Hjólastígakerfið í borginni tífaldað næsta áratuginn

Hjólreiðaáætlun til ársins 2020 samþykkt í borgarstjórn

UM 90 kílómetrar af hjólastígum verða lagðir í Reykjavík næstu tíu árin til viðbótar við þá tíu kílómetra sem fyrir eru, samkvæmt nýrri hjólreiðaáætlun sem samþykkt hefur verið í borgarstjórn. Þá tekur áætlunin einnig til þess hvernig hægt er að stuðla að auknum hjólreiðum í borginni með fræðslu og kynningu.

Að sögn Pálma Freys Randverssonar, sérfræðings í samgöngumálum á umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar, gengur áætlunin út á að útbúa alvöruhjólastígakerfi í borginni en ýmsar útfærslur verða á því hvers konar stígar verða lagðir.

Horfa m.a. til Danmerkur

"Við höfum gert alls kyns tilraunir í stígagerð undanfarin ár, s.s. að leggja stígabúta meðfram umferð á Laugaveginum og í Lönguhlíðinni. Sums staðar höfum við sett upp svokallaða hjólavísa sem vekja athygli bílstjóra á því hvar líklegt er að hjólandi vegfarendur séu á ferðinni á götunum, og víða er pláss til að mála hjólreiðarönd meðfram umferðargötunum.

Við ætlum líka að vinna áfram með þá stíga sem fyrir eru og aðskilja þar umferð gangandi og hjólandi vegfarenda með því að leggja sérstaka stíga við hliðina á þeim sem fyrir eru.

Svo verður líka farið út í lausnir á borð við þær sem eru nýttar í Danmörku þar sem alvöruhjólastígar eru lagðir meðfram götunum. Það fer einfaldlega eftir aðstæðum hvaða leið verður valin hverju sinni."

Pálmi segir áætlunina, sem gildir til ársins 2020, kosta töluvert. "Það á að leggja tíu kílómetra á ári og peningunum verður þá forgangsraðað í það en kostnaðurinn verður svolítið breytilegur eftir því hvaða lausn verður notuð hvar."

Og tíminn til að ráðast í slíka áætlun er núna, segir Pálmi. "Við finnum fyrir mjög auknum áhuga og heyrum reglulega í hjólreiðasamtökum. Eins erum við með talningar sem sýna að hjólreiðafólki er greinilega að fjölga í borginni, enda hvetur allt til þess að fólk fari út að hjóla, s.s. hækkandi bensínverð og umhverfislegur sparnaður, fyrir utan hvað þetta er góð líkamsrækt."

mbl100426-borgartun

Hugmynd að því hvernig hjólastígar í Borgartúninu gætu litið út.

Í HNOTSKURN

  • Gert er ráð fyrir hraðbraut fyrir hjól milli Laugardals og miðborgar og brú yfir Elliðaárósa fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
  • Rætt er um brú yfir Breiðholtsbraut sem myndi tengja Norðlingaholt við Árbæ. 
  • Ef 10% ökuferða færðust yfir á hjól spöruðust 50 þúsund eknir km á götum borgarinnar dag hvern. 
  • Átakið Hjólað í vinnuna hefst 5. maí næstkomandi, í áttunda sinn.
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur. Morgunblaðið 26. apríl 2010. {jathumbnail off}