Hjólreiðamenn verða að vera sýnilegir

mbl-100817bReiðhjól hafa sama rétt á götum og bílar og ber hjólreiðafólki því að fylgja sömu umferðarreglum. Þeir Einar Magnús Magnússon og Árni Davíðsson þekkja þær vel.

Reiðhjólið nýtur vaxandi vinsælda sem fararskjóti og fer þeim sífellt fjölgandi sem hjóla í og úr vinnu eða nýta sér þennan vist- og heilsuvæna ferðamáta til annarra ferða. Margir bætast t.a.m. í raðir hjólreiðamanna þegar Átakið hjólað í vinnuna stendur yfir og hefur þátttakendum fjölgað ár frá ári sl. sjö ár. Nú síðast tóku 9.411 manns þátt og halda margir þeirra áfram að hjóla, a.m.k. yfir sumartímann, þegar þeir eru einu sinni komnir af stað.

Ekki átta hins vegar allir hjólreiðamenn sig á að þeim er heimilt að hjóla á götunni og gætir raunar nokkurs miskilning, jafnvel í samgöngunefnd Alþingis fyrir nokkrum árum, um að bannað sé að hjóla á götunni.

»Hjól eru hvergi í heiminum bönnuð í almennri umferð,« segir Árni Davíðsson formaður Landsamtaka hjólreiðamanna. »Hjólreiðar eru þó stundum bannaðar á hraðbrautum og við sérstakar aðstæður eins og í Hvalfjarðargöngunum.«

Að öðru leyti hafa reiðhjól sama rétt á götum og bílar, ólíkt því sem gildir um gangstéttar og göngustíga. Þar eru hjólreiðamenn á undanþáguheimild, sem heimilar ferðir þeirra svo framarlega sem þeir taka tillit til gangandi vegfarenda.

Verða að vera sýnilegir

»Reiðhjól er skilgreint sem ökutæki í umferðarlögum og í grunninn lýtur það sömu lögum og bílar gera,« segir Einar Magnús Magnússon upplýsingafulltrúi Umferðarstofu. Ekki treysti sér hins vegar allir til að hjóla á götunum, þótt það sé í mörgum tilfellum betra og jafnvel öruggara ef það er gert rétt svo ekki sé talað um að farið er hraðar yfir.

Bæði Árni og Einar nýta sér götur, ekki síður en göngustíga, til að komast sinna ferða á hjólinu og segja það misskilning að íslenskir ökumenn sé tillitslausir gagnvart hjólreiðamönnum. Flestir víki vel til hliðar og sýni hjólandi umferð fullan skilning. »Ég held að það sé mikilvægt að bílstjórar og hjólreiðamenn setji sig hvorir í spor annarra því annað getur boðið hættunni heim,« segir Einar.

Hjólreiðamenn verði t.d. að passa sig að vera sýnilegir. »Ákveðin mistök, sem sumir gera, er að hjóla of nálægt gangstéttarbrúninni og hverfa jafnvel inn á bílastæði við hvert tækifæri. Þetta getur hins vegar skapað hættu í hvert skipti sem maður þarf að koma inn á akreinina aftur,« segir Árni. Til að hjólreiðamenn séu sýnilegir eigi þeir að hjóla um 0,5-1 m frá gangstéttarbrúninni, um 1 m hægra megin við umferðarstraum.

»Það á þó ekki heldur að hjóla þannig að maður skapi óþarfa tafir, til dæmis með því að vera á miðri akrein á Kringlumýrarbraut þegar vel má vera nær kantinum,« segir Einar.

Almennt séu hjólreiðamenn í víkjandi stöðu á götunum, þ.e. séu þannig staðsettir á akreininni að ökumenn geti sveigt framhjá þeim. Í undantekningartilvikum tekur hjólreiðamaður sér þó ríkjandi stöðu. Á miðri akrein eða þar um bil og á það t.d. við þegar akreinin er of mjó til að sveigja megi hættulítið framhjá, eða þegar hjóla á yfir gatnamót. »Það er alltaf hætta á að ökumaður sveigi í veg fyrir mann við gatnamót sé maður í víkjandi stöðu,« segir Árni. »Bílstjóri er nefnilega búinn að gleyma hjólreiðamanni sem er úti í kanti um leið og hann er kominn upp að hlið hans.« »Ég tala nú ekki um ef viðkomandi er að tala í farsímann um leið,« bætir Einar við. Sama gildir þegar hjólað er um hringtorg. Þar á hjólreiðamaður líka að taka sér ríkjandi stöðu svo hann sjáist sem best.

Hjólreiðamenn þurfa þó líka að sýna tillitsemi, t.d. þegar farið er yfir gangbraut. »Þar á hjólandi umferð ekki að fara hraðar yfir en gangandi, því ökumenn eiga ekki von á meiri hraða á þeim sem fara þar yfir og þeir verða að geta treyst því,« segir Einar.

Skortir víða samfellu

Sömu umferðarreglur gilda um hjólreiðamenn og aðra ökumenn og t.a.m. á aldrei að hjóla á móti umferð. »Í umferðalögum er talað um að fótgangandi vegfarendur gangi á móti umferð, en það á ekki við um hjólreiðamenn. Þeir eiga að hjóla eins og þeir væru á bíl,« segir Árni.

Skipulagsyfirvöld hafa verið dugleg að beina hjólandi umferð yfir á göngustíga og segir Árni nokkur vandamál myndast við þá blönduðu umferð sem þar fer um. »Gatnakerfið er í sjálfu sér það sem hentar best fyrir hjólreiðar. Það er jú hannað fyrir ökutæki og ákveðinn hraða«. Göngustígarnir gefist þó ágætlega þar sem útsýni er gott. »Vandinn er hins vegar sá að margir blindir staðir eru á göngustígunum, t.d. vegna þétts gróðurs og blindhorna og þá er hætta á slysum,« segir Einar. Umferð um stígana þurfi því að vera mun rólegri og henti fyrir vikið betur til skemmtiferða en sem ferðamáti í og úr vinnu.

Þeir segja skilning þó hafa verið að aukast hjá borgaryfirvöldum á mikilvægi hjólreiða sem samgöngumáta, þó ekki séu allir sammála um forgangsröðina. »Nú er t.d. unnið að útvíkkun Fossvogsstígsins á köflum og vonandi tekst að gera samfelldan stíg þar úr. Við hefðum þó heldur vilja sjá betri tengingar til Hafnarfjarðar þar sem skortir samfellu og upp í Grafarvog, Breiðholt og Árbæ,« segir Árni. Full þörf sé enda á hjólabrautum meðfram stofnbrautum á borð við Kringlumýrarbrautina. »Við í Landsamtökum hjólreiðamanna vitum að flest hjólreiðafólk veigrar sér meira að segja við að fara út á litlar götur, hvað þá Kringlumýrarbrautina.

Í vegalögum er þegar heimild fyrir að greiða fyrir slíka framkvæmd og hefur Vegagerðin sagt að hún sé til í að borga fyrir framkvæmdina ef sveitarfélögin sjái um skipulagið. Þar virðist hins vegar hnífurinn standa í kúnni, því sveitarfélög virðast eiga erfitt með að ræða þetta mál sín á milli,« segir Árni og Einar bætir við: »Ef þau áttuðu sig á því hve hagnaður af slíkri framkvæmd er mikill þá held ég þau væru búin að því fyrir löngu.«

Sjá umfjöllun í Morgunblaðinu 17 ágúst 2010

mbl-100817a

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.