Nagladekk á reiðhjól í hálkunni

mbl-101002Margur hjólreiðakappinn rann til í óvæntri hálkunni sem kom um daginn. Það getur verið verulega varasamt að hjóla í hálku og dæmi um að fólk beinbrotni illa við að detta á mikilli ferð á hjólum sínum. Raunin er líka sú að það er oftast miklu meiri hálka á hjólreiðastígum og gangbrautum heldur en á götunum þar sem bílarnir aka, einfaldlega vegna þess að þar er ekki borið salt í hálku. En það er engin ástæða til að leggja hjólinu og hætta að hjóla yfir vetrarmánuðina, því rétt eins og með bílana þá er hægt að kaupa nagladekk undir reiðhjólin. Þau fást í reiðhjólaverslunum. Örninn, GÁP, Markið og Everest selja nagladekk og þau er hægt að fá ýmist lítið negld eða mikið negld. Þau sem eru negld einvörðungu í köntunum kosta 6-7.000 krónur en þau sem eru mikið negld kosta um 10.000 kr stykkið. Sumir láta jafnvel duga að kaupa aðeins nagladekk að framan, en öruggast er auðvitað að hafa bæði dekkin negld.

Frétt í Morgunblaðinu 2. nóvember 2010