Hjólreiðabrautir og göngustígar á Akureyri

Reykjavík 4. nóvember 2007

 

Tölvupóstur sendur til: Péturs Bolla Jóhannessonar skipulags og byggingarfulltrúa, Péturs Halldórssonar dagskrárgerðarmanns og á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Efni: Hjólreiðabrautir og göngustígar á AkureyriLandssamtök hjólreiðamanna (LHM) óska eftir að koma eftirfarandi á framfæri vegna viðtals í útvarpsþættinum "Vítt og breitt" á Rás 1, fimmtudaginn 25. október sl. Þar ræddi Pétur Halldórsson við Guðmund Hauk Sigurðsson frá Verkfræðistofunni VGK um stígagerð á Akureyri.
Landssamtökin fagna því sem kom fram í viðtalinu að Akureyrarbær skuli frá upphafi leita samráða við ýmsa hagsmunaaðila við stígagerð á Akureyri.
Það kom einnig fram að VGK hefur gert samræmt stígakort fyrir höfuðborgarsvæðið og að til standi að gera slíkt á Akureyri. LHM hvetur Akureyrarbæ til að fara EKKI sömu leið og farin var á höfuðborgarsvæðinu. Þar var byrjað á kortagerð af stórgölluðu gangstígakerfi og öll vinna lögð í að "endurbæta" kortið fremur en a bæta aðstöðu og umferðaöryggi hjólandi og gangandi vegfarenda. Óánægja er meðal hjólreiðamanna á höfuðborgarsvæðinu með þennan framkvæmdahátt og nokkuð ljóst að sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu verða nú þegar að taka með öðrum hætti og faglegar á þessum málum.
Ef hugmynd er að auka hjólreiðar á Akureyri og samtímis bæta umferðaröryggi verður að fara aðra leið en farin hefur verið á höfuborgarsvæðinu.
Ekki verður nánar farið út í mistök sem gerð hafa verið á höfuðborgarsvæðinu en ef óskað verður eftir nánari upplýsingum, verður þeim upplýsingum komið á framfæri.

Hjólreiðar eiga ekki samleið með gangandi vegfarendum, fremur en bílar með hestum.

Nánari upplýsingar er að finna í hjálögðu viðhengi. (sjá hér neðar)

Landssamtök hjólreiðamanna hafa áratuga reynslu af hjólreiðum til samgangna bæði hér heima og erlendis. Þar er einnig að finna þekkingu á öllu sem tengist hjólreiðum, samgöngum og umferðaröryggi.
Landssamtök hjólreiðamanna óska eftir frekara samstarfi vegna þessrar vinnu hjá Akureyrarbæ, því að samtökunum er umhugað um að sömu mistök verði ekki gerð á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu.
Landssamtökin óska eftir upplýsingum um stöðu mála í þessari vinnu og hverjar séu í raun hugmyndir Akureyrarbæjar um þessa framkvæmd.

Undirritaður er tilbúinn til að senda meira efni um umferðaröryggismál, hönnun og frágang hjólreiðabrauta, sé þess óskað.


Með bestu kveðjum,
f.h. Landssamtaka hjólreiðamanna

Magnús Bergsson

www.hjol.org

 

 


 

Vegna viðtals í útvarpsþættinum "Vítt og breitt" á Rás 1, fimmtudaginn 25. október sl. þar sem Pétur Halldórsson ræddi við Guðmund Hauk Sigurðsson frá Verkfræðistofunni VGK um stígagerð á Akureyri, vilja Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) koma eftirfarandi viðbótarupplýsingum á framfæri:


Hjólreiðar eiga ekki samleið með gangandi vegfarendum, fremur en bílar með hestum. Í Reykjavík hefur það sýnt sig að landslagsarkitektar geta hannað gangstéttir og útivistarstíga fyrir gangandi umferð, en það sama á ekki við um hjólreiðabrautir. Eins og kom fram í viðtali Péturs við Guðmund Hauk var það hjólreiðamannvirkjum í Óðinsvéum, Danmörku, til mikilla bóta þegar hönnuðir fóru sjálfir að hjóla. Hjólreiðabrautir verður að leggja samhliða lagningu akvega, í samræmi við almennt leiðarval og ferðavenjur. Hönnuðir þurfa að hafa víðtæka þekkingu á hjólreiðum til samgangna.

Þó að VGK sé án efa gott fyrirtæki á sínu sviði þá ætti Akureyrarbær einnig að athuga hvort ekki væri ráð að leita ráðgjafar erlendis, t. d. má benda á netfang hjá Bypad, http://www.bypad.org


Vert er að benda á að samkvæmt umferðalögum eiga hjólreiðamenn að hjóla á götunum. Þeir eru hins vegar gestir á gangstéttum. Gangstéttir hafa ekki sömu hönnunarforsendur og hjólreiðabrautir. Gangstéttir eru því í fæstum tilfellum hannaðar með hjólreiðar í huga og geta því oftar en ekki verið hættulegri en t.d. akbrautir. Til að auka öryggi hjólreiðafólks má hiklaust mæla með "hjólavísum í vegstæði" (Bike-and-chevron). Sjá:

http://www.sfmta.com/cms/uploadedfiles/dpt/bike/Bike_Plan/Shared Lane Marking Full Report-052404.pdf

og

http://www.bikewalk.net/sessions/58_Lane_markings/Birk/Shared_Lane_Markings_Presentation_9_07_04.pdf

Vegna mikilvægis þess að Akureyrarbær kynni sér mjög vel Bike and Shevron (B&C) útfærsluna verður að útskýra þessa lausn í stuttu máli og á íslensku:


Í fyrsta lagi á Bike and chevron (B&C) ekki að koma í stað hjólreiðabrauta. Hún á aðeins að auka öryggi hjólreiðamanna sem hjóla á götunum. Hjólreiðafólk á nefnilega að hjóla á götunum þó að það sé ekki öllum ljóst.

Menn eru farnir að nota B&C víða um heim ekki aðeins í San Francisco


Það hefur sýnt sig að þar sem B&C er notað finnst hjólreiðafólki það mun öruggara í umferðinni. Ökumenn víkja betur frá hjólreiðafólki.

B&C er mjög ódýr lausn ef menn ætla að bæta umferðaöryggi með skjótum, ódýrum og virkum hætti. Það þarf ekki að breyta skipulagi eða umferðalögum þar sem samgönguráðuneytið telur málefni hjólreiðafólks tilheyra sveitafélögunum.

Hvað sem öðru liður þá er öruggara að hjóla á flestum götum og vera þar sýnilegur ökumönnum en að hjóla eftir einhverjum hliðarstígum sem ökumönnum eru ekki alltaf sýnilegir. Slys á hjólreiðafólki á sér oftast nær stað þar sem stígur þverar akbraut.

B&C hentar mjög vel hjólreiðafólki sem vill nota reiðhjólið sem samgöngutæki. Akvegir eru þegar til staðar og ökumenn þekkja þær leiðir. Þannig er hægt að koma þeim skilaboðum á framfæri að þar má lika hjóla. B&C merkið eitt og sér minnir ökumenn stöðugt á að þarna má lika hjóla og alltaf að búast við að mæta hjólreiðamanni.  B&C er margfalt ódýrara en litað malbik. Það er lika mun ódýrara að endurnýja það reglulega.


Sé litið til íslenskra aðstæðna má segja eftirfarandi: Ef B&C er sett í götustæði snemma vors og því fylgir góð kynning í nokkra mánuði í fjölmiðlum ætti B&C að ná tilgangi sínum.

Þó að snjói yfir B&C einhverjar vikur á ári á það við um allar götumerkingar, lika litað malbik. Því er mikilvægt að kynna þetta snemma vors svo að B&C verði allt sumarið fyrir augum og eyrum ökumanna.

Á Íslandi hefur það verið opinber stafna að stía í sundur gangandi og hjólandi umferð frá akandi umferð. Það er röng stefna því að nú er svo komið að Íslenskir ökumenn taka lítið tillit til annarra vegfarenda en bíla. Á sama tíma og hjólandi umferð hefur verið þvinguð upp á gangstéttir hefur ekkert verið gert til að bæta aðstöðu hjólreiðafólks. Það er ekkert sem bendir til þess að það verði gert á næstu árum miðað við núverandi stefnu í samgöngumálum. Slysahætta á gangstéttum er umtalsverð. Því er mikilvægt að hjólreiðafólk fari aftur út á göturnar og verði þar sýnilegt. Þar er nú þegar fyrir býsna gott samgöngukerfi, rúmgott, án glerbrota, blindhorna eða annarra hindrana. Þar ríkja venjulegar umferðarreglur. Í þessari umræðu vill oft gleymast að reiðhjól er flokkað sem ökutæki í umferðarlögum. Ökumenn verða einfaldlega að taka tillit til þeirra sem eru á götunum. Ökumenn vélknúinna ökutækja eiga ekki einir að njóta bestu samgönguleiða sem völ er á og þegar er búið að kosta miklu til. Aðgreint hjólreiðabrautakerfi er nauðsynlegt samhliða umferðarþungum götum og þar sem nóg landrými er til staðar, en það verður ekki byggt upp á skömmum tíma eða með sama hraða og B&C.

Hvað svo sem virðist vera að gerast á Akureyri eða þótt litið sé til stöðu mála munu líða mörg ár áður en nothæfar hjólreiðabrautir geta orðið að veruleika. Það hefur lika sýnt sig að hjólreiðabrautir eru ekki gallalausar sbr. við Lönguhlíð í Reykjavík. Það ætti að vera kappsmál fyrir Akureyrarbæ að merkja sem flestar götur með B&C. Lagning aðgreindra hjólreiðabrauta og gangstíga koma svo væntanlega á næstu árum. Nánari upplýsingar um B&C má finna með því að slá inn "Bike and chevron" í leitarvélina www.Google.com


Landssamtök hjólreiðamanna gerðu athugasemd við síðustu samgönguáætlun þar sem Akureyri og nágrenni var til umfjöllunar.

http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2007/020307.htm


Mikilvægt er að 3ja metra breiðar gangstéttir séu ekki merktar með óbrotinni linu til að aðgreina gangandi og hjólandi vegfarendur (1+2 stígur) eins og gert hefur verið víða á höfuðborgarsvæðinu. Sjá nánar um það í athugasemd LHM við umferðaröryggisáætlun, http://www.islandia.is/lhm/BrefLHM/2004/athumferd.htm Ýmsar fleiri upplýsingar má finna á vefsíðu Landssamtaka hjólreiðamanna www.hjol.org . Einnig má hafa samband við Landssamtök hjólreiðamanna á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.