Um 2+1 stígana segir hann línuna hafa lítil áhrif, hún sé heldur ekki í umferðarlögum. "Okkur þætti betra ef þetta væri bara einn stígur þar sem hægri umferð gildir. Við höfum haldið því fram lengi að þessi lína sé ruglandi og flestir vilja hana burtu. Menn vita ekki hvorum megin þeir eiga að vera og hún er ýmist máluð vinstra megin eða hægra megin. Við höfum heyrt það frá Reykjavíkurborg að þeir séu hættir að viðhalda þessum línum og ætli ekki að mála fleiri göngustíga með henni. Þannig að þetta 2+1 kerfi á að víkja en þeir hafa ekki viljað leggja út í þann kostnað að má línuna út, þannig hún verður mörg ár að hverfa," segir Árni.
Árni segir að LHM telji æskilegt að aðgreina umferð gangandi og hjólandi þar sem það er hægt.
"Það má segja að Reykjavíkurborg sé byrjuð á því á stígunum við Ægisíðu og inn eftir Fossvogsdal og að Elliðaánum en þeir eru ekki búnir að klára það. Á þessum stígum hefur verið máluð brotin miðlína sem má fara yfir og þá gilda umferðareglur. Þetta eru fínir stígar þar sem þeir hafa verið gerðir og við viljum sjá þá víðar. Borgin hefur sett sér hjólreiðaáætlun svo við búumst við því að það verði úr þessu bætt á næstu árum. Það sem þyrfti helst að bæta eru tengingar á milli sveitarfélaga og milli hverfa, t.d. í leiðunum ofan úr Breiðholti, Grafarholti, Árbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ," segir Árni og bætir við að það að ferðast á hjóli á höfuðborgarsvæðinu sé annars í flestum tilvikum þægilegt. "Það er einfaldast og hraðvirkast að hjóla á götunum því umferð er oftast lítil yfir meginhluta dagsins. Þeir sem treysta sér til þess ættu frekar að hjóla á götunum en gangstéttunum," segir Árni. Hann vill að lokum minnast á eitt í sambandi við hjólreiðar í snjó: "Gangandi fara oft eftir hjólastígnum í snjónum. Það verður þá óþægilegt að hjóla eftir stígnum sem verður föróttur eins og hrossaslóði. Gangandi eiga að ganga á göngustígunum."