Reykjavík 1. mars 2007
Umsögn um Samgönguáætlun 2007-2010
Í þessari umsögn verður einungis fjallað um þá leiðu staðreynd, að hjólreiðar virðast ekki vera nefndar á nafn í umræddri Samgönguáætlun (SGÁ).
Landssamtök hjólreiðamanna harma, að umsögn samtakanna um umhverfismat samgönguáætlunar, sem send var hlutaðeigandi undir lok nóvember 2006, skuli ekki hafa komist til skila í þá gerð Samgönguáætlunar 2007-2010, sem nú liggur fyrir.
Auk umsagnar Landssamtaka hjólreiðamanna bentu umsagnir Reykjavíkurborgar, Lýðheilsustöðvar og Landverndar um umhverfismat SGÁ allar á nauðsyn þess að auka bæri vægi hjólreiða í áætluninni.
Það er löngu tímabært og mjög mikilvægt, að Samgönguáætlun nái til allra þeirra samgangna, sem eiga samleið á vegum, sem Samgönguáætlunin nær til. Það virðist sífellt þurfa að minna á, að reiðhjól eru farartæki, sem lúta umferðarlögum á akvegum í umsjá Vegagerðar og samgönguráðuneytis. Allt tal um umferðaröryggi, án þess að taka tillit til hjólreiðafólks, er vægast sagt mjög ófaglegt og hættulegt. Þannig vinnubrögð ganga ekki í samgönguáætlun, sem gerð er til nútíðar og framtíðar, að láta sem reiðhjól séu ekki til sem samgöngutæki, hugsanlega aðeins vegna þess, að þau eru ekki vélknúin. Það þarf væntanlega ekki að taka fram, að Landssamtök hjólreiðamanna líta ekki svo á, að reiðhjól komi í stað vélknúinna ökutækja.
Í 1.3 málsgrein á bls. 2 og 1.1.3 málsgrein á bls. 57 um "markmið umhverfislega sjálfbærra samgangna" er ekki minnst á hjólreiðar. Þessar greinar ná aðeins til vélknúinna farartækja. Ekki er sýnilegt, að rannsóknir eigi að fara fram á gildistíma samgönguáætlunarinnar. Þó er ljós þörfin og mikilvægt er að hefja þegar í sumar sjálfvirka talningu á umferð og könnun á ferðavenjum hjólreiðafólks svo að mælanlegur árangur verði sýnilegur, þegar stjórnvöld hefja raunverulegar samgöngubætur í þéttbýli. Um leið og aðstaða til hjólreiða verður bætt, svo að almenningur fái þá tilfinningu, að umferð reiðhjóla sé hættulítil eða hættulaus, munu hjólreiðar aukast í umferðinni.
Það þarf liklega ekki að minna á það enn og aftur, að hjólreiðar eru afar arðbærar sé litið til umhverfis, náttúru, heilbrigði og almenns kostnaðar í samgöngumálum, eins og m.a. skýrsla Norræna ráðherranefndarinnar "CBA of Cycling" sýnir.
Landssamtök hjólreiðamanna leggja til með hliðsjón af framansögðu, að Samgönguáætlun 2007-2010 fái viðauka, sem sérstaklega taki á brýnustu þörfum hjólreiðafólks og þar með sjálfbærum samgöngum.
Mikilvægustu þarfir eru þessar:
1. Nú þegar þarf að skipa starfshóp, sem vinni að bættum samgöngum hjólreiðafólks. Hópurinn hafi það verkefni að endurskoða hönnun umferðarmannvirkja með tilliti til þess að gera hjólreiðabrautir að raunhæfum og samkeppnishæfum kosti í samgöngum. Hópurinn þarf einnig að endurskoða umferðarlög sem varða samskipti akandi, hjólandi og gangandi vegfarenda. Þá þarf hópurinn að sjá um útgáfu handbókar í anda þess, sem öll nágrannalönd okkar hafa gert, t.d.:
- í Danmörku: Idékatalog for cykeltrafik. Einnig fáanleg á ensku. Collection of Cycle Concepts.
- í Noregi: Nasjonal Sykkelstrategi, og í enskri útgáfu: National Cycling Strategy.
- í Þýskalandi: Nationaler Radverkehrsplan
- í Bretlandi: Bretland: Department for Transport - National cycling strategy
Starfshópurinn þarf að fylgja því eftir, að rétt sé staðið að framkvæmdum þar sem hjólreiðabrautir koma við sögu
Í starfshópnum ættu að sitja fulltrúar frá samgönguráðuneyti, Vegagerðinni, sveitarfélögum og Landssamtökum hjólreiðamanna. Einnig mætti að skoða hvort Landvernd, umhverfisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti ættu ekki að eiga fulltrúa í starfshópnum.
Starfshópurinn þarf að hefja störf fyrir áramót 2007-2008
2. Fella verður niður tolla af reiðhjólum og fylgihlutum eigi síðar en ári eftir gildistöku Samgönguáætlunar 2007-2010.
3. Telja má nauðsynlegt að samgönguráðuneytið sem og Vegagerðin sæki sér fræðslu um gerð hjólreiðabrauta til nágrannalanda okkar. Mælst er til þess, að horft verði til Hollands í þeim efnum, þar sem þeir standa öðrum þjóðum framar í gerð hjólreiðabrauta.
Má þar nefna CROW, SWOV og KpVV
4. Þegar á þessu ári, 2007, verði leitað allra leiða til að skapa skattalega hagræðingu fyrir þá, sem kjósa að nýta sér sjálfbærar samgöngur. Fyrrnefndur starfshópur fari með og þrói enn frekar þann málaflokk í framtíðinni.
Landssamtök hjólreiðamanna óska eftir málefnalegum skýringum frá samgönguráðuneytinu hvers vegna hjólreiða er ekki getið í Samgönguáætlun 2007-2010.
-- Fylgiskjöl --
Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna við drög að umhverfismati samgönguáætlunar er að finna á vefslóðum:
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2006/191106.htm
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2006/201106.htm
Umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um vegalög er á vefslóðinni:
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2007/150207.htm
Athugasemd Landssamtaka hjólreiðamanna við umferðaröryggisáætlun 2002-2010 er á vefslóð:
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2004/athumferd.htm
-- Tenglar --
Fietsberaad (Hollenska "Hjólaráðið". Mjög góður gagnagrunnur)
http://www.fietsberaad.nl/
Bundesministerium für Verkehr, Bau und Stadtentwicklung - Radverkehrsplan
http://www.nationaler-radverkehrsplan.de/
Vejdirektoratet - Idékatalog for cykltrafik
http://www.vejdirektoratet.dk/dokument.asp?page=document&objno=9178
Department for Transport - National cycling strategy
http://www.dft.gov.uk/pgr/sustainable/cycling/ncs/nationalcyclingstrategy
Statens vegvesen - Syklist
http://www.vegvesen.no
CBA of Cycling
http://www.norden.org/pub/sk/showpub.asp?pubnr=2005:556
Umsögn þessa er hægt að nálgst á vefslóðini
http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2007/010307.htm
Fyrir hönd Landssamtök hjólreiðamanna
_________________________________________________
Magnús Bergsson