Reykjavík, 16.09.2008
Tillögur og greinargerð Landssamtaka hjólreiðamanna til nefndar sem samgönguráðherra skipaði til að endurskoða umferðarlögin í heild sinni
Einföldun umferðarlaga
Það er mjög þarft að einfalda umferðarlögin og taka út óþarfa ákvæði gagnvart reiðhjólum sem oft er erfitt að sjá rök fyrir og eru ekki lögð á aðra hópa. Landssamtök hjólreiðamanna er málsvari hundruða félagsmanna í stærstu hjólreiðafélögum landsins með áratuga reynslu af hjólreiðum, bæði hérlendis og erlendis. Það er mikilvægt að um málefni hjólreiðamanna sé fjallað af þekkingu og reynslu sem því miður skortir mikið upp á hjá mörgum sjálfskipuðum talsmönnum góðgerðar og slysavarnarsamtaka og jafnvel stjórnmálamönnum.
Við vinnum okkar starf allt í sjálfboðavinnu og höfum ekki náð að fara yfir öll lög og reglugerðir sem snerta umferð en tókum bæði saman almennan texta og punkta um þær greinar sem helst þyrfti að breyta. Landsamtök hjólreiðamanna óska sérstaklega eftir að fá að vera til ráðgjafar í þessari endurskoðun umferðarlaga, fá að fylgjast með vinnunni og veita umsögn um þær tillögur sem verða þróaðar í þessu ferli og snerta hjólreiðafólk á einhvern hátt. Einnig getum við veitt betri rökstuðning fyrir máli okkar og bent á rannsóknir sem ýmsar fullyrðingar okkar byggja á.
Það er sífellt vaxandi hópur fólks sem velur reiðhjólið sem samgöngutæki, hvort sem það er bara ánægjunnar vegna, heilsunnar, peninganna eða bara af umhverfissjónarmiðum. Það er mikil vakning í gangi víða um heiminn um gagnsemi þess að fá sem flesta til að hjóla; minni mengun vegna útblásturs, hávaða og svifryks, bætt lýðheilsa og jákvæð áhrif á umferðaröryggi heildarinnar. Þær veita líka fjölda fólks sjálfstæði í samgöngum frá því að láta aðra keyra sig um, því ekki eru allir bílstjórar. Upptalningin á framangreindum og fleiri kostum aukinnar reiðhjólanotkunar má m.a. lesa um í stefnumörkunarritinu Cycling: the way ahead for towns and cities sem Evrópusambandið gaf út og má lesa á vef þeirra.
Réttur hjólreiðafólks til að ferðast um alla vegi landsins.
Hjólreiðafólk krefst jafnréttis á þessu sviði sem öðrum. LHM hefur heyrt af áformum um að banna hjólreiðar á ákveðnum leiðum við Reykjanesbraut og það án þess að nein önnur leið verði opnuð í staðinn og án þess að leitað hafi verið til hagsmunasamtaka eins og LHM. Þetta er andstætt öllu sem við teljum vera rétt og eðlilegt og því þörf á að skilgreina skyldur stjórnvalda til að tryggja reiðhjólinu aðgengi að vegakerfinu öllu og amk. að bjóða þeim jafn góðan valkost ef aðstæður krefja. Þannig eru reglur og venjan til dæmis á Bretlandi og í Frakklandi.
Nú er t.d. verið að skoða bann við hjólreiðum eftir Suðurlandsvegi og að beina hjólreiðafólki á grófan þjónustuveg meðfram hitaveitulögnum sem væri illfær venjulegum götureiðhjólum með mjóum dekkjum vegna grófs yfirborðs og steina sem kæmu frá umferð hesta og vélhjóla á sömu leið.
Fræðsla: Samgönguhjólreiðar og Hjólafærni
Þegar kemur að öryggi í umferðinni er mikilvægt að fólk hafi fullkomna stjórn á ökutækinu, þekki hvernig best er að haga sér í umferðinni auk umferðarreglnanna, rétt eins og við akstur bifreiða. Það væri æskilegt að koma kennslu í Hjólafærni í námsskrá grunnskóla á Íslandi og sömuleiðis að grunnþáttum hennar yrði kennd í ökuskólum þannig að ökumenn skilji betur og virði samferðamenn sína á reiðhjólum.
Hugmyndafræðin að baki Hjólafærni kemur frá Bretlandi, en samskonar fræðsla er líka til í öðrum löndum. John Franklin er opinber ráðgjafi Bikeability í Bretlandi. Hann kom til Íslands og kynnti Hjólafærni/Bikeability á Samgönguviku haustið 2007 í boði Landssamtaka hjólreiðamanna. Bretar hafa sett sér það markmið að árið 2011 sé tryggt að öll 11 ára börn í landinu njóti Hjólafærniþjálfunar, á stigi 2.
Það er ekki nóg að gefa barni brothættan frauðplasthjólahjálm og senda það út í umferðina. Sum vel meinandi góðgerðarsamtök og slysavarnarfélög virðast vera með þessa stefnu og virðast trúa því að hjálmurinn einn og sér forði slysum. Þau hafa ekki viljað rökstyðja þennan málflutning með vísan í marktækar rannsóknir þegar við höfum leitað eftir því.
Þversagnir í öryggismálum hjólafólks
Meðfylgjandi eru tvo erindi sem áður nefndur John Franklin flutti á samgönguviku 2007 og útskýra vel ýmsar þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks með vísan í vandaðar rannsóknir á raunverulegum slysatölum. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að það sem gert er til að auka öryggi og draga úr slysum hafi tilætlaðan árangur þegar mannlegi þátturinn kemur inn í myndina. Hjólafólk sem notar hjólareinar og stíga með blandaðri umferð gangandi og hjólandi er t.d. margfalt meiri hættu á að verða fyrir bifreið en þeir sem hjóla sýnilegir í umferðinni innan athyglissviðs bílstjóranna. Hafa verður það sem sannara reynist og þær rannsóknir sem vísað er í þessu skjali eru marktækari en nokkrar gamlar gallaðar rannsóknir sem oft er vitnað í tölur úr, rannsóknir sem hafa jafnvel verið dregnar til baka.
Umferðarstýrð ljós
Víða hefur verið komið upp skynjurum til að stýra umferðarljósum sem þó skynja ekki reiðhjól. Og þó bæta megi skynjarana er hætt við að þeir skynji reiðhjól aldrei 100% enda eru sum reiðhjól ekki nema að litlu leiti úr málmi. Því er staðan sú í dag að hjólreiðamenn sem koma að þessum umferðarstýrðu ljósum komast ekki áfram nema að fara gegn rauðu ljósi. Það er því tillaga LHM að þetta verði lögleitt t.d. með svipuðum texta og í 39. gr. enda frumskilyrði fyrir lögum að hægt sé að fara eftir þeim, annars lærist fólki að brjóta þau og virðing fyrir öðrum lögum minnkar. Textinn gæti hljómað svona:
· Hjólreiðamaður, sem nálgast vegamót með umferðarstýrðum götuljósum má fara gegn rauðu ljósi þegar það er unnt án óþæginda eða hættu fyrir aðra umferð.
Undanþágur fyrir reiðhjól
Skilti merkt "Nema hjól", þar sem orðinu hjól mætti skipta út með teikningu af reiðhjóli, eru víða notuð í borgum til að auðvelda umferð hjóla þar sem þörf hefur verið á því að stýra eða takmarka umferð bifreiða en sama þörf er ekki gagnvart umferð reiðhjóla. T.d. þar sem götum hefur verið breytt í einstefnugötur sem ráða vel við umferð reiðhjóla í báðar áttir. Einnig eru skiltin notuð til að auðkenna að gata sem er botnlangagata fyrir bifreiðar sé opin áfram með leið fyrir reiðhjól. Þetta merki mætti einnig nota við umferðarljós sem ekki taka 100% tillit til umferðar reiðhjóla. Þar sem hjólreiðar gegn einstefnu hafa verið leyfðar sýna kannanir að þessu fylgir ekki aukin slysahætta. Þvert á móti fylgir aukinni notkun reiðhjóla á götum úti minni almenn slysahætta, öruggari umferðarhraði og jafnara flæði umferðar. Sumstaðar hafa hjólreiðar gegn einstefnu verið leyfðar í heilu hverfunum án sérstakra merkinga og mætti gera ráð fyrir slíkum ráðstöfunum í lögum hér, t.d. í 30 km hverfum.
Merkingar stíga og akbrauta
Í dag er víða búið að merkja þriggja metra stíga með óbrotinni línu og merkja einn metra fyrir reiðhjól og tvo metra fyrir gangandi. Þetta er okkur óskiljanlegt og ekki í neinu samræmi við hefðir í merkingum gatna. Það segir sig sjálft að einn metri nægir engan veginn fyrir tvö reiðhjól til að mætast. Þar sem óbrotin lína er notuð á akbraut gefur hún til kynna að hættulegt sé að aka yfir hana og óheimilt nema brýna nauðsyn beri til. Það virðist vanta ákvæði um merkingar á stígum sem taka mið af því sem er eðlilegt og mögulegt til að koma í veg fyrir svona fúsk sem getur haft alvarlegar afleiðingar. Þessar merkingar kenna fólki að hjóla yfir óbrotnar línur, víkja stundum til hægri og stundum til vinstri fyrir aðkomandi reiðhjólum og öðrum vegfarendum á þessum stígum eftir því hvoru megin hjólaræman er. Stundum er hjólað vinstra megin eftir stíg á merktri hjólaræmu og gangandi eru til hægri. Síðan hverfur línan og þá ætti að vera eðlilegt að hjóla hægra megin á stígnum. Þetta dregur úr virðingu fyrir sömu línum á akbrautum og ruglar fólk í því hvernig á að umgangast þær. Tilvitnun:
· Merki þetta má nota við aðgreinda stíga sem hvor um sig er með fullnægjandi breidd, annars vegar fyrir gangandi vegfarendur og hins vegar fyrir hjólreiðamenn sem þeir skulu nota en ekki aðrir
· Óbrotin lína [(hindrunarlína)] [Rg. nr. 348/1998] (L11) sem gefur til kynna að hættulegt sé að aka yfir hana og óheimilt nema brýna nauðsyn beri til
Eðlilegast teljum við að stígar séu án þessara lína og að hægri réttur gildi á stígunum en þó mætti merkja með brotinni miðlínu breiðari stíga sem væri þá með umferð í báðar áttir.
Forgangsakreinar
Meðfylgjandi er athugasemd LHM um tillögu til laga um að banna hjólreiðar á forgangsakreinum með rökstuðning en til viðbótar má nefna að rökleysu þess að tala um þessar forgangsakreinar líkt og um hraðbrautir fyrir strætisvagna og leigubifreiðar sé að ræða eins og sumir stjórnmálamenn hafa gert. Þessi ökutæki ferðast almennt á sama hraða og önnur umferð og ekkert sem mælir á móti því að þau séu í annarri umferð þegar það hentar. Á álagstímum í umferðinni sem er mjög lítill hluti sólarhringsins nýtast þeim þessar forgangsakreinar til að halda sínum venjulega hraða þegar aðrir lenda í umferðartöfum. Það er því öfugsnúið að banna hjólreiðar þarna og merkja akreinarnar jafnvel með óbrotnum línum eins og raunin er við Miklubraut. Eðlilegt væri að línan væri brotin og þegar farið væri fram úr hjólreiðamanni sem hjólaði eftir forgangsakrein færu strætisvagnar inn á næstu akrein yfir þessa brotnu línu. Könnun á meðalhraða strætisvagna Strætó sýndi að hann er svipaður og reiðhjóla og ætti hjólreiðafólk ætti því ekkert að tefja umferð strætisvagna hér ferkar en í öðrum löndum þar sem þessi umferð þykir fara vel saman enda stuðla hjólreiðar að aukinni notkun almenningsvagna.
Hraðbrautir og hjólabrautir
Götur þar sem umferð er mjög hröð eða þung eru dæmi um staði þar sem öruggara þykir að aðskilja umferð bifreiða og hjólandi. Þar er þörf á hjólabrautum sitt hvoru megin þar sem umferðin á hjólabrautunum fylgir umferð akbrautanna og flæðir greiðlega yfir gatnamót. Lengi vel þráaðist Vegagerðin við að leggja þessar brautir en nú eru komnar skýrar heimildir í lög um að þeir megi gera þetta og helst þyrfti að skylda þá til að leggja þessar hjólabrautir meðfram stærstu umfærðaræðum borgarinnar þar sem hraði og umferðarþungi fer yfir ákveðin mörk. Í dag eru leiðir gangandi yfir stærri gatnamót fáránlega flóknar með undarlegum hlykkjum og grindum og tvískiptum ljósum sem tefja hjólandi umferð sem reynir að fylgja þessum leiðum.
Í dag er hvorki göngustígur né hjólabraut meðfram Reykjanesbaut frá Breiðholti til Hafnarfjarðar og ekki val um að hjóla með greiðum hætti þarna nema á akbrautinni og mætti nefna fleiri leiðir. Í lög þyrfti að setja t.d. ákvæði um rúmgóða vegaöxl með sléttu yfirborði sem nýtast mættu til hjólreiða þar sem umferðarþungi og / eða hraði fer yfir ákveðin mörk ef ekki er boðið upp á jafn greiðfæra hjólabraut samhliða þjóðveg.
Hjólavísar á götum, einfaldari og öruggari lausn en hjólareinar
Víða erlendis hefur verið komið fyrir sér hjólareinum samhliða akbrautum í þeim tilgangi að auka öryggi hjólafólks. Reynslan sýnir hinsvegar fleiri galla en kosti sérstaklega þegar kemur að öryggismálunum og forðast margir vanir hjólreiðamenn að nota þær. Sú leið að hafa akrein nægilega breiða til að auðvelt sé að taka fram úr hjólreiðamanni og merkja hana með hjólavísum (share the road arrows = sharrows = bike and chevron) til að marka leið hjólreiðamannsins í öruggri fjarlægð frá kyrrstæðum bifreiðum og minna bílstjóra á að hann deilir götunni með öðrum jafn réttháum ökutækjum hefur gefist mjög vel.
Rannsóknir sýna að við þær aðstæður víkja bílstjórar betur fyrir hjólafólki við framúrakstur en þegar það er á þröngt afmörkuðum hjólareinum sem gefa hjólafólki ekki sama svigrúm til að staðsetja sig á götunni eftir aðstæðum eins og nauðsynlegt er við síbreytilegar aðstæður á götunum.
Reykjavíkurborg áformar að setja þessi merki á 2-3 götur til prufu að tillögu LHM á næstu vikum og huga þarf að því að þær samrýmist þá lögum.
Umfjöllun um núverandi lagagreinar og tillögur að breytingum.
Athugið að inndrag er notað þegar vitnað er í lagatextann og það sem þar er skáletrað er tillaga að nýjum eða breyttum texta.
1. gr.
· Ákvæði laga þessara gilda, nema annað sé ákveðið, um umferð á vegum. Þar sem vegur er fyrir sérstaka tegund umferðar, gilda ákvæði laganna, eftir því sem við á. Ákvæði laganna gilda einnig, eftir því sem við á, um umferð ökutækja á lóðum, lendum, afréttum og almenningum.
Þar sem lagaleg staða hjólandi og annarra vegfarenda á gangstétt og stígum hverskonar er óljós mætti bæta hér inn að ákvæði laganna ætti við þar. Amk. þarf að skilgreina í lögunum hvernig blandaðri umferð á stígum skal háttað hvort sem hún er gangandi eða hjólandi; víkja til hægri þegar öðrum vegfaranda er mætt, halda sig hægra megin, virða hægri rétt þar sem stígar eða gangstéttir mætast og slíkt.
2. gr.
Í 2. grein vantar að skilgreina ýmis hugtök sem oft eru notuð svo sem hjólabraut, hjólarein, útivistarstígur, göngustígur sem ekki er endilega til hliðar við akveg.
T.d.
· Hjólarein:
Sá hluti vegar, sem eingöngu er ætluð hjólandi vegfarendum.
· Hjólabraut:
Sérstaklega merktur vegur, sem eingöngu er ætlaður hjólandi vegfarendum.
· Gangbraut:
Sérstaklega merktur hluti vegar, sem aðallega er ætlaður gangandi vegfarendum til að komast yfir akbraut.
Hér þarf að bæta inn að gangbraut sé aðallega ætluð gangandi líkt og í skilgreiningunni um gangstétt. Þetta ákvæði er stundum túlkað þannig að ekki MEGI hjóla eftir gangbraut heldur eigi þeir sem eru á leið eftir gangstétt eða stíg að stíga af hjóli sínu og leiða það yfir gangbraut sem er mjög hamlandi túlkun og gengur engan veginn. Hvernig á maður í vélknúnum hjólastól líka að komast þarna yfir samkvæmt þeirri túlkun en í dag er vélknúinn hjólastóll skilgreindur sem reiðhjól.
Það þarf að endurskoða núverandi skilgreiningu á reiðhjóli og taka út hluti sem alls ekki eru reiðhjól í hefðbundnum skilningi orðsins. Skilgreina þarf þessi vélknúnu tæki og segja að notkun þeirra fylgi ákvæðum laganna um notkun reiðhjóla, með skilgreindum undantekningum þar sem það á við í stað þess að kalla þau reiðhjól.
· Reiðhjól:
Ökutæki, sem knúið er áfram með stig- eða sveifarbúnaði og eigi er eingöngu ætlað til leiks.
· Vélknúinn hjólastóll:
Vélknúinn hjólastóll, sem eigi er hannaður til hraðari aksturs en 15 km á klst. og verður einungis ekið hraðar með verulegri breytingu. Ákvæði um notkun reiðhjóla gilda, eftir því sem við á, einnig um vélknúna hjólastóla.
· Lítil vél- eða rafknúin ökutæki:
Lítil vél- eða rafknúin ökutæki, sem hönnuð eru til aksturs á hraða frá 8 km og upp í 25 km á klst. Ákvæði um notkun reiðhjóla gilda, eftir því sem við á, einnig um þessi ökutæki.
· Vélknúið hlaupahjól:
Vélknúið hlaupahjól sem búið er stigbretti, er á hjólum og með stöng að framan sem á er stýri. Ákvæði um notkun reiðhjóla gilda, eftir því sem við á, einnig um vélknúin hlaupahjól nema þessum farartækjum má ekki aka á akbraut.
11. gr.
· Ef gangandi vegfarandi leiðir reiðhjól eða létt bifhjól skal hann ganga við hægri vegarbrún.
Taka út þessa sérreglu vegna gangandi vegfaranda sem leiðir reiðhjól. Við sjáum ekki rökin fyrir því að ganga við vinstri vegarbrún án reiðhjóls en við hægri vegarbrún ef hann leiðir reiðhjól.
· Á gangstétt, gangstíg eða vegaröxl má gangandi vegfarandi hvorki leiða reiðhjól eða létt bifhjól né flytja með sér fyrirferðarmikla hluti, ef það er til verulegra óþæginda fyrir aðra.
Þetta ákvæði er loðið og óþarft og mætti sleppa. Við sjáum ekki að það ætti að vera til meiri óþæginda fyrir aðra að einhver leiði reiðhjól en t.d. barnavagn, innkaupakerru, trillu eða slíkt.
13. gr.
-
Ökumaður skal nota akbraut. Bannað er að aka eftir gangstétt eða gangstíg. Þar sem sérstakar reinar eru fyrir mismunandi tegundir ökutækja, skal ökumaður nota þá rein, sem ökutæki hans er ætluð.
Bæta inn: Ákvæði þetta gildir eigi um reiðhjól.
Hætta á að þetta ákvæði verði túlkað til að skylda hjólandi til að nota óhentuga blandaða stíga og illa hannaðar hjólareinar sem mörg dæmi eru um að valdi hjólandi umferð stóraukinni hættu. Víðast er hjólreiðafólki alltaf heimilt að nota akbrautir hvort sem sérstakur aðbúnaður eins og hjólarein eða hjólabraut er nálægt eða ekki enda meti hjólreiðamaðurinn þann aðbúnað hættulegri eða óhentugri. Sjá fylgiskjal um Þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks.
15. gr.
· Ökumaður, sem ætlar að beygja á vegamótum, skal ganga úr skugga um að það sé unnt án hættu eða óþarfa óþæginda fyrir aðra, sem fara í sömu átt. Hann skal sérstaklega gefa gaum umferð, sem á eftir kemur sem og hjólandi umferð á akbraut, hjólarein eða á leið eftir göngu- og hjólastíg samsíða akbraut.
· Við hægri beygju ber að aka sem næst hægri brún akbrautar og skal beygjan tekin eins kröpp og unnt er.
Bifreiðar í hægri beygju eru valdar af mörgum alvarlegustu slysunum sem hjólreiðafólk lendir í. Hættan eykst eftir því sem ökutækin eru lengri því það pláss sem hjólafólk við hægri vegarkant hefur á beinni akrein hverfur þar sem löngu ökutæki er beygt til hægri og hjólreiðamaður sem er staddur þar hefur enga undankomuleið. Sjá fylgiskjal um Samgönguhjólreiðar. Seinna ákvæðið um eins krappa beygju og unnt er virðist óþörf og er ekki í samræmi við öruggustu notkun reiðhjólsins eins og kennt er í Hjólafærni og Samgönguhjólreiðum.
20. gr.
· Sá, sem ekur fram úr, skal hafa nægilegt hliðarbil milli ökutækis síns og þess, sem ekið er fram úr.
· Ökumaður, sem ætlar að taka fram úr reiðhjóli, skal ganga úr skugga um að það sé unnt án hættu eða óþarfa óþæginda fyrir hjólreiðamanninn og hafa að lágmarki eins meters hliðarbil.
Hér þarf að skilgreina lágmarks fjarlægð þegar tekið er fram úr hjóli en það er stór áhættuþáttur þegar bifreið tekur fram úr hjólreiðamanni á akbraut án þess að víkja nægilega. T.d. er í amk. 10 fylkjum BNA búið að setja reglur um 3 fet sem lágmarksfjarlægð = 1m þegar tekið er fram úr hjólreiðamanni.
21. gr.
· Þegar ökumaður verður þess var, að ökumaður, sem á eftir kemur, ætlar að aka fram úr vinstra megin, skal hann vera með ökutæki sitt eins langt til hægri og unnt er. Má hann ekki auka hraðann eða torvelda framúraksturinn á annan hátt. Ákvæði þetta gildir eigi um reiðhjól
Þarna þarf að undanskilja reiðhjól enda nægir ákvæði 39. greinar
Þessi grein virðist beint að þjóðvegaakstri og samræmist ekki því hvernig öruggast er að nota reiðhjól í borgarumhverfi, sjá fylgiskjal um Samgönguhjólreiðar. Í Hjólafærni er einmitt kennt að ef hjólreiðamaður metur aðstæður þannig að bifreið geti ekki farið fram úr sér með öruggum hætti á hann að staðsetja sig á akbrautinni miðri svo bílstjóri sem á eftir kemur reyni síður hættulegan framúr akstur. Einnig má hann ekki víkja of langt til hægri þegar tekið er fram úr því hann þarf alltaf sitt öryggissvæði ef bifreið víkur ekki með nægu hliðarbili eða göturæsi eða aðrar ófyrirséðar hættur eru framundan. Í gatnakerfi höfuðborgarinnar eru þetta ekki langir kaflar og lítil hætta á að reiðhjólamaður sé "lestarstjóri" með langa röð bifreiða fyrir aftan sig eins og gerist með hægfara ökutæki á þjóðvegum.
22. gr.
· Ákvæði greinarinnar á ekki við um akstur fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli.
Helst að taka þetta alveg út því þetta ákvæði dugar:
· Heimilt er þó að aka fram úr öðru ökutæki ef skilyrði til framúraksturs eru að öðru leyti fyrir hendi.
Að öðrum kosti bæta við:
· Ákvæði greinarinnar á ekki við um akstur fram úr reiðhjóli eða léttu bifhjóli ef ekið er beint yfir vegamót.
Sjá fyrri athugasemdir um hættur af vélknúnum ökutækjum sem taka hægri beygju.
26. gr.
Varðandi 26. grein: Sérstakar skyldur gagnvart gangandi vegfarendum. Kannski er þörf á einhverju svipuðu gagnvart hjólreiðafólki? Fyrir neðan er greininni breitt með tilliti til hjólandi en það mætti líka bara umorða margar setningarnar í ...gangandi eða hjólandi vegfaranda...
· Ökumaður, sem mætir eða ekur fram hjá hjólandi vegfaranda, skal gefa honum tíma til að víkja til hliðar og veita honum nægilegt rými á veginum.
Ökumaður, sem ætlar að aka yfir gangstétt eða gangstíg eða hjólabraut eða hjólarein eða að aka út á akbraut frá lóð eða svæði við veginn, skal bíða meðan hjólandi vegfarandi fer fram hjá. Sama á við um akstur inn á eða yfir göngugötu.
· Við akstur á göngugötu skal ökumaður hafa sérstaka aðgát og tillitssemi gagnvart hjólandi vegfaranda.
· Við beygju á vegamótum má ökumaður ekki valda hjólandi vegfaranda, sem fer yfir akbraut þá, sem beygt er inn á, hættu eða óþægindum. Sama á við um akstur yfir akbraut eða af henni, þar sem ekki eru vegamót.
· Við gangbraut, þar sem umferð er stjórnað af lögreglu eða með umferðarljósum, skal ökumaður bíða eftir hjólandi vegfaranda, sem er á gangbrautinni á leið yfir akbrautina, þótt umferð sé að öðru leyti heimil í akstursstefnu ökumannsins. Ef gangbrautin er við vegamót og ökumaður kemur að henni úr beygju á vegamótunum, skal hann aka hægt og bíða meðan hjólandi vegfarandi, sem er á gangbrautinni eða á leið út á hana, kemst fram hjá.
· Ökumaður, sem nálgast gangbraut, þar sem umferð er ekki stjórnað af lögreglu eða með umferðarljósum, skal aka þannig að ekki valdi hjólandi vegfaranda á gangbrautinni eða á leið út á hana hættu eða óþægindum. Skal ökumaður nema staðar, ef nauðsynlegt er, til að veita hinum hjólandi færi á að komast yfir akbrautina.
· Ökumaður skal forðast, svo sem unnt er, að stöðva ökutæki á gangbraut.
39. gr.
· Hjólreiðamaður skal hjóla hægra megin á akrein þeirri, sem lengst er til hægri en má þó hjóla á miðri akrein þar sem aðstæður eru ekki fyrir bifreiðar til að fara fram úr honum með öruggum hætti.
Þetta ákvæði er mikilvægt öryggi hjólreiðamannsins sem þarf stundum að fara á miðja akrein til að tryggja að hann sé ekki þvingaður í hættu af ökutæki sem reynir framúrakstur, sem er algengur slysavaldur. Sjá líka athugasemd við 20. gr.
· Hjólreiðamaður, sem nálgast vegamót og ætlar að fara beint áfram eða beygja til vinstri, má vera áfram hægra megin á vegi. Ætli hann til vinstri skal hann fara beint áfram yfir vegamótin og beygja þá fyrst, þegar það er unnt án óþæginda fyrir aðra umferð. Gildir þetta þrátt fyrir umferðarmerki eða önnur merki, nema þau séu sérstaklega ætluð hjólreiðamönnum.
Þessi grein er mjög ruglingsleg og óþörf. Margir horfa fram hjá því að hann MEGI taka venjulega vinstri beygju samanber 15. gr. og horfa aðeins á setninguna sem lýsir því hvernig hann eigi að haga sér KJÓSI hann að taka vinstri beygjuna í tveim áföngum vegna aðstæðna. Til dæmis stendur eftirfarandi í reglugerð Nr. 289/1995 um umferðarmerki og notkun þeirra: (http://ww.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/289-1995 )
· Hjólreiðamaður sem ætlar að beygja til vinstri og á samkvæmt 3. mgr. 39. gr. umferðarlaga að fara beint áfram yfir vegamótin skal því fara eftir þeim merkjum sem gilda um umferð beint áfram.
Ekki verður annað séð en þarna sé horft fram hjá þeim möguleika að taka venjulega vinstri beygju samanber 15. gr. sem má að sjálfsögðu ekki banna hjólandi fólki. Greinin gæti þá verið svona:
· Hjólreiðamaður, sem nálgast vegamót og ætlar að fara til vinstri má fara beint áfram yfir vegamótin og beygja þá fyrst, þegar það er unnt án óþæginda fyrir aðra umferð. Gildir þetta þrátt fyrir umferðarmerki eða önnur merki, nema þau séu sérstaklega ætluð hjólreiðamönnum.
· Heimilt er að hjóla á gangstétt og gangstíg, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum. Hjólreiðamaður á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum.
Það vantar að skilgreina í lögunum hvernig umferð á stígum skal háttað, víkja til hægri þegar öðrum vegfaranda er mætt, halda sig hægra megin, virða hægri rétt þar sem stígar eða gangstéttir mætast og slíkt, eins og við nefndum við gr. 1.
· Hjólreiðamaður skal að jafnaði hafa fætur á fótstigum og a.m.k. aðra hönd á stýri.
Þetta segir sig sjálft og er óþarft ákvæði. Á heldur ekki við um þá sem nota t.d. handknúin hjól eða önnur farartæki sem í núgildandi lögum eru skilgreind sem reiðhjól.
· Hjólreiðamaður má ekki hanga í öðru ökutæki á ferð eða halda sér í ökumann eða farþega annars ökutækis.
Segir sig sjálft og er óþarft ákvæði. Það er líka hægt með hættulegum hætti að hanga i öðru ökutæki á hjólabrettum, línuskautum og listinn gæti orðið langur.
· Læsa skal reiðhjóli, sem lagt er, nema því sé lagt um stutta stund, og ganga þannig frá því, að eigi stafi hætta eða truflun af.
Óþarft ákvæði og til trafala að þurfa að læsa reiðhjóli þar sem það tíðkast ekki, s.s. í minni sveitarfélögum.
40. gr.
· Eigi má reiða farþega á reiðhjóli. Þó má vanur hjólreiðamaður, sem náð hefur 15 ára aldri, reiða barn yngra en 7 ára, enda sé barninu ætlað sérstakt sæti og þannig um búið að því stafi eigi hætta af hjólteinunum.
Óþörf grein. Fyrsti hluti tekur ekki tillit til mismunandi reiðhjóla og búnaðar sem nota má til að reiða fólk með öruggum hætti og í raun óljóst hvað átt er við með orðinu að reiða. Fullorðnu fólki á að treysta fyrir eigin öryggi og farþega sinna. Foreldrum er treystandi til að huga að öryggi barna og nota örugga barnastóla.
· Eigi má flytja á reiðhjóli þyngri hluti eða fyrirferðarmeiri en svo að ökumaður geti haft fullkomna stjórn á reiðhjólinu og gefið viðeigandi merki. Eigi má heldur flytja á reiðhjóli hluti, sem valdið geta öðrum vegfarendum óþægindum
Óþörf grein. Tekur ekki tillit til mismunandi reiðhjóla og búnaðar sem nota má til þessa og seinni hlutinn segir sig sjálfur.
Gr. 72a
· Ráðherra getur sett reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar.
Landsamtök hjólreiðamanna eru á móti skyldunotkun hlífðarhjálma við hjólreiðar og leggja til að þetta ákvæði verði tekið út til að tryggja að svona flókið og umdeilt mál fái vandaða umfjöllun á alþingi en verði ekki ákveðið af ráðherra.
Einnig hefur núgildandi reglum um notkun hlífðarhjálma ungmenna ekki verið framfylgt þó aðeins hluti ungmenna noti þá og þá er betra að sleppa lagaskyldunni og hvetja frekar til notkunar þeirra með öðrum aðferðum ef þurfa þykir því þetta minnkar virðingu þeirra fyrir lögum almennt.
Að sleppa þessa grein væri þannig í samræmi við einföldunarátaki Samgönguráðuneytisins
Þá er mikilvægt að ef aftur kemur til tals að skylda notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar að það fari fram vönduð hlutlæg og efnisleg umræða um rök með og á móti með tilvísun í vandaðar hlutlausar rannsóknir um raunverulega gagnsemi og ókosti hjálmaskyldu og má það aldrei vera ákvörðun eins ráðherra. Hjálmamálið er óvenju flókið mál sem mikill umræða hefur verið um í fremstu vísindatímaritum læknavísinda og slysavarna.
LHM leggst alls ekki á móti hjálmanotkun en telur að notkun hjálma eigi að vera frjálst val hjólreiðafólks og foreldra barna.
Það hefur sýnt sig þar sem hjálmaskylda hefur verið innleidd hefur hún ekki skilað sér í færri alvarlegum slysum í hlutfalli við notkun reiðhjóla. Hjálmaskylda hefur haft mjög neikvæð áhrif á notkun reiðhjóla. Eins og kemur fram í fylgiskjali okkar um "Þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks" þar sem vitnað er í áreiðanlegar heimildir og rannsóknir, eru hjólreiðar ekki hættulegar, þvert á móti og því engin ástæða til að glæpgera hjólreiðar án hjálma sem þykja öruggar, hollar og góðar í nágrannalöndunum með eða án hjálma. Sjá sérstaklega hlutfall slysa og hjálmanotkunar í Danmörku og Hollandi. Það er mikilvægara öryggi hjólreiðafólks að fá sem flesta til að hjóla en að þeir sem hjóli séu allir með hjálma.
Víðtæk vönduð könnun í Danmörku sýndi jafnframt að þeir sem notuðu reiðhjól til samgangna lifðu lengur og við betri heilsu en þeir sem gerðu það ekki og þurfti ekki hlífðarhjálma til. Kyrrsetulíferni er hættulegt heilsunni en engin lagaskylda á fólki að hreyfa sig. Fullyrðingar, sem oftast eru órökstuddar og settar fram af öðrum en þeim sem hjóla, um færri tilvik alvarlegra höfuðmeiðsla þar sem hjálmaskylda hefur verið lögleidd taka oft ekki tillit til þess að hjólaumferð hefur minnkað í sama hlutfalli og því engin hlutfallsleg fækkun alvarlegra slysa.
Það er út í hött að skylda hjólreiðafólk til að nota óþægilegan hlífðarbúnað sem er óþarfur og mjög skiptar skoðanir eru á að gagnist öðrum en þeim sem eru byrjendur að læra að halda jafnvægi.
115. gr.
· Ráðherra ákveður þóknun stjórnar umferðarráðs. Hann getur ákveðið að borga jafnframt fulltrúum þóknun, samkvæmt reglum sem raðherra setur.
Reglur mættu ganga út á að allir fulltrúar fengu hóflega borgun fyrir mætingu á fundum, eða bara þeir sem mæta launalaust frá sínum umboðsaðilum.
Rannsóknir, skráning og flokkun slysa hjólreiðafólks
Lög um rannsóknarnefnd umferðarslysa, nr. 24 21. mars 2005 Setja inn ákvæði um nákvæma skráningu slysa reiðhjólafólk svo hægt sé að aðgreina slys við leik og slys við samgöngur og greina orsakavald.
Fyrir hönd Landsamtaka hjólreiðamanna,
______________________________________
Morten Lange, formaður
Páll Guðjónsson