Landssamtök hjólreiðamanna fagna fyrirhuguðum breytingum á Suðurgötu og auknu vægi sem hjólreiðum er gefið sem ferðamáta með lagningu hjólareinar um götuna. Svona lausnir eru meðal stefnumála Landssamtakanna en um þau má lesa á vef LHM lhm.is/stefnumal.
Vel staðsettar hjólareinar eins og þarna í Suðurgötu geta hentað víða og hvetja almenning til aukinna hjólreiða.
Einnig lýsa samtökin yfir ánægju með tilraunaverkefnið með hjólarein upp Hverfisgötuna og hjólavísa niðureftir og bendum á þörfina fyrir hjólarein framhjá Hlemmi í framhaldinu.
Á hjolandi.is eru komnar myndir frá Íslandsmeistaramótinu í fjallabruni 28. ágúst í Hlíðarfjalli Akureyri. En á síðu Skálafell Bike Park eru fréttir af bakslagi með lyftuna í Skálafelli:
Því miður höfum við orðið fyrir svolitlu bakslagi með lyftuna í Skálafelli. Eins og staðan er í dag hafa skíðasvæðin tekið þá ákvörðun að keyra stólalyftuna ekki lengur fyrir reiðhjól.
Ástæðan er sú að hraðastilli vantar á lyftubúnaðinn. Til þess að hægt er að hengja hjólin á stólana hefur þurft að stoppa búnaðinn í hvert skipti. Það hefur verið metið þannig að þessháttar keyrsla muni skemma mótorinn.
Hjóla Hrönn hjólaði um bæinn með bert bak á Menningarnótt ásamt nokkrum tugum annara. Hún skar sig úr í flottu öryggisvesti sem hún saumaði sjálf. Hún er líka með skemmtilegt blog þar sem hún birtir myndir sínar og myndbönd.
World Naked Bike Ride hreyfingin stendur fyrir fáklæddum hjólalestum víða um heiminn og þangað má rekja innblásturinn að þessum viðburð þó eitthvað sé nektin minni. Sumir klæddu sig í anda Cycle Chic og komu klæddir flottum fötum, litasamhæfð með hönskum og öllu. Ein hafði sérsaumað grænt öryggisvesti með endurskyni.
Fjallahjólaklúbburinn aðstoðar við marþonið. Hjólað á undan til að hlaupamenn rati rétta leið og tryggt sé að leiðin sé greið. Hjólað á eftir síðasta mann til að passa að allir skila sér ofl.
Fimmtudagskvöld þann 19. ágúst mun Hans Heiðar Tryggvason arkítekt, verkefnisstjóri hjá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, kynna tímabundinn hjólreiðastíg á Hverfisgötu sem tekinn verður í notkun föstudaginn 20. ágúst. Umhverfis- og samgönguráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að hleypa þessu tilraunaverkefni af stað til að efla mannlíf í miðborginni og hvetja til aukinna hjólreiða. „Markmið tilraunarinnar er að vekja athygli á Hverfisgötu, möguleikum hennar og sérstöðu og gera hjólreiðar að fullgildum samgöngumáta á þessari leið“ segir Hans. 35 gjaldskyld bílastæði á Hverfisgötu verða helguð hjólreiðum í þessari tilraun. Tilraunin stendur frá föstudeginum 20. ágúst og út septembermánuð.
Um helgina opnaði í Skálafelli fyrsti hjólreiðavangur á Íslandi. Um er að ræða 3 km langa fjallahjólabraut, Dirt-Jump braut og BMX stökkpallur. Diljá Ámundadóttir frá ÍTR hélt opnunarræðu. Það má skoða myndir á Facebook síðu hjólreiðavangsins og einnig er frétt og myndir á vef Fjallahjólaklúbbsins.
Á sunnudaginn 8. ágúst verður opnað í Skálafelli fyrsta Bike-Park á Íslandi fyrir fjallahjólreiðar.
Lögð verður alls 3 km löng braut með um 350 m fallhæð. Hægt verður að nota stólalyftuna til að komast upp á fjallstopp og hjóla niður. Á neðri hluta svæðisins verða Dirt-Jump og BMX stökkpallar.
Formleg opnun verður þann 8. ágúst með keppni í BMX og Fjallabruni en nánari dagskrá verður auglýst síðar. Til stendur að hafa svæðið opið um helgar fram á haust á meðan veður leyfir.
Hún Sirrý sem hefur jákvæðnina að leiðarljósi í þáttum sínum á sunnudagsmorgnum fékk Dr. BÆK í heimasókn til sín í þáttinn 25. júlí 2010. Þar komu og sátu fyrir svörum í símatíma Sesselja Traustadóttir, verkefnastýra Hjólafærni á Íslandi og Fjölnir Björgvinsson, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins .
Heimsókn frá Dr. BÆK er hægt að panta hjá Sesselju á vefnum hjólafærni.is. Myndin birtist í Morgunblaðinu þegar dr. BÆK mætti við Norræna húsið í tilefni af degi umhverfisins en á henni er Árni Davíðsson formaður LHM með Sesselju.
Page 9 of 12