Heilsufar stórbatnar

Um helmingur starfsmanna ÁTVR hefur skrifað undir samgöngusamninga sem skila sér margfalt tilbaka, ekki bara í bættu heilsufari og betri líðan starfsmanna, heldur fylgir þeim líka fjárhagslegur ávinningur fyrir alla. Starfsmenn fá 7000 kr. skattfrjálst mánaðarlega og heilsu þeirra hefur farið svo fram að fækkun veikindadaga jafngildir sex starfsmannagildum fyrir fyrirtækið.

Einnig hefur dregið úr reykingum og offitu starfsfólks, kólesteról hefur lækkað og starfsmönnum með of háan blóðþrýsting hefur fækkað um rúmlega 60 prósent. Þetta og fleira kom fram í frétt RÚV um áhrif samgöngusamninga.

Við hjá Landssamtökum hjólreiðamanna höfum tekið saman nánari upplýsingar um slíka samgöngusamninga og erum jafnframt með uppkast að slíkum til að auðvelda fólki vinnuna ef það vill innleiða slíka samninga á sínum vinnustað.

Samantekt um samgöngusamninga:
http://lhm.is/lhm/skjol/879-samgongusamningar


Samgöngustyrkir leiða til sparnaðar

Samgöngustyrkir fyrirtækja og stofnana hafa í för með sér verulega fækkun veikindadaga og leiða til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu. Um helmingur starfsmanna ÁTVR hefur skrifað undir samgöngusamning.

Æ fleiri fyrirtæki og stofnanir bjóða starfsmönnum sínum samgöngusamninga. ÁTVR hefur boðið starfsmönnum sínum slíkan samning síðan 2011 og hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt.

„Og núna er tæplega helmingur af föstu starfsfólki með samning“, segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.

Starfsfólk fær 7.000 krónur á mánuði fyrir slíkan samning og er þessi upphæð ekki skattlögð sem hlunnindi. Samningurinn virkar þannig að starfsfólk skrifar undir samning og skuldbindur sig til að koma í vinnu með vistvænum hætti að minnsta kosti þrjá daga í viku. Þetta þýðir að starfsmenn koma hjólandi, gangandi eða með strætó til vinnu.

Mælingar sýna að dregið hefur úr reykingum og offitu starfsfólks, kólesteról hefur lækkað og starfsmönnum með of háan blóðþrýsting hefur fækkað um rúmlega 60 prósent.

Sigrún segir að auðveldlega megi leiða líkur að því að þetta geti leitt til sparnaðar í heilbrigðiskerfinu: „Ja, við gerum náttúrlega ráð fyrir því að ef fólk er með of háan blóðþrýsting til lengri tíma þá geti það auðvitað leitt til þess að fólk þurfi á læknisþjónustu að halda á einhverjum tímapunkti og með því að koma í veg fyrir það, þá teljum við að það muni spara í heilbrigðiskerfinu".

Þá segir Sigrún að dregið hafi verulega úr veikindaforföllum starfsmanna. Fyrir fjórum árum voru fjarvistir vegna veikinda um fjögur prósent, en í fyrra mældust þau rúmlega tvö prósent.

Sigrún segir að þetta séu um sex starfsmannagildi og því sé deginum ljósara að samgöngustyrkirnir skili sér margfalt tilbaka, ekki bara í bættu heilsufari og betri líðan starfsmanna, heldur felist líka í þeim fjárhagslegur ávinningur fyrir alla: „Ef við sjáum færri veikindadaga og jafnvel meiri starfsánægju, þá er það í bónus, þó að við borgum vissulega eitthvað fyrir samgöngustyrkina“.

 


Uppruni: http://www.ruv.is/frett/samgongustyrkir-leida-til-sparnadar
Ef allur fréttatíminn kemur upp má hoppa í þessa frétt á tímapunktinum: 16:20