Hjólreiðar – frábær ferðamáti

lhmmerkitext1Út er kominn bæklingurinn Hjólreiðar – frábær ferðamáti sem ÍFHK útbjó í samvinnu við Landssamtök hjólreiðamanna í þeim tilgangi að hvetja fólk til að nota reiðhjólið sem samgöngutæki og til að fræða almenning um hvernig öruggast er að beita hjólinu í umferðinni.

 

[issuu layout=http%3A%2F%2Fskin.issuu.com%2Fv%2Flight%2Flayout.xml showflipbtn=true autoflip=true autofliptime=6000 documentid=100428184744-2be796a3a9ed44138de813c9254f9d10 docname=hjolreidar username=fjallahjolaklubburinn loadinginfotext=Hj%C3%B3lhesturinn%2019.%20%C3%A1rg.%202.%20tbl.%20ma%C3%AD%202010 showhtmllink=true tag=iceland width=550 height=390 unit=px]

Eftirfarandi var sent á póstlista ÍFHK 5. maí 2010

 


Kæru félagar Íslenska fjallahjólaklúbbsins

Neðst er tengill á bæklinginn Hjólreiðar – frábær ferðamáti sem klúbburinn útbjó í samvinnu við Landssamtök hjólreiðamanna í þeim tilgangi að hvetja fólk til að nota reiðhjólið sem samgöngutæki og til að fræða almenning um hvernig öruggast er að beita hjólinu í umferðinni.

Ef það er langt síðan þið hjóluðuð síðast er kjörið að rifja upp kynnin núna í sumarbyrjun. Í bæklingnum er farið yfir heilsuávinninginn af hjólreiðum, kveðnar niður gamlar mýtur og farið ítarlega yfir tækni samgönguhjólreiða sem allir ættu að kynna sér. ÍFHK og LHM hafa kynnt þessa tækni markvisst síðan 2007 með fyrirlestrum, útgáfu í Hjólhestinum, á heimasíðum sínum og einnig þjálfað upp Hjólafærnikennara sem hafa haldið námskeið í Hjólafærni, þar sem þessi sama tækni er kennd.

Einnig er í bæklingnum leiðbeint um einfalt viðhald, val á nýju hjóli, fjallað um skemmtilegar stuttar ferðir innan borgarinnar, vinnuveitendum ráðlagt hvernig þeir geta boðið upp á góða aðstöðu fyrir hjólreiðafólk og margt fleira.

Í tilefni þess að 20 ára afmælisár klúbbsins er að renna sitt skeið ákváðum við að senda bæklinginn til allra þeirra 1200 meðlima sem hafa skráð sig í klúbbinn í gegnum tíðina, líka til þeirra sem hafa verið óvirkir lengi. Án þeirra hefði þessi klúbbur ekki vaxið og dafnað öll þessi 20 ár. Endilega rifjið upp kynnin, kíkið á vefinn okkar fjallahjolaklubburinn.is og sjáið hvað við höfum verið að gera undanfarið. Og ef þið viljið aftur verða virkir félagar, styðja við starfsemina og njóta afsláttakjaranna, þá er bara að fylgja leiðbeiningunum sem má finna undir Klúbburinn > Gangið í klúbbinn.

ÍFHK er aðildarfélag að LHM og allir félagar ÍFHK hafa atkvæðisrétt á fundum LHM. Skoðið líka vefinn lhm.is og kynnið ykkur þá miklu hagsmunabaráttu sem þar er unnin ásamt því hvernig reynt er að efla hjólamenninguna á Íslandi með hjólatengdum fréttum víðsvegar að úr heiminum.

Klúbbhúsið okkar, Brekkustíg 2, er opið öll fimmtudagskvöld frá kl. 20 og allir velkomnir. Einnig erum við með rólegar útivistarferðir á þriðjudögum eins og verið hefur um árabil. Mæting er kl. 19:30 í Húsdýragarðinum í Laugardal og verður hjóluð hæfilega löng kvöldferð um borgina og nágrenni. Aðra dagskrá má sjá á vef klúbbsins, bæði dagskrá ÍFHK og annarra aðila, s.s. helstu keppnir og t.d. ferðir Útivistar.  Við mælum líka með að þið skráið ykkur á póstlistann okkar því stundum eru skemmtilegar uppákomur og viðburðir ákveðnir með stuttum fyrirvara.

Bæklingurinn er gefinn út og dreift í tengslum við Hjólað í vinnuna vinnustaðakeppnina sem hefst í dag og við hvetjum alla til að taka þátt í.

Kær kveðja.

Fyrir hönd stjórnar ÍFHK,
Fjölnir Björgvinsson, formaður ÍFHK

Fræðsla = öryggi

Á vorin taka margir sig til og prófa hjólið sem samgöngutæki og skilja bílinn eftir heima. Ekki síst gerist það í vinnustaðakeppninni „Hjólað í vinnuna“.  Þessi bæklingur er gefinn út til þess að hvetja fólk til hjólreiða og að fræða það um hvernig öruggast og þægilegast er að stunda hjólreiðar.

Sú tækni sem kennd er í kaflanum um samgönguhjólreiðar er ekki ný af nálinni heldur er hún viðurkennd og kennd víða um heim, þótt aðrir en LHM og ÍFHK hafi ekki sinnt þessari fræðslu með skipulögðum hætti á Íslandi hingað til.

Landssamtök hjólreiðamanna stóðu fyrir komu John Franklin á samgönguviku 2007 en hann er einn helsti sérfræðingur Breta í öryggismálum hjólreiðafólks og sérstakur ráðgjafi breskra stjórnvalda. Þar hélt hann nokkur erindi sem hétu samgönguhjólreiðar og þversagnir í öryggismálum hjólreiðafólks. Þessa fyrirlestra má lesa á heimasíðum ÍFHK og LHM og eru þeir skyldulesning fyrir alla sem fjalla vilja um hjólreiðar af einhverri þekkingu. Þar eru kveðnar niður mýtur um meintar hættur hjólreiða með vísan í marktækar rannsóknir. Hjólreiðar eru nefnilega ekki hættulegur ferðamáti heldur meinhollar, ódýrar og umhverfisvænar.

John Franklin skrifaði bókina Cyclecraft sem m.a. er notuð við kennslu í Hjólafærni sem nefnist Bikeability í Bretlandi. Aðeins sérþjálfaðir kennarar fá að kenna Hjólafærni þar og er kennslunni skipt í þrjú stig, fyrsta stigið er fyrir byrjendur á öllum aldri en annað og þriðja stig fjalla um samgönguhjólreiðar á götum.

Landssamtök hjólreiðamanna fengu hjólafærnisérfræðing til landsins árið 2008 sem þjálfaði nokkra Íslendinga eftir breska þjálfunarmódelinu sem Hjólafærnikennara. Þar á meðal voru Árni Davíðsson, sem skrifar um samgönguhjólreiðar í þessum bæklingi, og Sesselja Traustadóttir sem býður upp á námskeið í Hjólafærni ásamt annarri þjónustu í gegnum vefinn hjólafærni.is.

Það er von okkar að þessi bæklingur hjálpi sem flestum að tileinka sér reiðhjólið sem samgöngutæki með þeim jákvæðu áhrifum sem sú hreyfing hefur á heilsuna, umhverfið og budduna.

Stígum á sveif með lífinu og skiljum kyrrsetulífernið eftir.

Páll Guðjónsson, ritstjóri.
Fjölnir Björgvinsson, formaður Íslenska fjallahjólaklúbbsins.
Árni Davíðsson, formaður Landsamtaka hjólreiðamanna.

Smellið hér til að skoða Hjólreiðar - frábær ferðamáti

Félagar ÍFHK fá hann sendan heim á næstu dögum og ÍSÍ sendir hann á alla hópstjóra í vinnustaðakeppninni Hjólað í vinnuna. Einnig verður honum dreift í reiðhjólaverslanir og víðar.

Endilega hjálpið okkur við að breiða út þetta fræðsluefni með því að áframsenda þennan póst á áhugasama og vísa á greinarnar og blaðið á Facebook.

Frekari upplýsingar veita Fjölnir og Árni.

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.

Nýjustu umsagnir LHM og önnur skjöl