Umsögn vegna frumvarps um forgangsakreinar send til nefndasviðs Alþingis

Umsögn og fylgiskjal vegna frumvarps um forgangsakreinar Þskj. 27 — 27. mál. send til nefndasviðs Alþingis.


Reykjavík , 29. nóvember 2007

Alþingi

Samgöngunefnd

150 Reykjavík

Umsögn og breytingartillögur við frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr.

50/1987. Þskj. 27 - 27. mál. 135. löggjafarþing 2007-2008.

1. Við 1. grein verði bætt við reiðhjólum: ..."Akrein sem einungis er ætluð fyrir umferð strætisvagna, leigubifreiða og reiðhjóla."

2. Við 2. grein verði bætt við reiðhjólum: ..."Almenn umferð ökutækja um forgangsakreinar strætisvagna, leigubifreiða og reiðhjóla er óheimil."

Landsamtök hjólreiðamanna fagna tilkomu forgangsakreina á Íslandi ef þeim er ætlað að veita vistvænni valkostum í samgöngumálum forgang. Landssamtök hjólreiðamanna mælast eindregið til þess og færi rök fyrir því að reiðhjólum verði bætt inn í frumvarpið á listann yfir þau ökutæki sem er veittur forgangur í umferðinni á forgangsakreinunum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir: "Frumvarp þetta er liður í því að efla almenningssamgöngur. Ljóst er að á næstu árum þarf átak í eflingu almenningssamgangna".

Það er jafn ljóst að nauðsynlegt er að það "verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja" eins og segir í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og eins kemur víða fram í áætlunum borgarinnar vilji til þess að stuðla að aukinni notkun reiðhjóla. Forgangsakreinar eru löngu tímabærar í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og henta sérlega vel til að auka öryggi, hraða og gæði fyrir hjólandi umferð. Víða í nágrannalöndum eru hjólreiðar leyfðar á forgangsakreinum strætó, t.d í Noregi, Bretlandi og Frakklandi, og virðist reynslan vera góð.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki annað séð en að það vinni beint gegn yfirlýstum markmiðum ríkisstjórnarinnar og sveitafélaga um að vinna skipulega að aukinni notkun reiðhjóla til samgangna með því að gera þær bæði erfiðari og hættulegri.

Það væri andstrætt stefnu ríkistjórnarinnar og bæjaryfirvalda að banna fólki sem notar reiðhjól sem samgöngutæki að nota forgangsakreinar. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar segir: "Ríkisstjórnin einsetur sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum... Einnig verði skipulega unnið að aukinni notkun vistvænna ökutækja." Ekkert ökutæki er nálægt því jafn vistvænt og reiðhjólið, svo ekki sé minnst á aðra kosti þess. Landssamtök hjólreiðamanna eru í forsvari fyrir félagasamtök með hundruði virkara félaga sem nota reiðhjólið reglulega til samgangna og okkur þykir brýnt að reiðhjól fái að nota þessar forgangsakreinar til jafns við strætisvagna og leigubíla.

Reiðhjól eru ökutæki og þau á að nota á akbrautum, þó nota megi þau á stígum og gangstéttum þar sem það hentar, "valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum" eins og segir í umferðarlögum. Reynslan sýnir að götur borga eru ekki aðeins greiðasta leiðin heldur líka sú öruggasta fyrir vant hjólreiðafólk eins og fram kom á Samgönguviku 2007. Stígar þar sem blandað er saman umferð gangandi og hjólandi eru seinfarnari og margfalt hættulegri en þó nauðsynlegur valkostur fyrir óreyndara hjólafólk1.

Það væri samræmi við 39. grein umferðarlaga að leyfa reiðhjólum notkun forgangsakreina en þar segir: "Hjólreiðamaður skal hjóla hægra megin á akrein þeirri, sem lengst er til hægri".

Það myndi draga stórlega úr öryggi hjólreiðafólks að þurfa að vera á annarri akrein með bíla sem fara fram úr þeim beggja vegna og fæla almenning frá notkun reiðhjóla til samgangna..

Í könnun Hönnunar fyrir skipulagsyfirvöld í Reykjavík 2006 kom í ljós að meðalhraði strætisvagna er 22 km/klst, sem er svipað og vanur hjólreiðamaður fer á, svo þessi umferð fer vel saman. Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar er gert ráð fyrir vönduðu stígakerfi meðfram öllum umferðaræðum svo umferð hjólandi ætti ekki að lenda í þeirri hröðu umferð sem þar er sumstaðar að finna.

Ein af framkvæmdaáætlunum Staðardagskrár 21 fyrir Reykjavíkurborg er sérstakt átak til þess að stuðla að aukinni notkun reiðhjóla. Í starfsáætlun Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar stendur að það eigi að: "Tryggja skilvirkar og öruggar samgöngur í borginni. Greiðar götur fyrir alla (bílar, hjól, fatlaðir, gangandi)." Í grænum skrefum Reykjavíkurborgar er eitt skrefið: "Göngum lengra, hjólum meira" , og víðar má grípa niður.

1 Meðfylgjandi er fyrirlestur sem John Franklin flutti á Samgönguviku 2007 í Ráðhúsinu í Reykjavík. Hann er leiðandi í þeim umbótum og átaki sem er í gangi í Englandi og víðar núna í því að auka notkun reiðhjóla sem samgöngutækis þar og fjallar um raunhæfar leiðir til að ná fram bæði aukinni notkun reiðhjóla til samgangna og auknu öryggi hjólafólks og eitt sem hann telur til eru einmitt forgangsakreinar fyrir reiðhjól og strætisvagna.

Fyrir hönd Landsamtaka hjólreiðamanna,

______________________________________

Morten Lange, formaður

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.