Vesturgatan - fjallahjólreiðakeppni Höfrungs fysta alvöru fjallahjólreiðakeppnin á Vestfjörðum, var haldin í fyrsta skipti laugardaginn 17. júlí 2010. Rásmark var við sundlaugina á Þingeyri og var hjólað saman á eftir leiðsögubíl á malbiki að flugvellinum (2 km) þar sem keppnin var gefin frjáls. Leið liggur í gegnum bæjarhlaðið á Kirkjubóli, upp Kirkjubólsdal og yfir Kvennaskarð, tæplega 600 m hækkun, og niður Fossdal niður að sjó (Stapadal í Arnarfirði), fyrir Sléttanes og þaðan eftir ýtuvegi Elísar Kjaran inn Dýrafjörð, (um 28 km á grófum malarvegi, sand- og grjótfjöru) inn að flugvellinum og frá flugvellinum um 2 km á malbiki inn á Þingeyri. Mark var við sundlaugina á Þingeyri. Heildarlengd er rúmlega 55 km og heildarhækkun 1.080 m.
Hjólamenn héldu lengstu hjólreiðakeppni ársins á Snæfellsnesi í dag. 8 keppendur hófu leik en Sigurgeir Agnarsson sigraði með sjónarmun eftir að hafa barist við vindinn og óslétt malbik í rúma fimm tíma. Hann hjólaði lengst af með Gísla Karel, Hlöðveri og Gunnlaugi en á endanum voru það hann og Gunnlaugur sem hjóluðu saman yfir Vatnaleiðina og reyndu báðir að rykkja frá hinum en þar sem bæði óslétt malbik og vindurinn höfðu tekið sinn toll voru árásirnar fremur af vilja en mætti. Það endaði því á endasprett milli þeirra sem Sigurgeir vann með rúmum 5 sentimetrum. Hlöðver Sigurðsson kom svo í mark tæpum 5 mínútum á eftir þeim félögum og Gísli Karel Elísson sem lengst af hjólaði í fremsta hóp varð fjórði rúmum 18 mínútum á eftir fyrsta manni.
Bankastrætið verður ásamt hluta Laugavegar og Skólavörðustígs helgað gangandi og hjólandi vegfarendum frá hádegi í dag, 16.júlí, og um helgina vegna veðurblíðu. Laugavegurinn verður göngugata frá gatnamótum við Vatnsstíg og Skólavörðustígur frá Bergstaðastræti. Einstöku blíðviðri er spáð í höfuðborginni um helgina og vilja borgaryfirvöld og samtökin Miðborgin okkar gefa fólki aukið rými til að njóta þess.
Nú vita sumir en aðrir ekki að verið hefur undanfarna mánuði lagt mikla vinnu í að koma á hjólreiðasvæði í Skálafelli, en það er algjörlega vannýtt svæði sem er fullkomið í svokallað "bikepark", fyrirbæri sem er að verða æ vinsælla í evrópu og restinni af heiminum.
Þetta er allt að smella en eins og með svo margt annað þá veltur þetta allt á þeim sem stunda þetta, fólkinu sem hefur áhuga á þessu og vill leggja sitt af mörkum til að virkja hjólreiðasamfélagið á Íslandi. Það getur enginn neitað því að svæði eins og þetta væri algjör draumur ef þetta kæmist í framkvæmd.
Austurstræti, Pósthússtræti og hluti Hafnarstrætis verða helguð hjólandi og gangandi vegfarendum frá og með föstudeginum 9.júlí og út ágústmánuð. Með þessu vilja borgaryfirvöld styðja við vistvænan ferðamáta og glæða miðborgina enn frekara lífi.
Grasbalinn sem settur var upp tímabundið á Lækjartorgi á síðasta ári hefur nú lokið hlutverki sínu og hyggst borgin sá næstu grænu fræjum á Hverfisgötunni. Tvö stæði við Hverfisgötu 42 verða tyrfð í lok þessarar viku og um leið helguð fólki en ekki bílum.
Þetta er á meðal ýmissa verkefna sem unnið er að á vegum borgarinnar í sumar til að virkja opin rými og vekja borgarbúa til umhugsunar um hvernig þeir geta notað þau. Stæðin tvö við Hverfisgötu eru staðsett hjá Kling og bang galleríi sem hyggst stökkva á tækifærið og nýta grænu svæðin í tengslum við uppákomur á laugardaginn 10. júlí.
Hin árlega Heiðmerkuráskorun á fjallahjóli fór fram í 5. skipti í gærkvöldi (miðvikudagskvöld 30. júní). Að þessu sinni voru um 50 keppendur sem kepptu í A-flokki og hjóluðu þeir tvo 12km hringi eftir stígum og malarvegum í Heiðmörk við nokkuð góðar aðstæður. Brautin var þó aðeins of þurr og laus í sér nokkrir keppendur lentu í vandræðum með að halda sér á brautinni.
Page 11 of 15