Bærinn óskar nú sérstaklega eftir ábendingum um þær leiðir sem lagðar hafa verið til sem hjólreiðastíga.
Athugasemdavefur um hjólastíga í Kópavogi: http://www.tryggvi.org/kophjol/
Athugasemdir LHM við tillögur að hjólaleiðum í Kópavogi eru hér í skjölum LHM.
Hjólreiðaáætlun Kópavogs
Með gerð hjólreiðaáætlunar stefnir Kópavogur að því að auka veg hjólreiða sem samgöngumáta í sveitarfélaginu þannig að hjólreiðar séu aðgengilegur, skilvirkur og öruggur ferðamáti í bænum. Mikilvægt er að Kópavogsbúar og þeir sem eiga erindi í Kópavog geti komist leiðar sinnar á hjóli á auðveldan og öruggan hátt.
Markmiðin með hjólreiðaáætluninni eru að: Að Kópavogsbúar geti nýtt hjólreiðar sem samgöngumáta vegna vinnu, skóla, frístunda og annarra athafna.
Öruggt og aðgengilegt verði að hjóla um Kópavog.
Fólki sem notar hjólreiðar sem samgöngumáta fjölgar sífellt á götum og göngustígum bæjarins og því er mikilvægt að skapa hjólreiðarfólki aðlaðandi, skjólgóðar og öruggar leiðir til hjólreiða. Samkvæmt könnun um ferðavenjur fólks á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2010 er viðhorfsbreyting hjá íbúum gagnavart samgöngum. Íbúar vilja nú frekar leggja áherslu á að bæta almenningssamgöngur og að minnka umferð einkabíla. Eftir efnahagshrunið hafa fleiri valið þann kost að ganga og hjóla á milli staða í stað þess að nota einkabílinn.
Gerð hjólreiðaáætlunar fyrir Kópavogsbæ er einn þáttur í þeirri stefnu bæjarstjórnar Kópavogs að auka vistvænar samgöngur i bænum. Auk hjólreiðaáætlunarinnar er stefnt að því að bílafloti bæjarins verði knúinn umhverfisvænum orkugjöfum og að unnið verði að endurskoðun á almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er gerð hjólreiðaáætlunar í samræmi við umhverfisstefnu bæjarins sem samþykkt var 28. júní 2011 í bæjarstjórn en eitt af markmiðum hennar er: „Stuðlað verði að vistvænum samgöngum, almenningssamgöngur efldar, svo og göngu- og hjólreiðarstígar í bænum.“
Kópavogsbær vill jafnframt beina því til stofnana og fyrirtækja í bænum að setja sér umhverfisstefnu. Í slíkri stefnu geta verið áætlanir um samnýtingu einkabíla, um niðurgreiðslur til starfsmanna á kortum í almenningssamgöngur eða stuðningur við hjólreiðar. Með samstilltu átaki er hægt að stuðla að heilnæmara umhverfi og heilbrigðari lífsstíl íbúa.