Fimmtudagskvöld þann 19. ágúst mun Hans Heiðar Tryggvason arkítekt, verkefnisstjóri hjá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, kynna tímabundinn hjólreiðastíg á Hverfisgötu sem tekinn verður í notkun föstudaginn 20. ágúst. Umhverfis- og samgönguráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að hleypa þessu tilraunaverkefni af stað til að efla mannlíf í miðborginni og hvetja til aukinna hjólreiða. „Markmið tilraunarinnar er að vekja athygli á Hverfisgötu, möguleikum hennar og sérstöðu og gera hjólreiðar að fullgildum samgöngumáta á þessari leið“ segir Hans. 35 gjaldskyld bílastæði á Hverfisgötu verða helguð hjólreiðum í þessari tilraun. Tilraunin stendur frá föstudeginum 20. ágúst og út septembermánuð.