Um snjóhreinsun á gangstéttum og hjólastígum

Ágæti móttakandi,
Þegar snjóar í Reykjavík, sem raunar er ekki oft núorðið, er snjóhreinsun á hjólastígum og gangstéttum ábótavant. Vissulega er það svo að oft er hreinsað eftir fyrsta snjó en síðan ekki meir. Þetta á sérstaklega við um gangstéttar. Erfiðleikarnir eru vegna þess að þegar götur eru ruddar fyrir bílaumferð þá fer saltpæklaður snjór ofan í farið sem rutt hefur verið fyrir gangandi og hjólandi á gangstéttum. Síðan er það svo merkilegt að ef snjóar aftur þá er eins og litlu góðu snjóruðningstækin hverfi af gangstéttunum. Það er ekki nóg að ryðja bara einu sinni, það þarf að gera á hverjum morgni meðan að snjóar.

Sjálfur reyni ég að nota reiðhjólið mitt sem mest. Er með hjólakerru fyrir 18 mánaða gamlan son minn en í morgun neyddist ég til að fara út á götu í Lönghlíðinni vegna þess að ég gat ekki hjólað á gangstéttinni vegna saltpæklaðs snjós sem náði upp fyrir ökla á gangstéttinni. Mér er illa við að fara mikið út á götu þegar ég er með son minn í kerrunni.

Á vef borgarinnar er fjallað nánar um snjóruðning hér og nánar um snjóruðning göngustíga hér:

Þeim markmiðum sem sett eru fram í áætluninni um ruðning göngustíga er því miður ekki fylgt sbr. áðurnefnt. Þetta hefur oft gerst þegar hefur snjóað. Ég hef oft bölvað þessu þegar ég hef verið að hlaupa eða hjóla en í morgun sagði ég við sjálfan mig að nú væri nóg komið! Nú yrði ég að láta í mér heyra.

Ég vil nota þetta tækifæri og benda á ótrúleg mistök sem hafa orðið við hönnun á gangstígum í borginni. Þeir sem hönnuðu gangstígana á umferðareyjunum á gatnamótum Miklubrautar og Lönghlíðar, Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar og að lokum gatnamót Laugavegar/Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar voru greinilega ekki aðilar sem hjóla eða ganga. Það er til dæmis ekki hægt að koma snjóruðningstækjum í gegnum gangstígana á umræddum gatnamótum. Til að komast í gegnum göngustíga umferðareyja á fyrrgreindum stöðum þá þarf að taka tvær 90 gráðu beyjur. Hver hannaði þessa vitleysu eiginlega?! Ég fullyrði að það var einhver sem hvorki hefur notað reiðhjól né tvo jafnfljóta til samgangna. Og hefur aldeilis engan skilning á notkun þess hátta samgöngumáta.

Ekki er allt slæmt sem gert fyrir gangandi og hjólandi sem betur fer. En þetta er hins vegar alveg út úr kú. Vinsamlega lagið þetta sem fyrst. Ef hvetja á fólk til að ganga og hjóla í stað þess að nota einkabílinn þá verður að þjónusta gangandi og hjólandi og greiða fyrir viðkomandi á sama hátt og gert er fyrir einkabílinn. Raunar er það svo að setja á hagsmuni gangandi og hjólandi framar hagsmunum einkabílsins.

Óska ekki sérstaklega eftir svari, aðeins úrbótum.

Með vinsemd,
Ingólfur Bruun
Barmahlíð 43
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
www.05.is/guide

 


Opið bréf sem Ingólfur Bruun sendi á allra borgarfulltrúa, þeirra sem sjá um snjóruðning hjá borginni og fl. 7 feb. 2011

Mynd: Gangbraut yfir Kringlumýrarbraut við Háaleitisbraut tekin 6. feb. 2011 kl 13:35 - Frosti Jónsson

gonguljosagrind-w Ingolfur-Bruun

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl