Opnun hjólreiðavangs – Bike Park í Skálafelli

Á sunnudaginn 8. ágúst verður opnað í Skálafelli fyrsta Bike-Park á Íslandi fyrir fjallahjólreiðar.
Lögð verður alls 3 km löng braut með um 350 m fallhæð. Hægt verður að nota stólalyftuna til að komast upp á fjallstopp og hjóla niður. Á neðri hluta svæðisins verða Dirt-Jump og BMX stökkpallar.

Formleg opnun verður þann 8. ágúst með keppni í BMX og Fjallabruni en nánari dagskrá verður auglýst síðar. Til stendur að hafa svæðið opið um helgar fram á haust á meðan veður leyfir.


Frá því í vor hafa nokkrir athafna- og áhugamenn um fjallahjólreiðar í nánu samstarfi við ÍTR og Reykjavíkurborg unnið að uppbyggingu hjólreiðavangs Bike Park á skíðasvæðinu í Skálafelli að erlendri fyrirmynd.

Hugmyndin, sem legið hefur fyrir í þó nokkurn tíma, fékk byr undir báða vængi undir lok síðasta veturs sökum snjóleysis á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins. Leitað var leiða til að nýta betur tækjakost skíðasvæðanna á sjálfbæran hátt og horft til erlendra skíðasvæða um hugmyndir. Þar hafa menn í nokkur ár nýtt skíðalyfturnar á sumartímann til að ferja hjólreiðamenn upp brekkurnar og þeir svo rennt sér niður hlíðarnar eftir þartilgerðum hjólabrautum.

Eftir skamman en röggsaman undirbúning eru hafnar framkvæmdir að fyrstu hjólabrunbrautinni í Skálafelli.

Í því skyni verður stólalyftan, sem er sú lengsta á landinu alls 1200 m, notuð til að ferja hjólreiðamenn upp í 350 m hæð. Áhersla er á að fyrsta brautin sem lögð verður henti sem flestum fjallahjólreiðamönnum en einnig verður reynt að gera lengra komnum til hæfis með grófari leiðum og stökkpöllum.

Til viðbótar stendur til að kortleggja og lagfæra ýmsa slóða sem liggja í átt frá svæðinu, en frá Skálafelli má hæglega hjóla niður í Kollafjörð eftir Esjurótum, yfir í Heiðmörk eftir gamla Kóngsvegi, í Kjós yfir Svínaskarð, á Þingvelli og alla leið yfir á Nesjavelli svo eitthvað sé nefnt.

Einnig verður lyftan opin göngufólki og þeim sem vilja komast uppá topp Skálafellsins til að njóta besta útsýnis sem höfuðborgarsvæðið býður uppá.

Meðfylgjandi mynd er frá fyrstu skóflustungu sem var tekin þann 21. júlí 2010 á Skálafelli. Á myndinni eru Ormur Arnarson, Magne Kvam og David Robertson.

 

skalafell-skoflustunga-w

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl