Tölvupóstur vegna kröfu Tryggingafélagana um lögleiðingu skyldunotkunar reiðhjólahjálma

 

Reykjavík 2. maí 2005

Sæll Óli.

             Sem stjórnarmaður Landssamtaka hjólreiðamanna og starfandi í hópi um endurskoðun Staðardagskrár 21 hjá Reykjavíkurborg get ég ekki á nokkurn hátt fallist á almenna lögleiðingu reiðhjólahjálma.

            Í okkar vinnu til að bæta umhverfið og umferðamenninguna er það einlæg ósk eins og  Landssamtaka hjólreiðamanna og undirritaðs að fallið verði frá þessari "óafturkræfu" lagasetningu. Það er ákaflega mikilvægt í ljósi þess að sveitarfélög þettbýlisvæða  munu fyrr eða síðar þurfa að taka fullt tillit til hjólreiða, því sá ferðamáti er ákaflega hentugur í stuttar ferðir. Hjólreiðar eiga eftir að spila stóra rullu í skipulags- og umferðamálum og því á ekki að setja á lög sem geti íþyngt þeirri framþróun á nokkurn hátt. Þetta vita stjórnvöld þeirra landa sem best hefur gengið að vinna að sjálfbærum samgöngum.

            Í því ljósi að aukin hjálmaskylda muni fækka hjólreiðamönnum þá verður að minna á, að þar er verið að hafa slæm áhrif á lýðheilsu almennings. Þá má minna á að hreyfingarleysi almennings er eitt af stærstu vandamálum nútímans.

            Ég sendi því hér með í viðhengi minnispunkta og á eftir spurningar sem mjög mikilvægt er að fá svör við áður en af almennri lögleiðingu hjálma verður.

 Með kveðju,

Magnús Bergsson

 

 

  Minnispunktar vegna lögleiðingu hjálma.

  

 

1.      Landssamtök hjólreiðamanna leggjast ekki gegn hjálmanotkun heldur gegn lögleiðingu hennar. Ástæðan er sú, að ef gera á hjólreiðar að valkosti til samgangna þá er mikilvægt að sem minnst trufli hégóma almennings því ávinningurinn er mjög mikill. Eitt af verkefnum Landssamtaka hjólreiðamanna er að knýja á um bætta aðstöðu til hjólreiða svo slysum fækki og hjólreiðar verði svo einfaldar að almenningur þurfi ekki að klæðast sérstökum hjólreiðafatnaði til að komast á milli staða. Þetta vita bæði Danir og Hollendingar sem hafa ekki lögleitt hjálma en þess í stað bætt aðstöðu og öryggi fyrir hjólreiðamenn.

2.      Ætla má að um 30% landsmanna sé svo upptekinn af útliti sínu að þeir muni ekki nýta sér reiðhjólið ef af hjálmaskyldu verður.

3.      Sveitarfélög sem eru að reyna uppfylla skyldur Staðardagrár 21 munu missa möguleika á því að fá þessi 30% til að nýta sér reiðhjólið. Það minnkar arðsemi þeirra framkvæmda sem sveitarfélögin fara í til að bæta aðgengi ög öryggi hjólreiðamanna.

4.      Fólk mun ekki nýta sér reiðhjólið ef það þarf að fara "prúðbúið" milli staða með hjálm.

5.      Landssamtökin telja það ágætt að hjálmaskylda sé bundin í lög upp að 14 ára aldri því reiðhjól eru ekki hættulaus sem leiktæki og höfuð barna hlutfallslega þyngra en fullorðinna.

6.      Reynslan hefur sýnt að hjólreiðamönnum fækkar við lögleiðingu hjálma t.d. í Ástralíu. Þar var ekki heldur merkjanleg fækkun slysa á hjólreiðamönnum eftir lögleiðinguna. Ef fækkun slysa var einhver þá hélst hún frekar í hendur við fækkun hjólreiðamanna.

7.      Hjólreiðar eiga í vök að verjast hér á landi, aðallega vegna aðstöðuleysis og óljósra umferðarreglna. Því er ekki þörf á íþyngjandi lagasetningum.

8.      Það á ekki að gera því fólki erfitt fyrir sem hugsanlega myndi vilja prófa að hjóla. Ávinningur af því að fólk hjóli er meiri en höfuðmeiðsli þeirra hjálmlausu einstaklinga sem munu slasast hugsanlega, allt eins vegna lélegrar hönnunar umferðarmannvirkja.  Lögbundin hjálmaskylda er ekki sendingin sem hjólreiðasamtök þurfa að fá frá ábyrgum aðilum. Vandamál og slysahætta á hjólreiðafólki er af öðrum toga.

9.      Ástæða þess að fólk vill ekki nota hjálma eru af ýmsum toga.  Hjólið er notað í mjög stuttar ferðir, það er gripið í hjólið til að færa sig úr stað, líkt og inniskó. Fólk sem hjólar sjaldan er ekki að fjárfesta í hjálmi. Fólk sem fær reiðhjól lánað fær ekki að sama skapi lánaðan hjálm. Það er ekki hægt að skilja hjálminn eftir á hjólinu þegar því er lagt.  Fólk sem leggur mikið upp úr útlitinu er ekki tilbúið til að skaða útlitið með "skræpóttu pottloki". Það sleppir því að hjóla ef það verður þvingað til hjálmanotkunar. Ferðamenn sem stytta handfangið á tannburstanum til að létta búnaðinn vilja ekki þvælast með fyrirferðamikið "plastdrals". Góð húfa gerir meira gagn. Hjálmar eru mjög misjafnir að gæðum og passa misvel á höfuð manna. Sumum finnst því hjálmurinn óþægilegur. Hjálmar eru dýrir ef þeir eru góðir. Höfuðstórir menn eiga í vandræðum með að fá hjálma, hvað þá ef nota þarf húfur undir þeim. Stundum er svo heitt að það getur reynst erfitt að hafa hjálma. Reiðhjól eru ekki bara leiktæki heldur samgöngutæki sem mikil þörf er á að fólk fari að nota, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

10.  Það er ekki hægt að líkja lögbundinni hjálmaskyldu við lögleiðingu bílbelta í bifreiðum. Það má fremur líkja því við að allir bíleigendur verði skyldaðir til að hafa bíla sína neonlitaða svo þeir sjáist betur. Þá myndi sú ímynd sem bíllinn skapar fljótlega bíða hnekki.

11.  Ef hjálmaskylda verður að veruleika verður ómögulegt að bjóða upp á þjónustu eins og "CityBike" sem viða má finna eins og t.d. í Kaupmannahöfn. Það verður einnig útilokað að bjóða upp á ,,Rickshaw" þjónustu í framtíðinni.

12.  Hjálmaskylda er í öllum dagskrárliðum hjólreiðafélaganna, bæði í keppnum og ferðalögum.

13.  Nú þegar halda margir að það sé lögbundin hjálmaskylda á öllum hjólreiðamönnum.

14.  Gera má ráð fyrir að sú almenna hjálmanotkun sem nú er við líði hafi nú þegar valdið Landssamtökunum vanda þar sem margir í sínum hégóma vilja ekki undir nokkrum kringumstæðum nota hjálm á reiðhjóli. Þeir hafi því kosið bílinn fram yfir reiðhjólið.

15.  Telja má líklegt að þeir sem hafi félagsvitund meðal hjólreiðafélaganna noti yfir höfuð allir hjálma.

16.  Hjálmaskylda mun ekki ná til þeirra sem ekki nota hjálm í dag nema að ákaflega litlu leyti. Flestir munu væntanlega fremur breyta ferðavenjum en að gerast löghlýðnir og nota hjálm. Ef skynsemin nær ekki til þeirra þá ná lög það ekki heldur. Það mun áfram þykja töff hjá sumum að vera hjálmlaus þó hjálmaskylda verði lögbundin.

17.  Unglingar sem líta á reiðhjólið sem "leiktæki" og hafa ekki notað hjálma fram til þessa munu líklega ekki nota hjálma þótt lögleiðing verði að veruleika.

18.  Hjálmur gerir lítið og jafnvel ekkert gagn ef hann situr vitlaust á höfði. Dæmi eru um að hann hafi jafnvel aukið slagkraftinn og skaðað andlit meira en hugsanlega hefði orðið ef viðkomandi hefði verið hjálmlaus.

19.  Eftir að hjálmalög hafa einu sinni verið sett á verður ekki aftur snúið.

20.  Ef tryggingafélög eru til í að bæta öryggi hjólreiðamanna þarf að ráðast að rót vandans s.s. bættu aðgengi og lagfæra úrelt umferðarlög og skipulag.

21.  Landssamtök hjólreiðamanna eru eftir getu og þekkingu tilbúin í slíka vinnu.

22.  Hjólreiðafélögin geta fallist á að vinna með tryggingafélögum og Umferðastofu um að auka hjálmanotkun með auglýsingum.

 

Spurningar sem verður að svara áður en af frekari lögleiðingu verður.

  

 

23.  Er hjálmaleysi vandamál hér á landi? Ef svo er, hvar er að finna gögn um það?

24.  Það hefur ekki enn farið fram sýnilegur áróður um notkun hjálma. Væri ekki ráð að byrja á því áður en farið er út í lögleiðingu sem mun jafnvel hafa engin eða neikvæð áhrif?

25.  Eru til nýlegar íslenskar slysatölur um hjálmlaust hjólreiðafólk? Ef svo er, hefur þá farið fram einhver greining á því hvernig slysum bar að?

26.  Hafa slys á hjólreiðamönnum verið tölfræðilega rannsökuð með það í huga að finna ástæður þess að slysin hafa orðið? Ef svo hvers vegna hefur LHM ekki séð þau gögn?

27.  Hvernig "hjólreiðafólk" er það sem slasaðist. Er það fólk sem leit á hjólið sem farartæki eða var það fólk sem leit á hjólið sem leiktæki?

28.  Var hugmyndin að lögleiðingu hjálma byggð á einhverjum gögnum? Ef svo er þá hverjum?

29.  Var þessi hugmynd um lögleiðingu tekin af hjólreiðafólki eða fólki sem ekki þekkir til hjólreiða?

30.  Í ljósi þess að hjálmar verða ekki alltaf til staðar þegar fólk sest á hjól, hver er þá sú vegalengd sem talist getur "ferð" þar sem hjálmur á að vera á höfði hjólreiðamanns?

31.  Hjálmar eru dýrir og því ekki á færi allra að kaupa þá. Þeir geta kostað nærri það sama og hjólið. Munu stjórnvöld niðurgreiða hjálma fyrir efnaminni borgara?

32.  Ætlar lögregla að framfylgja hjálmaskyldunni? Ef svo er, þá hvernig?

33.  Ef lögregla ætlar ekki að framfylgja hjálmaskyldunni, hvers vegna er þá verið að setja lög sem breyta engu?

34.  Munu löggæsluaðilar selja hjálma til erlendra hjólreiðamanna sem koma til landsins? Ef svo er ekki fá þeir þá undanþágu?

35.  Ef hjálmasala verður sett upp á Keflavikurflugvelli og á Seyðisfirði verður tryggt að allar gerðir af hjálmum verði seldar þar, eða aðeins þeir ódýrustu hverju sinni?

36.  Af hverju var aldrei haft samband við hjólreiðafélögin á meðan umræða um hjálmaskyldu var á frumstigi?  Fór kannski aldrei fram nein umræða?

37.  Það eru til rökstudd gögn frá Bretlandi um að það sé hlutfallslega meiri hætta á því að ökumenn fái alvarleg höfuðmeiðsl í bílslysum en hjólreiðamenn í hjólreiðaslysum. Hvers vegna eru ökumenn þá ekki með hjálma?

38.  Hjálmanotkun er mjög mikil hér á landi. Því má þakka hjólreiðafélögunum sem hafa hvatt til hjálmanotkunar síðastliðinn áratug og það án opinberar herferðar. Hvers vegna er það ekki talinn nógu góður árangur?

39.  Er lögleiðing hjálma tilkomin vegna þess að það er auðveld aðgerð í framkvæmd?

40.  Í Kaupmannahöfn hefur slysum á hjólreiðafólki fækkað um helming á 6 árum með því einu að bæta aðstöðuna. Þar eru 35% allra ferða farnar á reiðhjólum og engin hjálmaskylda, sem og víðar þar sem hjólreiðar eru hvað mestar. Getur verið að almenn höfuðmeiðsl hjólreiðamanna stafi af því að aðstaðan til hjólreiða sé slæm?

41.  Eru Tryggingafélögin sem knýja á um lögleiðingu hjálma tilbúin til að knýja á um bætta aðstöðu hjólreiðamanna og í samvinnu við hjólreiðafélöginn?

 

Sjá einnig:

Helsu rök Mortens Lange Formanns LHM og ýmissa fræðimanna með og á móti  lögleiðingu hjálmaskyldu. 

 

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.