Hjólasamgöngur í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarbær kynnir annað kvöld skýrslu starfshóps um hjólreiðamál í bænum. Skýrslan er merkilega hreinskilin og segir hreint út:  „ekki er til neitt heildstætt hjólasamgöngukerfi í bænum“. Og framtíðarsýnin er skýr: „Að Hafnarfjörður verði hjólabær“.

Bæjarbúum er boðið til fundar um hjólreiðamál í Hafnarfirði miðvikudaginn 21.september kl. 19.30. Á fundinum verður skýrsla starfshóps um hjólreiðamál í bænum kynnt.

Allir þeir sem láta sig þessi mál varða eru hvattir til að koma á fundinn og hafa áhrif. Einnig er hægt að senda ábendingar í gegnum vefinn og á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Hér er hægt að skoða skýrsluna og hér kort - hjólastígar.

Fundurinn fer fram á Norðurhellu 2, hús Umverfis – og framkvæmdarsvið. Sjá frétt á hafnarfjordur.is

Fyrir neðan er úrdráttur út skýrslu starfshópsins um hjólreiðamál í Hafnarfjarðarbæ.


Inngangur

Frá miðbæ Hafnarfjarðar að jaðri bæjarins er hæfilega langt til að fara þar um á hjóli.  Reglulegar hjólreiðar minnka líkurnar á hjartasjúkdómum auk þess sem þær vinna vel gegn streitu, offitu og ýmsum tegundum krabbameina. Hjólreiðar auka einnig hreysti almennings og geta því sparað útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Á tímum hækkandi olíuverðs geta háar fjárhæðir sparast með því að efla hjólreiðar og spara þannig eldsneyti  og  fjármagn  til  viðhalds  mannvirkja.  Aukning  hlutdeildar  hjólreiða  í umferðinni er hagkvæmasta leiðin til þess að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Af þessu má sjá að kostir aukinnar notkunar hjóla í stað bíls eru ótvíræðir.

Hjólreiðar njóta nú vaxandi vinsælda. Samhliða vakningu íbúanna þurfa yfirvöld að bæta samgöngur fyrir hjólreiðafólk og tryggja að þær séu sem bestar og hagkvæmastar. Fjöldi Hafnfirðinga notar reiðhjólin bæði til heilsueflingar og sem samgöngutæki og því nauðsynlegt að í Hafnarfirði sé samræmt samgöngukerfi fyrirhendi.

3.1 Núverandi ástand hjólasamgangna

Það er ekki hægt að draga upp eða lýsa því hvernig ferðast skuli um á reihjóli frá einum stað til annars innan Hafnarfjaðrar því ekki er til neitt heildstætt hjólasamgöngukerfi í bænum. Það samgöngukerfi sem hjólreiðafólk notast við í dag er í flestum tilfellum hannað með gangandi vegfarendur eða bíla í huga. Á götunum hafa bílarnir forgang og á blönduðum hjóla- og göngustígum eru það gangandi vegfarendur. Því er nauðsynlegt að gera ýmsar úrbætur.

Sem dæmi má nefna ábendingar sem bárust ýmist á opnum fundi eða í innsendum tillögum bæjarbúa. Stígurinn sem liggur meðfram sjónum er illa upplýstur, of mjór og endar við Drafnarslipp. Þá eru ýmsir kaflar ómalbikaðir og mætti hefla eða þjappa þar sem ekki er hægt að malbika. Kantsteinar eru víða til trafala og merkingar lélegar. Búið er að setja allar ábendingar sem komu frá hjólreiðafólki í Hafnarfirði í verkefnaskrá sem finna má í sjötta kafla.

3.2 Hjólaleiðir í Hafnarfirði

Til að styrkja stöðu hjólreiða í Hafnarfirði þarf að móta heildstætt skipulag fyrir hjólið og tengja það nágrannasveitarfélögunum. Húsagötur, safngötur og jafnvel tengibrautir geta tilheyrt hjólaleiðum, því eins og félag fjallahjólaklúbbsins hefur bent á, þá eru umferðargötur oftast fljótlegasta, greiðasta og öruggasta leiðin fyrir hjólreiðamenn 1. Annars staðar þarf að setja stíga eða beina hjólaumferð á gangstéttir, sérstaklega meðfram stofnbrautum og tengibrautum þar sem umferðin er hröð. Besta lausnin felst að sjálfsögðu í sérstökum hjólabrautum, þótt sérmerktar hjólareinar geti hentað þar sem hámarkshraði er 50 km á klst. eða minna.

Með það að leiðarljósi að hjólaleiðir innan Hafnarfjarðar notist að einhverju leiti við húsagötur og safngötur er mikilvægt að

  • hjólaleiðir séu vel merktar
  • kort af hjólaleiðum séu aðgengileg
  • skilgreindar hjólaleiðir séu greiðar og hindrunarlausar fyrir hjólreiðamenn

Rýnihópurinn telur að fyrsta skrefið í að gera hjólaleiðir aðgengilegri felist í að skilgreina 2 höfðuðleiðir hjólreiða. Annars vegar eru það stofnleiðir sem eru að stærstum hluta leiðir sem fylgja stofnbrautum og eru fyrir þá sem vilja komast hratt á milli staða. Stofnleiðir og gönguleiðir í aðalskipulagi fylgjast að í megindráttum og eru amk. 3 m breiðir malbikaðir tvískiptir stígar sem eru sérstaklega merktir. Niðurtektir og góð lýsing skulu vera á stofnleiðum.

Hins vegar eru það aðalstígar/tengistígar sem tengja saman hverfin í bænum og fylgja tengibrautum að mestu leiti. Þessir stígar eru annað hvort merktir sem hluti af götunni eða eru á stígum bæjarins þar sem gangandi umferð er í bland við hjólandi.

Auk þess er mikilvægt að stofnleiðir bæjarins tengist leiðunum út úr bænum; annars vegar leiðunum inn í Garðabæ við Reykjavíkurveg og Reykjanesbraut milli Setbergshverfis og Kaplakrika; hins vegar á leiðinni suður með sjó en einnig út á Álftanes.

Út frá hjólastofnleið má auðveldlega komast inn í öll hverfi bæjarins en þegar hjólastofnleiðin hefur verið merkt, kortlögð og gerð hindrunarlaus fyrir hjólið mætti halda áfram að setja upp hjólaleiðir inn í hverfin með sama hætti.

Margar ábendinganna frá íbúum beindust að lélegum hjólasamgöngum út úr Hafnarfirði. Í dag er um að ræða fjórar tengingar; frá Fjarðarkaupsplaninu inn á
hitastokkinn í Garðabæ; við Hrafnistu yfir á Álftanesveg; meðfram IKEA; og út á hraunið milli Kaplakrika og Garðabæjar. Allar þessar leiðir þarf að lagfæra og merkja með vegvísum og setja á kort.

Rýnihópurinn átti fund með Þráni Haukssyni landslagsarkitekt varðandi tengingarnar milli sveitarfélaganna. Þráinn kynnti fyrir hópnum hjólaleiðir innan Garðarbæjar og kom með tillögur að mögulegum leiðum. Það er lykilatriði að samræma skipulag hjólastíga og hjólasamgangna milli sveitarfélaganna í jaðri höfuðborgarsvæðisins.

3.3 Hjólreiðamenning

Til að hvetja til aukins vægis reiðhjólsins í umferð bæjarins þarf að huga að ímyndarherferð fyrir hjólið. Það mætti t.d. koma á kennslu í hjólafærni í grunnskólum bæjarins. Einnig mætti halda árlegan hjóladag á vorin, þar sem skólabörn og starfsfólk bæjarins eru hvött til að mæta á hjóli.

Við það að bæta aðstöðu til hjólaiðkunar verður hjólið meira áberandi í bæjarfélaginu og eðlilegur hluti hafnfirsks samfélags. Svæði ætluð hjólreiðamönnum þurfa að vera áberandi og við opinberar byggingar og skóla þarf að merkja hjólastæði.

Að lokum er nauðsynlegt að halda hjólaleiðunum greiðum og tryggja að hjólaleiðir séu hreinsaðar af snjó og glerbrotum því hjólreiðafólk þarf að geta treyst á greiðfærar leiðir. Útbúa ætti heildstætt kort þar sem ýmsar upplýsingar sem snerta hjólreiðar koma fram, til dæmis hvaða leiðir eru greiðar yfir vetrartímann.

4 Framtíðarsýn

Að Hafnarfjörður verði hjólabær. Að í Hafnarfirði verði samræmt samgöngukerfi fyrir reiðhjól þannig að Hafnfirðingar geti auðveldlega notað reiðhjólin hvort sem er til heilsueflingar eða sem samgöngutæki.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl