Umsögn um: Suðurlandsvegur - USK23060119 (PDF)
https://skipulagsgatt.is/issues/2025/892
Landssamtök hjólreiðamanna (LHM) hafa skoðað tillögu að deiliskipulagi fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar frá Bæjarhálsi að sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ nálægt Hólmsá. Um er að ræða nýtt deiliskipulag fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar. Megintilgangur tvöföldunar Suðurlandsvegar er að auka umferðaröryggi allra fararmáta og tryggja greiðari umferð um Suðurlandsveg með því að aðskilja akstursstefnur. Tvöföldun vegarins á þessum vegkafla er hluti af stærra verkefni sem er breikkun Suðurlandsvegar frá Hádegismóum í Reykjavík að Hveragerði. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir 2+2 stofnvegi frá Bæjarhálsi að sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ nálægt Hólmsá. Vegtengingum er fækkað frá því sem nú er og gert ráð fyrir heildstæðu stígakerfi fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur. Útfærsla í deiliskipulagi miðar við gatnamót í plani, í samræmi við fyrsta og annan áfanga framkvæmdarinnar.
Sjónarmið LHM.
Megin sjónarmið LHM er að gert verði ráð fyrir öruggum, beinum og greiðum leiðum fyrir hjólandi á deiliskipulagssvæðinu meðfram Suðurlandsvegi frá Bæjarhálsi að sveitarfélagamörkum við Mosfellsbæ og að þessar leiðir verði tengdar meðfram Breiðholtsbraut og í Árbæ/Selás í vestri og meðfram Hafravatnsvegi og Suðurlandsvegi í austri.
Með deiliskipulaginu er stefnt að aðskilnaði göngu-, hjóla- og reiðstíga. Á deiliskipulagsuppdrætti er sýndur aðskilnaður göngu og hjólastíga frá Bæjarhálsi að stígamótum vestan við Rauðavatnsskóg. Í greinargerðinni sem fylgir eru litir á uppdrætti það líkir að ekki sést hvar aðskilnaður er milli göngu- og hjólastíga, og ætti að laga það. Í greinargerðinni kemur fram að heimilt er að aðskilja hjóla- og gönguleiðir á fleiri stöðum en sýnt er á skipulagsuppdrætti. Sameiginleg göngu og hjólaleið er sýnd norðan við
Suðurlandsveg að bæjarmörkum við Mosfellsbæ og gert er ráð fyrir sameiginlegum göngu- og hjólastíg í nýjum undirgöngum undir Suðurlandsveg við Almannadal í átt að Rauðhólum.
Þá er einnig gert ráð fyrir sameiginlegum göngu- og hjólaleiðum sunnan Suðurlandsvegar frá Breiðholtsbraut að undirgöngum við Norðlingavað.
Að mati LHM ætti að gera ráð fyrir malbikuðum aðskildum göngu- og hjólastígum norðan Suðurlandsvegar alla leið að Hafravatnsvegi í deiliskipulaginu með vísan til þess að gert er ráð fyrir uppbyggingu athafnasvæðis á Hólmsheiði í framtíðinni og sömuleiðis er leiðin að Hafravatnsvegi mikilvæg fyrir götuhjólreiðar sem nýta Hafravatnsveg sem leið að
Nesjavallavegi. Þetta er sýnt á mynd að neðan leiðin frá 1 til B. Gera ætti ráð fyrir að göngu- og hjólastígar sunnan Suðurlandsvegar frá Breiðholtsbraut að undirgöngum við Norðlingavað verði einnig aðskildir. Leiðin frá 2 til C á mynd að neðan.
Að mati LHM ætti að gera ráð fyrir að göngu- og hjólaleiðir verði lagðir áfram austur úr norðan við Suðurlandsveg frá Hafravatnsvegi en þar er reyndar komið inn í sveitarfélagið Mosfellsbæ. Einnig ætti að gera ráð fyrir göngu og hjólaleið sunnan við Suðurlandsveg austur úr eins og unnt er. Ýmist gæti sú leið verið lögð með tengiveg sunnan
Suðurlandsvegar, ef tengivegur verður lagður þar, eða frá stíg norðan við Suðurlandsveg um fyrirhuguð undirgöng austan við Gunnarshólma í Biskupsbrekku og þaðan sunnan
Suðurlandsvegar austur úr um gamla Suðurlandsveginn að Bláfjallaafleggjara. Undirgöng við Biskupsbrekku þarf að byggja aðskilin fyrir ríðandi og gangandi og hjólandi. Göngu og hjólaleið í útmörkinni austan við Hafravatnsveg gæti verið lögð til að byrja með sem sérstakur malarstígur með brotinni þjappaðri möl sem hentar fyrir reiðhjól. Bann ætti að vera við ríðandi og vélknúinni umferð á slíkum stíg þar sem bæði hestar og mótorhjól eyðileggja malarstiga fyrir reiðhjól.
Hönnun fyrir hjólreiðar
Stígar fyrir hjólandi eiga að vera beinir, greiðir og öruggir og hafa hagstæða hæðarlegu ef það er unnt. Sérstaklega er mikilvægt að tryggja öruggar og greiðar þveranir yfir götur og stofnbrautir.
Við hönnun hjólastíga og stofnstíga sem ætlaðar eru sem hluti af hjólasamgöngum þarf að fara eftir „HÖNNUNARLEIÐBEININGAR FYRIR HJÓLREIÐAR, Leiðbeiningar sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins og Vegagerðarinnar“ (19.12.2019 eða nýrri útgáfu). Samtökin óska eftir að fá tækifæri á seinni stigum til að rýna og senda inn athugasemdir ef við á, t.d. við deiliskipulag og verkhönnun.
Gróður og skjólmyndun
Leggja þarf áherslu á gróður til skjólmyndunar. Við stíga ætti að gera ráð fyrir gróðri og trjám sem draga úr vindi og skapa skjól án þess að hindra stígsýn við gatna- og stígamót. Trjá og runnagróður á betur heima á helgunarsvæðum stofnbrauta en grasflatir í þessu skyni.
Tenging stíga
Greiðar og öruggar tengingar ættu að vera frá stígum við aðra stíga á leiðinni.
Merking leiða
Gera þarf ráð fyrir merkingu göngu- og hjólastíga með leiðarmerkjum og gerum við ráð fyrir að gerð verði grein fyrir þeim í verkhönnun.
Virðingarfyllst
f.h. stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna
Árni Davíðsson stjórnarmaður
Um Landssamtök hjólreiðamanna
Landssamtök hjólreiðamanna ( LHM) eru hagsmunasamtök sem hafa að markmiði m.a. að efla hjólreiðar á Íslandi sem heilsusamlegan lífsmáta og sem samgöngumáta. Öll helstu hjólreiðafélög landsins eiga aðild að LHM. Samtökin eru þó ekki aðeins málsvari félagsmanna hinna ýmsu hjólreiðafélaga sem telja yfir 2000 manns heldur eru þau jafnframt málsvari allra sem hjóla á Íslandi. LHM er aðildarfélag að European Cyclists' Federation, sem eru heildarsamtök fyrir hjólreiðafélög til samgangna og ferðalaga í Evrópu. Aðildarfélög ECF er að finna í flest öllum löndum Evrópu. LHM hlaut samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2012 fyrir virka þátttöku og áhrif í að efla hjólreiðar á Íslandi.