Íslensk rannsókn um gagnsemi hjálma

laeknabladidNýlega var okkur bent á íslenska rannsókn þar sem vernd hjólahjálma gegn áverkum á höfði var metin. Hún var birt í Læknablaðinu 1996 þremur árum áður en núgildandi regla var sett 1999. Þetta er mikilvægt innlegg í umræðuna núna því það er möguleiki að hjálmaskylda verði látin fylgja með í nýjum umferðarlögum sem hafa verið í vinnslu síðustu 1-2 ár. Í dag lítum við á regluna sem barn síns tíma sett að gefnum forsendum sem standast ekki skoðun og ekki hefur verið sýnt fram á gagnsemi reglunnar eins og við fjöllum ítarlega um t.d. í athugasemdum LHM við drögin að nýju lögunum og aftur við seinni drög. Greinilega hefur ekki verið tekið tillit til þess að niðurstaða þessarar rannsóknar sem greinir ekkert marktækt gagn af þeim. Þessi niðurstaða er samhljóma mörgum öðrum erlendum könnunum. {jathumbnail off}

Það er mikilvægt að endurmeta kosti og galla þessarar hjálmaskyldu á heildarhagsmuni hjólreiðamanna áður en henni er skellt í lög með copy paste. Í dag er orðið löngu ljóst að þær væntingar sem gerðar voru til reiðhjólahjálma á þessum tíma voru óraunhæfar, gagnsemin stórlega ofmetin og þörfin líka. Ljóst er af reynslunni þar sem hjálmaskylda hefur verið innleidd að árangur af hjálmaskyldu er neikvæður með tilliti til heildar öryggishagsmuna þeirra sem skyldan er lögð á. Munum að reiðhjólahjálmar eru fyrst og fremst hannaðir til að gagnast þegar fólk dettur og eru ekki sambærilegir við öfluga mótorhjólahjálma.

LÆKNABLAÐIÐ 1996; 82

51. Áverkar eftir reiðhjólaslys

Karl Kristjánsson, Brynjólfur Mogensen Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur

Inngangur: Áhugi almennings á hjólreiðum hefur aukist undanfarin ár, en notkun hjólahjálma hér á landi eða gagnsemi hefur lítið eða ekki verið könnuð. Þá hefur umræða verið í gangi hérlendis og í nágrannalöndum hvort lögleiða beri skyldunotkun hjólahjálma. Megintilgangur rannsóknarinnar var að kanna notkun hjólahjálma og meta þá vernd sem þeir veita gegn áverkum á höfuð.

Efniviður: Efniviðurinn var tvíþættur. Annars vegar Reykvíkingar sem komu á slysadeild Borgarspítalans 1994 vegna hjólaslysa (n=175). Hins vegar öll hjólaslys á Borgarspítalanum árin 1992-1995, óháð búsetu (n=1144).

Niðurstöður: Af 175 hjólaslysum árið 1994, var 21 vegna áreksturs hjóls og bíls (E 813), en 154 vegna annarra orsaka (E 826) aðallega falls af hjóli. Beinbrot voru alls 40 eða 23% af öllum áverkum. Innlagnir voru 16, 14 á Borgarspítalann og tvær á Landspítalann. Ástæður innlagna voru; beinbrot níu. höfuðáverkar fimm, annað tvær. Um 60% slysanna urðu hjá börnum 14 ára og yngri, en fjölmennasti hópurinn er 10-14 ára börn. Karlar eru í meirihluta í öllum aldurshópum, 783 (68%) af 1144. Fjöldi hjólaslysa 1992-1995 var 1144, eða nálægt 300 á ári. Hjálmanotkun hefur farið vaxandi og er nokkuð svipuð hjá báðum kynjum eða 16%, mest í yngstu aldurshópunum, um 40%. Borin var saman tíðni höfuðáverka hjá þeim sem höfðu notað hjálm þegar slysið varð, 10,6%, (n=189) og hinum sem ekki höfðu notað hjálm, 10,8% (n=955). Ekki var marktækur munur, jafnvel eftir að leiðrétt hafði verið fyrir aldri, kyni og áverkastigi.

Umræða: Höfuðáverkar er sá slysaflokkur sem helst getur valdið varanlegum skaða eða dauða eftir hjólaslys. Sá litli mælanlegi árangur af hjálmanotkun, sem birtist í þessari rannsókn veldur vonbrigðum og kann að stafa að nokkru leyti af veikleikum í uppsetningu rannsóknarinnar og tilviljun. Stórauka ætti þó eftirlit með gæðum hjólahjálma og helst ætti ekki að selja hjálma nema þeir séu mátaðir og stilltir á væntanlegan notanda. Eins þarf að koma á stöðugu eftirliti um rétta notkun þeirra, ef til vill í skólaheilsugæslu á vorin. Frekari rannsóknir á þessum slysaflokki og notkun hjálma eru einnig nauðsynlegar.

Sjá greinina hér.