Hjólafærni - Hvert stefnum við?

Hjólafærni – hvað er nú það?

Hjólafærni er skilgreind sem hugmyndafræði, þjálfun og umferðarfræðsla fyrir alla sem stýra reiðhjólum, allt frá 7 ára aldri og uppúr.
Við miðum við þrjú þrep í Hjólafærni:
1. Að læra að stjórna hjólinu.
2. Eldri en 9 ára geta nýtt sér markvissa kennslu á hjól og umferðina..
3. Frá 15 ára aldri: að hjóla af öryggi við flestar aðstæður sem umferðin býður upp á.

Hjólreiðar lengja lífið!

Það er ánægjuleg staðreynd að með því að hjóla að staðaldri til samgangna er fjárfest í lengra og heilnæmara lífi, samkvæmt fjölda rannsókna  Hjólreiðar eru mjög holl hreyfing, Reiðhjólið er eina ökutækið fyrir einstaklinga sem maður getur með nokkru móti sagt að samrýmist sjálfbærri þróun, á heimsvísu

Samgönguhjólreiðar?  

Já, hjólið er fyrirmyndar samgöngutæki. Hjólreiðamenn geta samlagast umferðinni, tamið sér að hræðast hana ekki né forðast. Þeir stjórna hjólinu að miklu leyti eins og öðru ökutæki og bregðast með virkum hætti við þeim aðstæðum sem upp koma á þann hátt sem er öruggastur og auðveldastur.

Verkefnastjórn Hjólafærni vorið 2008 skipa:

Sesselja Traustadóttir
Morten Lange
Páll Guðjónsson
Kjartan Guðnason
Guðný Katrín Einarsdóttir
Árni Davíðsson
Bjarney  Gunnarsdóttir

Hjólafærni - Hvert stefnum við?

Þetta verkefni snýst um að innleiða þjálfun í Hjólafærni á Íslandi. Að því stuðla m.a. eftirfarandi þættir:

• Halda námskeið fyrir íslenska  hjólreiðamenn sem vilja kenna  hjólreiðar. Til þess ráðum við sérþjálfaða  breska kennara í Hjólafærni til landsins.
• Tilraunakennsla í Hjólafærni við  Álftamýrarskóla veturinn 2008 - 2009
• Útbúa kennsluefni/vefefni sem styður við kennsluna í Hjólafærni.
• Leggja til við menntamálaráðuneytið að lagt verði í gerð íslenskrar námskrár í Hjólafærni.
• Leggja í ímyndarherferð um ágæti og kosti hjólreiða.
• Vinna að öflugu samvinnuteymi  hagsmunaaðila um verkefnið og  fjármögnun þess.
• Vinna með upphaf og   viðmótsgreiningu á Hjólafærni sem meistaraverkefni verkefnisstjóra í Lýðheilsuvísindum í HÍ.

Umferð og hjólreiðar á Íslandi

Nýleg könnun sýnir að umferðarfræðsla samkvæmt námskrá er ekki kennd sem skyldi í grunnskólum.

Samkvæmt umferðarlögum eru hjólandi  fullgildir þátttakendur í umferðinni á götunni. En á Íslandi hefur aldrei verið unnið markvisst með hjólandi vegfarendum á vettvangi eða með hliðsjón af lögunum.

Reynslan af  námskeiðum í hjólafærni er að þátttakendur öðlast bæði færni, ábyrgðartilfinningu og öryggi í  umferðinni.. European Cyclists’ Federation hefur heitið að stórefla þjálfun í hjólafærni, sem helsta framlag aðildarfélaga ECF að Evrópskri áætlun um eflingu umferðaröryggis.

Námskeiðin stuðla líka að auknum hjólreiðum til samgangna. Ástralskar rannsóknir sýna svo ekki verður um villst að með samhentu átaki er hægt að hafa varanleg áhrif á val fólks á ferðamáta. Strætó, hjól, ganga og samnýting bíls til og frá vinnu og skóla.

Flest börn á Íslandi koma gangandi í skólann. Mörgum börnum sem vilja hjóla er ekki leyft það. Að hluta vegna ótta um öryggi þeirra og að hluta vegna ótta við stuld og skemmdarverk á reiðhjóli.

Þannig missa mörg börn af tækifæri til að kynnast þessum samgöngumáta. Hjólreiðar til samgangna bjóða upp á meira frelsi og sjálfstæði, þroskandi áhrif, heilbrigði og minni umhverfisáhrif, borið saman við skutlið, sem margir foreldrar standa í.

Hjólafærni á Bretlandi

Hugmyndafræðin að baki verkefninu Hjólafærni kemur frá Bretlandi, en samskonar fræðsla er líka til í öðrum löndum. John Franklin er opinber ráðgjafi verkefnisins. Hann kom til Íslands og kynnti Hjólafærni (e. Bikeability) á Samgönguviku sl. haust í boði Landssamtaka hjólreiðamanna. Bretar hafa sett sér það markmið að árið 2011 sé tryggt að öll 11 ára börn í landinu njóti Hjólafærniþjálfunar, á stigi 2.

Hjólreiðakennari ráðinn til landsins

24. apríl 2008 réð verkefnastjórn fyrsta hjólreiðakennarann til Íslands.
Námskeiðið fer fram 17. - 24. maí nk.  Hafðu samband við Sesselju, This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. s. 864 2776 ef þú vilt koma á námskeið.

Fjármögnun

Hjólafærni er sannanlega þarft verkefni og kostar sitt. Við höfum fengið styrk úr þróunarsjóði Menntasviðs Reykjavíkur, Pokasjóði og frá Íslenska fjallahjólaklúbbnum. Frjáls framlög eru velkomin.
Bankareikningurinn er 0111-26-009021, kt. 640399-2289

Tenglanet

Unnið er markvisst að kynningu Hjólafærni á meðal allra þeirra sem við teljum að sjái hag í auknum vistvænum ferðalögum í borginni. Verkefnið hefur þegar fengið mjög jákvæð viðbrögð frá tengiliðum í mörgum stofnunum. Ert þú með hugmynd að góðu fólki, fyrirtækjum eða stofnunum sem ættu að vera með í liðinu? Sendu um það línu á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., með afriti til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.