Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis
157. löggjafarþing
Þingskjal 147 — 144. mál.
Reykjavík 8. nóvember 2025
Umsögn um: Frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki
Umsagnarnefnd Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) hefur skoðað frumvarp til laga um kílómetragjald á ökutæki. Hér að neðan eru athugasemdir samtakanna við frumvarpið.
Þeir borgi sem nota
LHM er hlynnt þeirri reglu að þeir borgi sem nota, og þeir borgi sem menga, það er mengunarbótareglunni. Í þessum áformum vantar nokkuð á að það sé vel rökstutt að kílómetragjald verði lagt á ökutæki í hlutfalli við notkun eða kostnað sem þau leggja á vegakerfið vegna slits á slitlagi eða niðurbroti á burðarlagi vega. Ennfremur virðist tækifærið ekki vera notað til að taka tillit til mengunarbótareglunnar í þessum áformum.
Fram kemur að kílómetragjaldið verði föst krónutala 6,95 fyrir hvern ekinn kílómetra af ökutækjum með leyfða heildarþyngd 3.500 kg. eða minna. Á mynd 1 á bls. 24 í frumvarpinu, sem er í greinargerðinni, er sýnd með súluriti áhrif öxulþunga á niðurbrot vega en fyrirsögn myndarinnar er misvísandi þar sem hún segir: „Niðurbrot og slit vega: fjölgun jafngildisferða með auknum öxulþunga“. Þessi mynd sýnir þó líklega aðeins áhrif öxulþunga á niðurbrot vega en ekki áhrif þyngdar á slit á slitlagi vega og í greinargerð frumvarpsins er ekki gerð fullnægjandi grein fyrir áhrifum þyngdar ökutækja á þetta slit. Áðurnefnd mynd gefur í skyn með nokkuð blekkjandi hætti að engin munur sé á sliti bíla sem eru undir 3.500 kg. að þyngd en það mun alls ekki vera rétt. Þyngd ökutækja hefur umtalsverð áhrif á slit á yfirborði vega og það er óeðlilegt í þessari lagasetningu að ekki skuli vera tekið tillit til þess í fjárhæð kílómetragjalds.
Ökutæki valda bæði sliti á slitlagi vega og niðurbroti á burðarlagi vega. Bæði slit og niðurbrot er háð þyngd ökutækja samkvæmt lögmálum eðlisfræðinnar. Á vefnum er til reiknivélin https://roaddamagecalculator.com/ og er dæmi um einfaldan samanburð úr þeirri reiknivél í meðfylgjandi töflu 1. Samkvæmt henni eru áhrif þyngri bíls eins og Range Rover um 54 falt á við léttari bíls eins og WV Up.
Mynd 1 á bls. 24 í frumvarpinu

Tafla 1. Niðurstaða reiknivélarinnar https://roaddamagecalculator.com/ á samanburði vegslits Range Rover og WV Up. Þyngri bíllinn veldur um 54 falt meiri vegsliti en léttari bíllinn.
| Lítill fólksbíll WV Up |
Stór borgarjeppi Range Rover |
|
| Fjöldi ferða til að valda áþekkum skemmdum |
54 | 1 |
Ef að gjaldtaka á að vera réttlát og að þeir borgi sem nota eða öllu heldur að þeir borgi sem sliti yfirborði og brjóti niður burðarlag kemur ekki til greina að mati LHM að leggja sama kílómetragjald á létt ökutæki, sem eru t.d. 600-1.500 kg. að þyngd, og á þung ökutæki, sem eru t.d. 1.500-3.500 kg að þyngd. Samkvæmt eðlisfræðinni veldur þyngra ökutækið mun meira sliti á slitlagi og niðurbroti á burðarlagi vega. Með því að hafa sama kílómetragjald fyrir ökutæki sem eru undir 3.500 kg. á þyngd verður gjaldtaka flutt af efnuðu fólki sem eiga þyngri og dýrari bíla yfir á efnaminni sem eru líklegri til að eiga léttari og ódýrari bíla. Þeim efnameiri verður hlíft við gjaldtöku vegna umferðar í meira mæli en hinum efnaminni. Stórir bílar skapa líka meiri hættu í umferðinni fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og fyrir vegfarendur á léttari bílum. Með því að hvetja til fjölgunar þyngri bíla munu stjórnvöld bera ábyrgð á aukinni hættu af umferðinni fyrir þessa vegfarendur. Óréttlætið verður tvöfalt. Álögum er létt af hinum efnameiri til þess að þeir geti átt fleiri og þyngri bíla og lagt hina efnaminni, börn og gamalmenni í aukna hættu. Í ofan á lag er sótspór stærri og þyngri bíla meira, bæði í framleiðslu og notkun þar sem þeir krefjast meiri hráefna í framleiðslu og eyða meiri eldsneyti. Þetta gengur þvert gegn stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist í þeim efnum. Það er óskiljanlegt ef íslensk stjórnvöld ætla að fara í þannig vegferð.
Að mati LHM ætti fjárhæð kílómetragjalds að taka mið af heildarþyngd út frá útreikningi á tilteknum slit- og niðurbrotsstuðli sem ætti að vera útreiknaður á fræðilegan hátt út frá lögmálum eðlisfræðinnar. Kílómetragjaldið ætti þannig að fara stighækkandi með aukinni þyngd ökutækis t.d. með 500 kg þrepum frá léttasta skráningarskylda ökutækinu. Lagt er til að leitað verði í smiðju eðlisfræðinnar til að finna réttlátan stuðul yfir slit á yfirborði vega sem fall af þyngd ökutækis. Það verði lagt til grundvallar útreikningi á kílómetragjaldi fyrir bíla á þyngdarbilinu 400 kg. til 3.500 kg.
Notkun nagladekkja
Almennt er talið að nagladekk slíti slitlagi vega um 20-40 falt á við ónegld vetrardekk. Í prósentum talið er það um 2.000% - 4.000% meira. Nagladekk eru yfirgnæfandi í sliti á slitlagi vega og sést það greinilega þar sem umferð er mikil þar sem nagladekkjanotkun kallar á endurlagningu slitlags á nokkurra ára fresti. Því fylgir mikill kostnaður og mikil loftmengun á formi svifryks, sem íbúar anda að sér. Kostnaður við viðgerðir vegna nagladekkja notkunar á höfuðborgarsvæðinu nemur um 4 milljörðum króna á hverju ári hjá sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðinni. Í gæðakönnunum dekkja kemur líka í ljós að ónegld vetrardekk eru fyllilega jafn örugg og negld vetrardekk og jafnvel öruggari við sumar aðstæður. Margir, og undirritaður þar á meðal, hafa notað ónegld vetrardekk í öllum akstri að vetrarlagi áratugum saman án nokkurra vandkvæða.
Í áformum um þetta frumvarp virðist ekki stefnt að því að nota tækifærið til að taka tillit til mengunarbótareglunnar að þessu leyti. Nagladekk slíta vegyfirborði um 2.000% meira en samsvarandi og jafn örugg vetrardekk og eru fá dæmi um jafn augljós tækifæri til að nota mengunarbótaregluna.
Að mati LHM ætti frumvarpið að fela í sér gjaldtöku á notendur nagladekkja um t.d. 30-50 þús krónur á ári til að hvetja til minni notkunar nagladekkja og spara þar með útgjöld við viðhald vega og draga úr mengun og til að láta þá sem sannarlega slíta og menga meira, borga fyrir sig.
Möguleg skattaundanskot
Í áformunum er ekkert fjallað um möguleg skattaundanskot. Það hefur löngum tíðkast hjá óheiðarlegu fólki að spóla niður kílómetrastöðu bíla fyrir endursölu þeirra. Þá má minna á bílaleiguna sem tók tæknina í sína þj́ónustu og tölvuvæddi svindlið og færði niður kílómetrastöðu bílana sem þeir voru að selja. Það hefði verið eðlilegt í áformum um lagasetninguna að fjalla um möguleikann á skattaundanskotum með því að breyta kílómetrastöðu bíla fyrir aflestur. Ef að líkum lætur er það tiltölulega auðvelt að tengja nútíma bíla við tölvu og breyta kílómetrastöðu. Þó það sé ekki á færi hvers sem er er ekki ólíklegt að þeir sem til þekkja bjóði upp á þessa þjónustu.
Að mati LHM ætti að leggja mat á möguleg skattaundanskot og hversu auðvelt það sé að stunda slíkt og hvernig á að hafa eftirlit með því.
Virðingarfyllst f.h. stjórnar LHM
Árni Davíðsson, stjórnarmaður
Um Landssamtök hjólreiðamanna
Landssamtök hjólreiðamanna ( LHM) eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði m.a. að efla hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Öll helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga sem telja yfir 2000 manns heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists' Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. Aðildarfélög ECF er að finna í flest öllum löndum Evrópu. LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi.