Brautirnar, sem eru ætlaðar hvers kyns reiðhjólum, hafa báðar verið rakaðar og grjóthreinsaðar og aðstæður því eins og best verður á kosið. En hvernig kemst fólk upp með hjólin sín? „Við höfum smíðað króka á sætin sem við hengjum þau á. Við hægjum svo á lyftunni þegar upp er komið og fólk kippir hjólunum einfaldlega af með einu handtaki.“ Einar segir um að ræða ómælda skemmtun og að fólk fari aftur og aftur. „Ég er nú alinn upp á mótorkrosshjólum og hef hingað til kosið vélknúin farartæki. Ég hefði því ekki trúað því hvað þetta er skemmtilegt.“ Hann segir möguleikana á svæðinu óþrjótandi og að aðstaðan nýtist göngufólki ekki síður. „Það er hægt að nýta sér lyftuna og ganga frá lyftutoppi upp á topp Skálafells og þaðan er um ótal leiðir að velja. Kjósin, Esjan, Móskarðshnúkar og Laufskörð svo eitthvað sé nefnt. Svo er alltaf hægt að taka lyftuna niður aftur. Til viðbótar stendur til að kortleggja og lagfæra ýmsa slóða sem liggja frá Skálafelli sem væri þá hægt að hjóla.“