Vegagerðin og Reykjavíkurborg, skipulagsgátt
https://skipulagsgatt.is/issues/627
https://skipulagsgatt.is/issues/622
Reykjavík 19. október 2023
Umsögn um:
Sundabraut - umhverfismatsskýrsla og vinnslutillaga aðalskipulagsbreytingar
Umsagnarnefnd Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) hefur skoðað umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar og drög að aðalskipulagsbreytingu. LHM vill koma eftirfarandi ábendingum á framfæri við þessar tillögur.
Ólík áhrif brúa og ganga á virka ferðamáta.
Brú og göng hafa mismunandi áhrif á virka ferðamáta. Göng ná ekki fram jöfnu aðgengi fyrir virkra ferðamáta þar sem umferð gangandi og hjólandi er ekki leyfð í göngum undir sjó. Uppfylla þarf fyrsta markmiðið með Sundabraut, að bæta samgöngur, fyrir alla ferðamáta (akandi, almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi) á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins með auknu öryggi og hagræði. Því mæla LHM með því að brú verði fyrir valinu. Það hentar hjólandi og gangandi best að hafa lágbrú en miðbrú sem fer í um 30 m hæð væri næstbesti
kosturinn.
Í umhverfismatinu er vel gert grein fyrir mismunandi brúarútfærslum og stígalausnum fyrir hverja þeirra. Erfitt er þó að meta á þessu stigi hvaða brúarútfærsla muni henta best en að öllu jöfnu væri betra að hafa umferð hjólandi og gangandi sunnanmegin á brúnni yfir Kleppsvík frekar en norðan megin. Beinar, greiðar og öruggar leiðir eru bestar fyrir hjólandi og gangandi og mislægar lausnir eru ákjósanlegar þar sem umferð er þung og hröð og hátt hlutfall þungra ökutækja fer um.
Áhrif Sundabrautar á byggðamynstur og dreifingu byggðar og áhrif þess á ferðavenjur og umferð.
Þegar Sundabraut er komin má telja líklegt að öll sveitarfélög innan áhrifasvæðis Sundabrautar muni auka framboð á lóðum og freista þess að auka fjölda íbúa í sveitarfélögunum. Þetta má greinilega sjá af umsögnum þessara sveitarfélaga um þetta Umhverfismat. Íbúum á Akranesi, Borgarnesi, í Hvalfjarðarsveit og í Kjósarhreppi mun fjölga í kjölfarið. Erfitt er að spá um útkomuna en þó má telja að þessi þáttur sé ekki metinn með fullnægjandi hætti í umhverfismatinu. Ennfremur má gera ráð fyrir að Reykjavíkurborg muni leggja Geldinganes undir byggð og þann hluta Kjalarness sem er innan vaxtarmarka höfuðborgarsvæðisins. Á Geldinganesi geta hæglega búið 10-20 þúsund manns og 5-10 þúsund á Kjalarnesi. Sennilega er þessi útþensla byggðar jafnvel nauðsynleg til að Sundabraut standi undir sér enda er gert ráð fyrir að hún sé byggð utan samgöngusáttmálans og fjármögnuð sem einkaframkvæmd og borguð með veggjöldum.
Í Samgöngugreiningu (bls. 75) kemur fram að: „Miðað við forsendur um íbúaþróun og atvinnusókn í kafla 5.17 er talið að 1.500 - 2.000 fleiri bílferðir verði farnar daglega til og frá höfuðborgarsvæðin um Vesturlandsveg árið 2040 með tilkomu Sundabrautar.“ og „að byggðaþróun muni fjölga eknum kílómetrum en miðað við niðurstöður spár um aukna atvinnusókn frá Akranesi og Borgarnesi vegna tilkomu Sundabrautar (sjá kafla 5.17), er talið að fjölgun ekinna kílómetra vegna byggðaþróunar vegi ekki upp á móti áætlaðri heildarfækkun ekinna kílómetra.“ Að mati LHM er þetta vanmat á áhrifum Sundabrautar. Líkleg niðurstaða er að Sundabraut muni auka umferð og ekna kílómetra umtalsvert með því að ýta undir dreifingu byggðar frá höfuðborgarsvæðinu. Fleira fólk mun aka mun lengra en ef það myndi búa innan höfuðborgarsvæðisins í nánd við almenningssamgöngur eða geta hjólað eða gengið sinna ferða.
Líklegt er að umferðatafir geti orðið algengar á Sundabraut ef þetta verður raunin. Ef svo reynist þarf að huga að mótvægisaðgerðum með öflugum almenningssamgöngum á þessari leið sem gæti tekið kúfinn að einhverju leyti í þessari umferð. Þar þarf að huga að greiðfærni almenningssamgangna frá fyrsta degi því Sundabraut getur verið orðin teppt vegna mikillar umferðar eftir 20 ár. Við hönnun ætti því að skoða möguleikann á forgangi fyrir almenningssamgöngur um Sundabraut.
Fjármögnun Sundabrautar
Ekki virðist fjallað um fjármögnun Sundabrautar eða gerð greining á greiðsluvilja almennings og fyrirtækja. Það er veikur hlekkur í Umhverfismatinu því ákvörðun um byggingu Sundabrautar hlýtur að byggja á því hvort hægt sé að fjármagna framkvæmdina með veggjöldum.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar LHM
Árni Davíðsson
stjórnarmaður
Um Landssamtök hjólreiðamanna
Landssamtök hjólreiðamanna ( LHM) eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði m.a. að efla hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Öll helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga sem telja yfir 2000 manns heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists' Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. Aðildarfélög ECF er að finna í flest öllum löndum Evrópu. LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi.