Einnig var full samstaða um þau málefni sem hjólafólk vill að verði sett í forgang og talin eru upp hér. Þessi listi var lagður fyrir Samgöngunefnd Alþingis þegar fulltrúar frá LHM og ÍFHK funduðu með henni vegna nefnds frumvarps.
Brýnustu aðgerðir í málefnum hjólreiðamanna
Hér eru talin saman nokkur atriði sem mikilvægast er að setja í forgang til að ná árangri í þeim markmiðum um aukinn hlut vistvænna samgöngumáta og í að efla lýðheilsu landsmanna sem flestir ráðamenn og stjórnmálaflokkar hafa í stefnu sinni og jafnvel í stjórnarsáttmálum. Reiðhjól eru samgöngutæki sem flestir geta notað og óhætt er að fullyrða að notkun þeirra myndi stóraukast ef ákveðnum hindrunum væri rutt úr vegi og réttar aðstæður skapaðar fyrir hjólreiðar með þeim jákvæðu áhrifum sem leitað er eftir og eru nánar útlistuð í erindi sem John Franklin, einn helsti sérfræðingur um þessi mál í Bretlandi, flutti á Samgönguviku 2007 og er í þýddri útgáfu á þessum vef.
Forgangsmál nr. 1: Hjólabrautir meðfram stofnbrautum
Það er mikilvægt að lagðar verði hjólabrautir meðfram stærstu umferðaræðum höfuðborgarsvæðisins, alvöru hjólabrautir sem eru um 2m á breidd í hvora átt, sitt hvoru megin, eins og erlendir staðlar segja til um og ekki með blandaðri umferð gangandi. Engin slík hjólabraut er til á Íslandi ólíkt flestum nágrannalöndum okkar. Úrbætur á þessum aðalleiðum þurfa að fara í algeran forgang. Þessar stóru umferðaræðar eru með flóknu neti aðreina, fráreina, mislægra gatnamóta og miklum umferðarhraða og margir hræðast að hjóla eftir þeim. Það er næstum ógerlegt að finna greiðar, öruggar leiðir milli margra rótgróinna hverfa innan Reykjavíkur og til og á milli nágrannasveitafélaga s.s. Árbæjar, Breiðholts, Kópavogs, Mosfellsbæjar, að ekki sé minnst á nýrri hverfi á höfuðborgarsvæðinu. T.d. vantar alveg leiðir meðfram Reykjanesbraut, Hafnarfjarðarvegi, Vesturlandsvegi, Bústaðavegi og víðar. Vestan Elliðaár er boðið upp á blandaða stíga sem henta illa til samgangna. Fólkið sem fer eftir þessum leiðum milli borgarhluta á bílum sínum þarf að komast milli sömu borgarhluta þegar það skilur bílinn eftir heima og notar hjólið.
Gatnakerfið hentar vönu hjólafólki best til samgangna
Öruggustu, greiðustu og auðveldustu leiðir reynds hjólreiðafólks liggja eftir hinu almenna gatnakerfi og eðlilega eiga hjólreiðar heima þar samkvæmt lögum. Gatnakerfið þarf því að þjóna fólki á reiðhjólum jafn vel og fólki í bifreiðum. Fyrir utan stærstu umferðaræðarnar henta flestar götur vel til hjólreiða en þó er þörf á átaki til að bæta aðstæður þar og breyta hugsunarhætti í samgöngumálum. Það þarf að gefa reiðhjólinu aukið vægi í skipulagi t.d. með hæfilega breiðum akreinum og máluðum hjólavísum sem minna ökumenn bifreiða á að þeir deila götunum með hjólafólki.
Fjölgun hjólreiðafólks á götum = aukið öryggi hjólreiðafólks á götum
Það sem mest eykur öryggi fólks sem notar hjólið til samgangna er aukinn fjöldi hjólreiðafólks í umferðinni. Því má ná fram með jákvæðum áróðri og bættri aðstöðu. Margt af því sem bætir aðstæður til hjólreiða bætir einnig almennt umferðaröryggi. T.d. þegar hægt er á umferðarhraða, gatnamót eru einfölduð og þveranir styttar. Það er mikilvægt að sleppa öllum óþarfa sveigjum og hindrunum því mikilvægt er að hjólreiðafólk geti viðhaldið skriðþunga sínum og komist greiðlega leiðar sinnar.
Forgang í umferðinni
Forgangsakreinar fyrir almenningssamgöngur eiga að vera fyrir reiðhjól líka og víða má greiða götur hjólafólks t.d. með því að undanskilja þau banni sem stýra ferð bifreiða s.s. að leyfa hjólreiðar í báðar áttir eftir einstefnugötum, opna hjólaleiðir úr botngötum og fleira í þeim dúr.
Hjólavísar eru ódýrari, einfaldari og öruggari lausn en hjólareinar
Víða erlendis hefur verið komið fyrir sér hjólareinum samhliða akbrautum í þeim tilgangi að auka öryggi hjólafólks. Reynslan sýnir hinsvegar fleiri galla en kosti sérstaklega þegar kemur að öryggismálunum og forðast margir vanir hjólreiðamenn að nota þær. Sú leið að hafa akrein nægilega breiða til að auðvelt sé að taka fram úr hjólreiðamanni og merkja hana með hjólavísum (share the road arrows = sharrows = bike and chevron) til að marka leið hjólreiðamannsins í öruggri fjarlægð frá kyrrstæðum bifreiðum og minna bílstjóra á að hann deilir götunni með öðrum jafn réttháum ökutækjum.
Rannsóknir sýna að við þær aðstæður víkja bílstjórar betur fyrir hjólafólki við framúrakstur en þegar það er á þröngt afmörkuðum hjólareinum sem gefa hjólafólki ekki sama svigrúm til að staðsetja sig á götunni eftir aðstæðum eins og nauðsynlegt er við síbreytilegar aðstæður á götunum.
Það er þekkt þversögn í öryggismálum hjólreiðafólks að hjólareinar og blandaðir göngu- og hjólastígar reynast oft draga úr öryggi hjólandi umferðar með því að fjölga hættum fyrir hjólandi með flóknara umhverfi. Langahlíð er því miður skólabókadæmi um flest mistök sem gerð eru við hönnun hjólareina, í stað beinnar breiðrar hjólabrautar er þar hlykkjótt mjó leið með aukinni slysahættu við flest gatnamót. Lærum af reynslu annarra í stað þess að endurtaka mistökin.
Blandaðir stígar henta ekki til samgangna.
Stígakerfið á höfuðborgarsvæðinu ber þess glögg merki að vera ekki hannað til samgangna hjólandi fólks. Þó er það nauðsynlegur valkostur fyrir byrjendur og reynslulitla því þeir upplifa sig öruggari þar og vel hannaðir stígar hvetja til hjólreiða þótt í reynd sýni reynslan að hjólreiðafólki er mun hættara við slysum á þeim, sér í lagi af völdum bíla við gatnamót, bílastæði og innkeyrslur.
Fræðsla og þjálfun. - Aukin áhersla á gagnsemi og heilsubót.
Umræðan einkennist um of af meintum hættum því við nánari skoðun eru þær hverfandi ef tekið er tillit til þess að hjólreiðar til samgangna eru líklegri til að lengja líf og heilsu fólks en nokkur önnur hreyfing og slysatíðnin er minni en í flest öllum íþróttum. Nær væri að fræða fólk um gagnsemi hjólreiða og þjálfa fólk í hjólreiðum því það er ekkert einfaldara að hjóla í umferð en að aka bíl. Gjarnan mætti koma á fót kennslu og námskeiðum í notkun reiðhjóla til samgangna eins og Bretar og fleiri þjóðir gera. Mikilvægt er að kenna fólki að forðast slysin. Notkun hjálma á að vera val hvers og eins og alls ekki leiða í lög.
*Sjá Þversagnir í umferðaröryggi