Hjólarein á Hverfisgötu

Starfsmenn Reykjavíkurborgar vinna nú að uppsetningu tímabundinnar hjólareinar á Hverfisgötu sem tekinn verður í notkun föstudaginn 20. ágúst. Umhverfis- og samgönguráð samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að hleypa þessu tilraunaverkefni af stað til að efla mannlíf í miðborginni og hvetja til aukinna hjólreiða.

„Markmið tilraunarinnar er að vekja athygli á Hverfisgötu, möguleikum hennar og sérstöðu og gera hjólreiðar að fullgildum samgöngumáta á þessari leið,“ segir Hans Heiðar Tryggvason, verkefnisstjóri hjá Umhverfis- og samgöngusviði sem unnið hefur að verkefninu í sumar ásamt Örnu Ösp Guðbrandsdóttur. „Á næsta ári er fyrirhugað að bæta við 10 km af hjólaleiðum í borginni og mun tilraunin á Hverfisgötu veita okkur góð gögn fyrir þá vinnu“ segir Pálmi Freyr Randversson, sérfræðingur hjá Samgönguskrifstofu.

35 gjaldskyld bílastæði á Hverfisgötu verða helguð hjólreiðum í þessari tilraun og hefur verkefnið verið kynnt fyrir íbúum og þjónustuaðilum. Verslunareigendur eru almennt jákvæðir enda sýna erlendar rannsóknir að hjólandi og gangandi vegfarendur nýta sér betur verslun og þjónustu í miðborgum en aðrir vegfarendur. „Ég hef engar áhyggjur af því að það komi færri í búðina þótt það sé ekki laust stæði beint fyrir utan, það er nóg af bílastæðum hér í nágrenninu“ segir Ingvar Geirsson, eigandi plötubúðarinnar Lucky Records á Hverfisgötu. Má þar t.d. benda á bílastæðahúsin við Vitatorg og Traðarkot.

Tilraunin stendur frá föstudeginum 20. ágúst og út septembermánuð og er kostnaði haldið í lágmarki. Borgarbúar eru eindregið hvattir til að senda ábendingar um upplifun sína af verkefninu á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. hjá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkur.

Tenglar:

Mynd í góðri upplausnKort sem sýnir fyrsta áfanga hjólreiðaáætlunar borgarinnar

Frétt á vef Reykjavíkurborgar: http://www.rvk.is/DesktopDefault.aspx/tabid-259/1198_read-22567/