji að erfitt sé að skilgreina mun á vélhjóli og reiðhjóli. Vélhjól er augljóslega með vél sem getur knúið það áfram en reiðhjól ekki. Þá eiga fæstir í vandræðum með að sjá og gera mun á reiðhjóli og vélhjóli og jafnvel rafmagnshjóli, og því er augljóslega mjög íþyngjandi að banna umferð allra reiðhjóla á þeim grundvelli að einhver rafhjól kynnu ella að sleppa í gegn. Nóg hefði verið að banna umferð allra vélknúinna hjóla, óháð því hvort að þau séu knúin áfram af rafmagni eða öðrum orkugjafa. Að útvíkka slíkt bann til allra reiðhjóla var augljóst brot á meðalhófsreglunni. Þá þarf að hlaða rafhjól og verður það síðast gert við Vatnsfellsvirkjun eða niður í Eyjafirði. Fæst rafhjól (sem a.m.k. líkjast eitthvað reiðhjólum í útliti) hafa slíka drægni, þannig að í þeim ólíklegu tilfellum sem að rafhjól kæmi á staðinn væri hleðslan að líkindum búin og því yrði það fótknúið í gegnum skarðið og þar af leiðandi ekki lengur vélknúið. Þá er LHM ókunnugt um að nokkur hafi nokkru sinni farið á rafhjóli um Vonarskarð, en veit fjölmörg dæmi um ferðir á hefðbundnum reiðhjólum. Af þessu öllu má ljóst vera að meðalhófsregla stjórnsýslulaga var þverbrotin þegar ákveðið er að banna hjólreiðar á grundvelli einhvers, sem mjög ólíklegt er að ella ætti sér stað, á búnaði sem í fjarlægð kann að svipa til reiðhjóla. Má hér að endingu hnykkja á því að umrædd friðun sem lagt var til að Vonarskarð fæti í (og Landssamtök hjólreiðamanna eru að mörgu leyti sammála) snýst um að skerða ekki upplifun fólks vegna vélknúinnar umferðar og ef enginn getur séð muninn á reiðhjóli og (nokkru sjaldgæfari) rafhjólum, þá er tilganginum náð með því að skerða ekki upplifun fólks með því að sýna því eitthvað sem lítur ekki út fyrir að vera vélknúið. Ákvörðun teymisins, sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs gerði að sinni og var staðfest af ráðherra var því með ólíkindum og ber að afturkalla.

Þá vilja LHM leggja áherslu á, að með lokun skarðsins voru hjólreiðamenn vísvitandi útsettir fyrir hættulegum vöðum norðan Tungnafellsjökuls svo sem Jökulfallinu, hvar gangandi og hjólandi hafa oft ratað í hættu og því mikill áfellisdómur yfir því fólki, sem svo skeytingalítið yfir lífi samborgara sinna, kom þessu banni í gegn.

LHM styðja því ákvæði um opnun skarðsins fyrir umferð reiðhjóla. Þau hefðu samt talið best að þau væru án takmörkunar og gætu því fylgt öðrum merktum gönguleiðum utan hverasvæðisins og í gegnum Koluskarðið fyrir þá sem kjósa að vaða ekki Köldukvísl tvisvar.  Þá hafa litlar fregnir borist af niðurstöðu leitar að “sérstakri reiðhjólaleið” til að tengja Koluskarðið við bílsslóðina og er það athyglisvert.

Þá vantar heimildir til landvarða og viðbragðsaðila til að keyra ökuleiðina um leið og leiðin telst fær að sumri, til að troða slóðina fyrir hjólreiðamenn (sem og að sinna öryggismálum og vinnu í Vonarskarði).

Að lokum er með öllu óviðunnandi að hér sé um að ræða tímabundna heimild, sem hangi á einhvern hátt á reynslu af akstri sjálfrennireiða um skarðið.

Hér er því stigið skref í rétta átt, en þó gengið þremur fótum til skammt.

 

Kópavogur, 3. september 2025

Fyrir hönd Landssamtaka hjólreiðamanna

Haukur Eggertsson

Sími 867 8637

Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. , This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.            

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.