Reglur um rafknúin hjól skoðaðar

mbl-110820-rafknuin-hjolMörg dæmi um gáleysislega notkun slíkra farartækja. Hluti þessara hjóla verða mögulega skoðunarskyld

Síðastliðin tvö sumur hefur þeim ökutækjum fjölgað sem falla ekki undir hefðbundnar skilgreiningar laga. Dæmi eru um að ungir ökumenn á litlum vespum reiði allt upp í tvo farþega. Þá hafa menn orðið uppvísir að því að aftengja hraðatakmarkanir sem eru innbyggðar á sum rafmagnshjól. Þetta segir Einar Magnús Magnússon, verkefnastjóri hjá Umferðarstofu. Hann segir stofuna nýlega hafa skilað skýrslu til innanríkisráðuneytisins þar sem fjallað er um málið og kemur fram að nauðsynlegt sé að taka það föstum tökum til að tryggja öryggi. Einar segir ekkert vera fast í hendi um hvaða leiðir verði farnar í þessum efnum. »Einn af þeim möguleikum sem eru fyrir hendi er að innleiða að fullu tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2002 en þar eru hjól með hjálparfótstigi sem búin eru rafknúinni vél þar sem afköst vélarinnar minnka smám saman þar til 25 km/h er náð þegar mótorinn stöðvast alveg. Þessi tæki eru ekki skoðunarskyld og eru skilgreind sem reiðhjól. Ef hjól er ekki með slíku hjálparfótstigi og er t.d. komið með inngjöf í stýri myndi það teljast skráningarskylt ökutæki eða létt bifhjól.« Einar segir tilskipunina hafa verið setta á tíma þar sem umhverfið var allt annað í þessum efnum. »Þá voru ekki til þessi stærri og þyngri tæki sem eru í umferð núna, hvað þau varðar þarf að skoða reglugerðir.«

Stærri hjólunum hefur fjölgað hratt og Einar segir þörf á að skerpa á ábyrgðartilfinningu í kring um notkun þessara ökutækja og sérstaklega á meðal foreldra. »Hvað sem líður reglum þarf fólk að hafa í huga að bannað er að reiða á þeim. Þá eru þau hljóðlaus en við þekkjum það að alvarleg slys hafa orðið þegar hjólreiðamenn rekast á gangandi vegfarendur.«

Uppruni: Morgunblaðið 20. ágúst 2011
Mynd 2 er af Facebook síðu Umferðarstofu

umferdarstofa-rafmagnsvespa