Um helmingur starfsmanna ÁTVR hefur skrifað undir samgöngusamninga sem skila sér margfalt tilbaka, ekki bara í bættu heilsufari og betri líðan starfsmanna, heldur fylgir þeim líka fjárhagslegur ávinningur fyrir alla. Starfsmenn fá 7000 kr. skattfrjálst mánaðarlega og heilsu þeirra hefur farið svo fram að fækkun veikindadaga jafngildir sex starfsmannagildum fyrir fyrirtækið.
Aðalfundur LHM verður haldinn fimmtudaginn 20. febrúar næstkomandi kl. 20:00 í klúbbhúsi Fjallahjólaklúbbsins að Brekkustíg 2 í Reykjavík.
Kjörgengi og atkvæðarétt hafa allir félagsmenn þeirra félaga sem aðild eiga að LHM auk einstaklinga með einstaklingsaðild. Íslenski fjallahjólaklúbburinn, Hjólreiðafélag Reykjavíkur, Hjólamenn og Hjólafærni á Íslandi eru nú aðildarfélög að LHM.
Með nýjum stíg meðfram Reykjanesbraut úr Mjódd í Reykjavík í Lindir í Kópavogi er norður-suður ásinn fyrir hjólandi í austurhluta höfuðborgarsvæðisins að verða til. Þessi norður-suður ás um austurhlutann var í tillögum LHM að leiðum fyrir hjólandi á höfuðborgarsvæðinu og nær meðfram Reykjanesbraut frá Mjódd í Reykjavík að Völlunum í Hafnarfirði. Enn eru nokkrir hlutar af þeirri leið þó ekki nægjanleg vel tengdir. Það á við um Kaplakrikasvæðið í Hafnarfirði og þann sem hér verður fjallað um frá Lindum í Kópavogi að Bæjargili í Garðabæ.
Núna í haust var hellulögninn á stígnum meðfram Miklubraut á Klambratúni endurnýjuð og lögð að nýju með 40 cm hellum. Gamla hellulögnin var alveg ófullnægjandi sem yfirborð á göngu- og hjólastíg og hafði gliðnað svo á milli hella að dekk á hjólum og barnavögnum gat hæglega fest á mili hellnanna. Gárungarnir sögðu að gamla hellulögnin væri frá landnámi og væri leitun að ósléttari stíg í Reykjavík.
Búið er að tengja saman efsta hluta Seljahverfis í Breiðholti og efsta hluta Salahverfis í Kópavogi með stuttum stígtengingum úr Holtaseli, Jaðarseli, Látraseli og Lækjarseli. Þarna hefur lengi verið um vegleysu að fara a milli hverfanna þótt örstutt sé á milli og góður og breiður stígur á sveitarfélagamörkum allt frá Reykjanesbraut að Kórahverfi í Kópavogi.
Nýr stígur hefur verið lagður í Garðahrauni í Garðabæ vestan Reykjanesbrautar frá Vífilstaðavegi að bæjarmörkum við Hafnarfjörð hjá Kaplakrika. LHM gerði þessa umsögn um framkvæmdina. Stígurinn tengir stígana við Vífilstaðaveg saman við stíg í Hafnarfirði sem kemur úr Setbergshverfinu og endar vestan Reykjanebrautar við Kaplakrika svæðið. Miðja vegu tengist hann stíg sem kemur frá Bakkaflöt í Garðabæ og liggur yfir Reykjanesbrautina og að verslanasvæðinu við Kauptún í Garðabæ þar sem IKEA er.
Nýr stígur sem tengir saman Mjóddina í Reykjavík og Lindir í Kópavogi var tekin í notkun núna í haust 2013. Stígurinn er vel heppnaður og mikil samgöngubót fyrir hjólandi og gangandi á þessari leið. Miðja vegu tengist hann stíg sunnan að sem er á bæjarmörkum á milli Linda- og Salahvarfis í Kópavogi og Breiðholts í Reykjavík, sem heldur síðan áfram niður í Kópavogsdal í undirgöngum undir Reykjanesbraut og Dalveg.
Stjórn Landssamtaka hjólreiðamanna þakkar allt það frábæra starf sem unnið hefur verið í þágu hjólreiða og heilbrigðra samgangna á árinu sem er að liða.
Hlökkum til að takast á við ný verkefni með ykkur á næsta ári.
Fyrir hönd stjórnar LHM
Árni Davíðsson
formaður
Síðasta laugardagsferðin frá Hlemmi fyrir jól var farinn laugardaginn 30. nóvember. Ferðirnar hafa gengið vel í haust sem endranær og aðsóknin verið ágæt. Fjöldi í ferð hefur verið frá tvemur upp í 15 og eru það þægilegir hópar. Elsti þáttakandinn var rúmlega sjötugur og sá yngsti 9 ára. Vegalengdir og leiðir hafa verið miðaðar við getu þátttakenda. Lengst var farið rúmlega 30 km hringur til Hafnarfjarðar en styst um 10 km.
Reykjavíkurborg setti upp fastan hjólateljara í júní á þessu ári við stíginn meðfram Suðurlandsbraut rétt við gatnamótin við Kringlumýrarbraut. Hann telur þá sem hjóla framhjá og sýnir hversu margir hafa hjólað hjá yfir daginn og yfir árið.
Page 5 of 12