Umsögn um breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 vegna breyttrar landnotkunar Hrauns vestur

Umsögn um breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 vegna breyttrar landnotkunar Hrauns vestur (PDF)

Upplýsingar um málið: https://skipulagsgatt.is/issues/2024/723

Reykjavík 29. september 2025

Umsögn um breyting á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013 – 2025 vegna breyttrar landnotkunar Hrauns vestur

Umsagnarnefnd Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) hefur skoðað auglýsta tillögu um breytingu á aðalskipulagi fyrir Hraun vestur. Í tillögunni er gert ráð fyrir að breyta landnotkun í aðalskipulagi á skipulagssvæðinu Hraun Vestur úr athafnasvæði, verslun- og þjónusta, samfélagsþjónustu og íbúðabyggð í miðsvæði. Með þessu er ætlunin að breyta nýtingu á öllu svæðinu úr atvinnusvæði í blandaða byggð s.s. byggð sem býður upp á búsetu, atvinnustarfsemi og þjónustu, þ.e.a.s. að opna á möguleika á meiri fjölbreytileika á svæðinu. 

Umsögn LHM

LHM eru hlynnt uppbyggingu á áhrifasvæðum Borgarlínu. Mikilvægt er að á áhrifasvæðum  Borgarlínu rísi byggð sem getur orðið hvati til breyttra ferðavenja og boðið upp á líflegt og fjölbreytt umhverfi. Almennt má segja um framlagða tillögu að hún er jákvæð en jafnframt að það er ekki að fullu útfært hvernig þessi tillaga eigi að ná þessum markmiðum. Tillagan hefði þurft að vera ítarlegri og skýra betur hvernig uppbygging í hverfinu muni verða til að styðja við markmið um breyttar ferðavenjur.

Hjóla og göngustígar.

LHM leggja áherslu á að í skipulaginu verði gerð góð grein fyrir stígum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og aðstöðu fyrir hjólandi vegfarendur. 

Við stíga ætti að gera ráð fyrir gróðri og trjám sem draga úr vindi og skapa skjól án þess að hindra stígsýn við gatna- og stígamót. 

Öll mannvirki fyrir hjólandi (göngu- og hjólastígar) þarf að hanna og byggja samkvæmt leiðbeiningum um hönnun fyrir reiðhjól. Stígar eiga að vera greiðir, öruggir, sléttir, beinir, án óþarfa hækkunar og með viðunandi stígsýn. Sérstaklega þarf að tryggja að gatnamót séu jafn greið fyrir gangandi og hjólandi eins og fyrir bílstjóra.

Gera þarf ráð fyrir merkingu hjólastíga með leiðarmerkjum.

Hjólastæði

Gera þarf ráð fyrir nægum hjólastæðum og hjólageymslum við íbúðir, vinnustaði og staði sem veita þjónustu.

Hjólandi þarf að tryggja greiða aðkoma að biðstöðvum Borgarlínu. Gera ráð fyrir góðum hjólastæðum við biðstöðvar almenningssamgangna og sérstaklega við biðstöðvar Borgarlínu. Hjólastæði verði eftir atvikum yfirbyggð bogastæði og fjöldi stæða verði í samræmi við notkun. 

Gæta þarf sérstaklega að þeim vandamálum sem leigurafhlaupahjól skapa. Slæm reynsla er af því hvernig leigutakar skilja við þau út um allt, hvort sem er mitt á hjólastígum eða gangstéttum og við biðskýli. Huga þarf að góðum lausnum svo leigurafhlaupahjólum verði ekki illa lagt á stoppistöðvum Borgarlínu í því samhengi. Sveitarfélögin þurfa að finna lausn með fyrirtækjum sem reka þessa þjónustu þar sem skipulagðar eru fastar stöðvar þar sem skylda er að skila deilifarartækjum. Slíkar stöðvar ættu að vera á öllu stoppistöðvum Strætó og Borgarlínunnar, við alla grunn- og leikskóla, við verslanir og þjónustu og í flestum eða öllum götum á 1-2 stöðum. Þær ættu ýmist að vera í plani við gangstéttir þar sem pláss er en ella á að taka frá bílastæði í götuplani. Hönnun þeirra ætti að vera samræmd en til að byrja með er líklega nóg að grunnstöð sé merkt með skilti og að tveir eða fleiri hjólabogar eða statív fyrir hlaupahjól séu sett upp.

Bílastæði og ferðavenjur

Í tillögunni kemur fram að stefnt skuli að því að ná fram kostum blandaðrar byggðar með samnýtingu bílastæða. Skipulagi hönnun og útfærslu göturýma verður breytt samhliða umbreytingu/þróun svæðisins m.a. þannig að mjúkri umferð verður gert hátt undir höfði og bílastæði á yfirborði verða aðallega samsíða götu og verða þau aðallega til nota fyrir þá sem hafa skerta hreyfigetu, vöruþjónustu og eða þá sem ætla að dvelja stutt á svæðinu. Lögð er áhersla á að leitað verði hagkvæmra leiða við útfærslu og framkvæmd bílastæða. 

Hér vantar að leggja fram raunhæfar tillögur um hvernig fyrirkomulag bílastæða eigi að vera og hvernig á að ná fram samnýtingu stæða milli íbúða og atvinnufyrirtækja.

Að mati LHM eru stakstæð bílastæðahús best til þess fallinn að ná fram samnýtingu stæða og metnaðarfullum markmiðum um breyttar ferðavenjur. Ef bílakjallarar verða reistir undir heilu byggingarreitunum verður mun erfiðara að ná fram samnýtingu stæða og markmiði um breyttar ferðavenjur. Bílastæðahús er hægt að reisa í einstökum hverfum í Hraun vestur eða það er hægt að samnýta bílastæðahús milli hverfa. Mynd 1 sýnir dæmi um geisla sem bílastæðahús gæti þjónað í Hraun vestur. Götuhæðir í bílastæðahúsum má nýta sem verslunar og þjónustuhúsnæði og þannig getur bílastæðahús orðið eftirsóttur hluti af götumyndinni ef þau eru rétt hönnuð.

Annar kostur sem fylgir því að hafa bílastæði í bílastæðahúsum er að byggingartími fjölbýlishúsa getur verið 1-2 árum styttri heldur en ef 1-2 hæða bílakjallari er byggður undir heilum byggingarreitum. Íbúðir geta þannig verið ódýrari í byggingu bæði vegna skemmri byggingartíma og vegna þess að hvert stæði í niðurgröfnum bílakjallara er talið kosta um 10 milljónir kr. um þessar mundir.

 

Mynd 1. Dæmi um staðsetningu bílastæðahúsa og geisla sem þau gætu þjónað. 


Í tillögunni er ekki fjallað um gjaldtöku fyrir bílastæði en rétt er að hafa gjaldskyldu í öllum opnum bílastæðum og í bílastæðahúsum. Kostnaðurinn við bílastæði í fjöleignarhúsum ætti heldur ekki að fela í byggingarkostnaði heldur ættu bílastæði að vera rekin með sérfjárhag og þau leigð eða seld og rekin sér. Ef þorri bílastæða eru í bílastæðahúsum og þau með sérstakan rekstur gerist þetta sjálfkrafa. Stæði eru ekki ókeypis, sérstaklega ekki í bílakjöllurum eins og sjá má á mynd 2. Hún sýnir útreikning á því leigugjaldi sem þarf til að standa undir gerð, viðhaldi og rekstri bílastæðis í bílakjallara. 

Gestastæði gætu verið meðfram götum og sérstök stæði hreyfihamlaðra ættu að vera við hvert hús. Að sjálfsögðu ætti að vera hægt að aka upp að hverju húsi þó að geymsla bílanna væri í bílastæðahúsum.

 

Mynd 2. Leigugjald fyrir bílastæði á klst. sem fall af nýtingu stæðis yfir árið. Miðað er við eftirfarandi forsendur. Byggingarkostnaður á stæði 10 milljónir. Hlutfall lánsfjár 60%. Afskriftir á ári 2%. Rekstrarkostnaður 4% ári. Nafnvextir 12%.


Að lokum óska LHM eftir því að við hönnun hverfa verði tekið tillit til sjónarmiða sem fram koma í almennri umfjöllun um uppbyggingu á áhrifasvæðum Borgarlínu hér að neðan.

Virðingarfyllst
f.h. stjórnar LHM

Árni Davíðsson
stjórnarmaður

 

Almenn umfjöllun um uppbyggingu á áhrifasvæðum Borgarlínu

Íbúðarform á áhrifasvæðum Borgarlínu.

Hætt er við að þéttleiki á áhrifasvæðum verði ekki nægilega mikill og að nýjar íbúðir verði of dýrar fyrir almenning sem líklegur er til að nota almenningssamgöngur. Ef aðeins verða reistar dýrar íbúðir fyrir vel stæða borgara með mikla bílaeign á meðalheimili á áhrifasvæðum Borgarlínu er ekki líklegt að markmið um ferðavenjur náist. Því miður hefur þétting verið of mikið á þessu formi í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, sem veldur áhyggjum fyrir framhaldið. Tryggja þarf blöndun byggðar og að íbúasamsetning sé líkleg til að skila farþegum í Borgarlínuna. Ákveðið hlutfall íbúða þarf að vera fyrir fyrstu kaupendur og þá sem eiga erfitt með að kaupa hefðbundnar fasteignir s.s. leigjendur.

Tillaga: Mælt er með því að íbúðasamsetning sé blönduð og að gert verði ráð fyrir mismunandi búsetu- og eigna formum. Gera þarf ráð fyrir fyrstu kaupendum og leigjendum og að búsetafyrirkomulag rúmist innan þróunarsvæðisins. 


Bílastæði á áhrifasvæðum Borgarlínu.

Eitt mikilvægasta atriðið til að tryggja að Borgarlínan nái markmiði um breytingu í ferðavenjum er stýring bílastæða. Þekking á fjölda bílastæða og nýtingu þeirra er þó af skornum skammti. Í skipulagi flestra hverfa er farin sú leið að hafa ofgnótt bílastæða til að deilur eða kvartanir um bílastæði valdi ekki óþægindum fyrir sveitarstjórnir. Það þýðir að offjárfest er í fjölda bílastæða og þau verða yfirdrifin þáttur í skipulagi og byggðu umhverfi. Landrými sem fer undir bílastæði og kostnaður við byggingu þeirra og þjónustu veldur auknum kostnaði við íbúðir og fasteignir. Besta leiðin til að draga úr kostnaði við stæði og lækka fasteignaverð er að taka bílastæði út úr jöfnunni og láta notendur bílastæðanna borga fyrir byggingu, viðhald og þjónustu við stæðin. Sveitarfélög eiga þá ekki heldur að bera þennan kostnað með stæðum í götu án þess að notendur greiði fyrir það. Verð heldur aftur af eftirspurn og lækkar þar með kostnað og bætir nýtingu. Virðingarleysi ökumanna gagnvart umhverfi sínu með ólöglegri lagningu bíla er líka alkunn. Virðing fæst með verði.

Tillaga: Mælt er með því að öll bílastæði verði með gjaldskyldu í langtíma eða skammtíma leigu. Markmið skipulags gæti verið eftirfarandi.

  1. að lágmarka það land sem fer undir bílastæði,
  2. að láta notendur stæða greiða fyrir gerð þeirra og þjónustu við þau,
  3. að koma í veg fyrir að bílastæði séu byggð umfram raunverulega þörf fyrir stæði,
  4. að lágmarka kostnað samfélagsins við stæðin,
  5. að tryggja ódýrari íbúðir með því að koma í veg fyrir að verð bílastæða séu sett inn í verð íbúða,
  6. að tryggja nægilegt framboð stæða fyrir þá sem á þurfa að halda,
  7. að stæði séu fremur reist á jaðri en í miðju svæða, þ.e. að besta landið sé ekki tekið undir bílastæði,
  8. að fyrirkomulag bílastæða styðji við markmið með Borgarlínu.

Stefna um uppbyggingu reita/lóða á áhrifasvæði Borgarlínunnar.

LHM vill benda sveitarfélögum á að það eru þau sem eiga að leggja línuna um þróun byggðar á áhrifasvæði Borgarlínunnar í hverju hverfi. Þau geta m.a. staðið fyrir samkeppni um skipulag hvers þróunarreits til að verða á undan hugmyndum stórra og smárra verktaka um skipulag á hverjum reit og lóð. Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum og það er hlutverk pólitískt kjörinna fulltrúa að móta stefnuna með almenningi og til þess eiga þau að nýta þekkingu skipulagsyfirvalda og þau geta fengið nýjar hugmyndir með samkeppnum. Þetta er ábyrgð, sem sveitarstjórnarmenn og skipulagsyfirvöld mega ekki skorast undan.

Tillaga: Mælt er með því að sveitarfélög og SSH marki stefnu um uppbyggingu reita og þróunarsvæða til að tryggja að forsendur um ferðavenjur náist og til að tryggja mannvænt og vistlegt umhverfi. Hér að neðan eru tillögur að stefnu um uppbyggingu reita til að ná þessum markmiðum.

  1. Hæð húsa má vera að jafnaði 3-4 hæðir en getur verið meiri á miðsvæðum og þar sem skuggavarp leyfir. Þetta er til að minnka sviptivinda og skuggavarp.
  2. Bílastæði á frekar að skipuleggja innan hverfa en síður innan reita eða lóða samanber fjölda stæða í skipulagi. Þetta er til að auka samnýtingu bílastæða milli íbúða og þjónustu.
  3. Bílastæði eiga helst að vera í sérstökum bílastæðahúsum eða samsíða götum en síður í bílakjöllurum undir húsum, til að bílastæði móti ekki húsagerð og skipulag. Kjörið er að hafa bílastæðahús meðfram stofnbrautum til að bæta hljóðvist í hverfum og stytta akstursvegalengdir.
  4. Bílakjallarar undir húsum eiga ekki að vera breiðari en byggingin yfir kjallaranum til að garðar og leiksvæði verði nýtileg og vistleg og til að garðurinn virki sem blágræn lausn fyrir ofanvatn.
  5. Allar íbúðir á að selja án bílastæðis. Ef bílastæði eru seld á að gera það sérstaklega og án tengingar við íbúð eða fasteign. Þetta er til að lækka íbúðaverð og til að notendur greiði fyrir þjónustuna en ekki aðrir.
  6. Öll bílastæði að öðru leyti eiga að vera með gjaldskyldu. Það er í langtímaleigu fyrir íbúa og starfsfólk (mánuðir - ár) eða með skammtíma gjaldskyldu (klst - sólarhringur). Þetta er lykilatriði til að koma í veg fyrir offjárfestingu í bílastæðum.
  7. Lágmark 5-10% yfirborðs á að vera klætt með trjágróðri sem getur tekið út fullan vöxt, það er tré eiga ekki að vaxa ofan á bílakjöllurum. Það er til að skapa vistlegt umhverfi í hverfum og draga úr meðalvindi og sviptivindum.
  8. Ef byggðir eru stórir reitir á að gera ráð fyrir göngu og hjólaleiðum í gegnum þá sem henta fyrir ferðir fólks til að samgöngur gangandi og hjólandi verði þægilegri, áhugaverðari og áfangastaðir aðgengilegri.
  9. Jarðhæðir eiga helst að bjóða upp á líflegt umhverfi, þar sem það á við, t.d. þjónustu, verslun, iðnfyrirtæki, veitingastaði, kaffihús, leikskóla eða eitthvað annað. Í íbúðarhúsum, þar sem það á við, ættu að vera íbúðir á jarðhæð gjarnan með gróðurrönd utan við með runnum til að fá skil milli almannarýmis og sérrýmis. Það sem alls ekki ætti að vera á jarðhæð eru lokuð rými með bílastæðum eða bílastæðakjallari. Þetta er til að skapa líflegt og aðlaðandi rými fyrir alla.
  10. Fáar innkeyrslur ættu að vera inn á lóð eða reit. Koma skal i veg fyrir að sú hlið lóðar sem snýr að götu verði ein samfelld innkeyrsla. Visst hlutfall lóðar sem snýr að götu gæti verið klætt gróðri. Þetta er til að auka umferðaröryggi á gangstétt og skapa vistlegt rými fyrir gangandi og hjólandi.

Um Landssamtök hjólreiðamanna

Landssamtök hjólreiðamanna ( LHM) eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði m.a. að efla hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Öll helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga sem telja yfir 2000 manns heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists' Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. Aðildarfélög ECF er að finna í flest öllum löndum Evrópu. LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.