Efnislega er þetta líka afstaða Landssamtaka hjólreiðamanna.
Stefna evrópusamtaka hjólreiðamanna, the European Cyclists’ Federation (ECF) gagnvart reiðhjólahjálmum og löggjöf um þá.
Hjólreiðamenn lifa lengra og heilbrigðara lífi; alvarleg höfuðmeiðsl eru sjaldgæf og gögn sem mæla með hjálmanotkun og lögboðinni hjálmaskyldu orka tvímælis. Helstu áhrif hjálmaskyldu hafa ekki verið aukið öryggi hjólreiðamanna heldur að fæla fólk frá hjólreiðum, og grafið undan heilsufarslegum ávinningi hjólreiða og öðrum kostum sem þeim fylgja.
Því skorum við á þingmenn að
- Einbeita sér að gamalreyndum aðferðum sem hvetja til hjólreiða og velferðar hjólreiðamanna;
- Viðurkenna að kostir hjólreiða vega margfalt þyngra en áhætta;
- Forðast að hvetja til eða skylda notkun reiðhjólahjálma án traustra sannana um að slíkt sé gagnlegra og hagkvæmara en aðrar öryggisráðstafanir.
Allra leiða ætti að leita til að hvetja til og stuðla að auknum hjólreiðum því þær eru góðar fyrir umhverfið, heilsu hjólreiðamannsins og almenna lýðheilsu m.a. Reiðhjólahjálmar gera lítið til að auka öryggi. Besta leiðin til að auka öryggi hjólreiðamanna er að hvetja til aukinna hjólreiða.
ECF hvetur til hjólreiða og umferðaröryggis og er því á móti lögum sem skylda hjólreiðamenn til að nota reiðhjólahjálma af eftirfarandi ástæðum:
- Lögbundin hjálmaskylda fælir frá hjólreiðum með því að gefa í skyn að þær séu sérlega hættulegar, þrátt fyrir að rannsóknir sýni meiri líkur á að þú látir lífið við að ganga tiltekna vegalengd en hjóla (Wardlaw 2002).
- Það eru minni líkur á að hjólreiðamenn sem slasast verði fyrir höfuðmeiðslum heldur en gangandi vegfarendur eða farþegar í bílum sem slasast (ONISR 2005).
- Hjálmaáróður sem byggir á stuðandi eða hryllilegu efni gefur í skyn að reiðhjólahjálmar veiti margfalt meiri vörn en þeir gera. Reiðhjólahjálmar eru eingöngu hannaðir til að þola lítilsháttar högg, ekki árekstur við vélknúin ökutæki.
- Í þeim löndum sem fólki er refsað fyrir venjulegar hjólreiðar (án reiðhjólahjálma), hefur ekki tekist að draga úr tíðni höfuðmeiðsla þrátt fyrir aukna notkun reiðhjólahjálma.
- Rannsóknir sýna að í löndum þar sem hvatt er til hjólreiða og fjöldi hjólreiðamanna hjólar reglulega ferða sinna til og frá vinnu kemur „öryggi fjöldans“ til sögunnar. Það er að segja; eftir því sem fleiri hjóla verða hjólreiðar öruggari.
- Þegar dregur úr hjólreiðum minnka þessi öryggisáhrif um leið. Minni hjólreiðar draga úr jákvæðum árifum þeirra á lýðheilsu og umhverfi.
Evrópusamband hjólreiðamanna ráðleggur þingmönum að leggja af reglu um skyldunotkun reiðhjólahjálma og stuðla að auknum hjólreiðum.
Þýðing og samantekt Páll Guðjónsson.
Hér má lesa bréf ECF til Alþingis vegna umferðarlaganna sem liggur fyrir þinginu og er til meðferðar í Samgöngunefnd núna. PDF skjal.