Hönnun fyrir hjólaumferð.

Inngangur:

Hér líta dagsins ljós fyrstu leiðbeiningar Reykjavíkurborgar um hönnun fyrir hjólaumferð. Leiðbeiningarnar eru unnar í kjölfarið á metnaðarfullri hjólreiðaáætlun borgarinnar sem gefin var út í febrúar á þessu ári og kallast Hjólaborgin Reykjavík.

Markmið leiðbeininganna er að bæta og samræma gæði þeirra lausna sem hannaðar eru fyrir hjólreiðamenn í Reykjavík. Með bættum aðbúnaði fyrir þá má búast við auknum hjólreiðum sem aftur mun hafa jákvæð áhrif á umhverfi og lýðheilsu borgarbúa. Auk þess munu fleiri hjólreiðamenn stuðla að auknu öryggi þeirra sjálfra í umferðinni. Það hafa fleiri en ein rannsókn sýnt fram á. Er það kallað öryggi fjöldans eða safety in numbers.

Samkvæmt umferðarlögum er hjólreiðamönnum frjálst að hjóla á gangstéttum og göngustígum svo fremi sem þeir taka fullt tillit til og víkja fyrir þeim sem eru gangandi. Það ekki hægt að skilgreina slíka lausn, þ.e. að hjólreiðamenn nýti göngustíga, sem fullgilda fyrir hjólreiðamenn. Aftur á móti má, í einhverjum tilvikum, líta á slíkt sem ásættanlega lausn, einkum þar sem umferð gangandi og hjólandi er ekki mikil eða fer ekki samtímis fram. Meginreglan er samt að aðskilja umferð þeirra sem eru gangandi og hjólandi.

Þó er það svo að einhverjir kjósa heldur að hjóla eftir göngustígum með þeim takmörkunum sem því fylgir enda þótt hjólastígur eða hjólarein sé til staðar, t.d. börn á hjóli í fylgd með fullorðnum einstaklingi sem gengur eða einstaklingar, á öllum aldri, sem einhverra hluta vegna treysta sér ekki til að hjóla í almennri umferð. Það er því mikilvægt að banna ekki hjólreiðar á göngustígum þó svo að hjólastígur eða hjólarein sé í nágrenninu.

Leiðbeiningarnar eru unnar af Guðbjörgu Lilju Erlendsdóttur hjá Eflu fyrir Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar. Hún hefur einnig tekið allar ljósmyndir leiðbeininganna nema annað sé tekið fram. Starfsmenn Reykjavíkurborgar sem komu að verkefninu eru Ólafur Bjarnason, Pálmi Freyr Randversson, Stefán Agnar Finnsson og Dagbjartur Sigurbrandsson.

Haft var samráð við Landssamtök hjólreiðamanna um útfærslur og efnistök. Fulltrúar samtakanna komu á tvo fundi og fengu drög að leiðbeiningunum til yfirlestrar.

Leiðbeingarnar voru kynntar og ræddar á fundi umhverfis- og samgönguráðs 21. desember 2010. Engar athugasemdir voru gerðar við þær.


Hönnunarleiðbeiningarnar má lesa hér á vef umhverfis og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar undir Hjólreiðaáætlun.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl