Um reiðhjólahjálma – skyldunotkun eða frjálst val?

Eftirfarandi er úrdráttur og samantekt úr athugasemdum Landssamtaka hjólreiðamanna, LHM, við drög að nýjum umferðarlögum. Andstöðu við skyldunotkun hjálma má ekki túlka sem andstöðu við notkun hjálma. LHM er alls ekki á móti notkun hlífðarhjálma, flest notum við þá, a.m.k. við vissar aðstæður. Við erum heldur ekki á móti fræðslu um hjálma. Við viljum að fólki sé frjálst að hjóla með hvern þann hlífðarbúnað sem það kýs.

Við viljum hins vegar ekki blekkja fólk með því að lofa árangri af notkun hlífðarhjálma sem er langt umfram það sem raunhæft er að vænta. Gleymum því ekki að hjólreiðar eru ekki hættulegar sem er aðalatriði þegar rætt eru um öryggismál hjólreiðafólks. Hjólreiðar eru hlutfallslega öruggari en margar algengar keppnisíþróttir t.d. og þeir sem hjóla reglulega lifa lengur en hinir.

Í drögum að nýjum umferðarlögum er lagt til að hjálmaskylda 14 ára og yngri verði leidd í lög og að ráðherra verði veitt opin heimild til að setja fullorðnu fólki svipaðar reglur. LHM gerði alvarlegar athugasemdir við þau áform m.a. með eftirfarandi rökum

LHM ítrekaði einnig fyrri ábendingar um að hugað yrði að eðlilegu samspili milli umferðar gangandi vegfarenda og hjólreiðamanna á stígum og gangstéttum. Þörf er á því að gera reglur um réttindi, skyldur og öryggi vegfarenda stíganna skýrari og fyllri. Athugasemdir við drögin eru fjölmargar aðrar og má lesa þær í heild sinni á vef Landsamtaka hjólreiðamanna hér.

Neikvæð áhrif skyldunotkunar

Reynslan af lögleiðingu skyldunotkunar reiðhjólahjálma er neikvæð á heildaröryggishagsmuni hjólreiðafólks og henni fylgja þekktar neikvæðar hliðarverkanir á lýðheilsu almennt og markmið stjórnvalda um að auka veg þessa umhverfisvæna fararmáta.

Reglur ráðherra um hjálmaskyldu eru barn síns tíma og ætti að afnema frekar en að leiða í lög án þess að skoða þetta margslungna málefni vandlega núna þegar lögin eru í endurskoðun. T.d. mætti fá hlutlausa aðila til að taka saman skýrslu svipaða þeirri sem fylgir lagadrögunum og fjallar ítarlega um áhrif þess að lækka vanhæfismörkin fyrir alkóhól. Heildstætt mat þarf á þá reynslu sem komin er á lögleiðingu reiðhjólahjálma erlendis og skoða hvaða breyting varð á Íslandi í kjölfar gildandi reglna. Ekki er nóg að líta til þess hversu mikið notkun hjálma hefur aukist heldur hver raunverulegu áhrifin voru á öryggi og hliðarverkanir s.s. hugsanleg fækkun hjólreiðafólks.

Engin þörf er á því að gera hjólreiðar að ólöglegu athæfi kjósi menn að stunda þær án reiðhjólahjálms. Við skorum á starfsmenn ráðuneytisins og aðra sem lesa þessi orð að kynna sér vandlega þau gögn sem iðulega er vitnað til af talsmönnum hjálmaskyldu. Þeir vísa oft í meingallaða rannsókn sem er yfir 20 ára gömul. Engar ályktanir er hægt að draga af niðurstöðum þeirrar rannsóknar þar sem rannsóknin náði til tveggja ósamanburðarhæfra hópa. Einnig hvetjum við fólk til að kynna sér nýrri gögn sem við fjöllum betur um í athugasemdunum fyrir neðan og á vef okkar lhm.is.

Þekking eða óskhyggja?

Umræðan um reiðhjólahjálma hefur frekar byggst á óskhyggju og tilfinningum en þekkingu á eðli og takmörkum reiðhjólahjálma. Og ekki hefur verið horft til neikvæðra hliðarverkana hjálmaskyldu og neikvæðs hræðsluáróðurs.

Lagasetning þarf að byggja á stað­reyndum, þekkingu og fullvissu fyrir því að hún hafi tilætluð áhrif til að auka öryggi en ekki neikvæð fyrirséð áhrif eins og reynsla er komin á annars staðar.

Sé það vilji stjórnvalda að leitast við að auka öryggi hjólreiðamanna má vera ljóst að skyldunotkun á reiðhjólahjálmum er ekki leiðin, hvort sem hún er fyrir alla eða 14 ára og yngri. Hugsanlegur ávinningur þess að þeir, sem í dag kjósa að hjóla án reiðhjólahjálms, fari að bera þá tilneyddir er minni en svo að hjálmaskylda sé réttlætanleg.

Þau lönd þar sem hjálmanotkun er minnst eru þau lönd þar sem hjólreiðar eru öruggastar, þar með talin minnsta hættan á höfuðáverkum. Ekki vegna þess að hjálmanotkunin sé þar minnst heldur af því að þar eru hjólreiðafólk hlutfallslega flest. Það sem helst hefur áhrif á öryggi hjólreiðamanna er fjöldi þeirra sem hjóla. Ef fleiri hjóla minnkar áhættan. Hjálmanotkun virðist engu skipta í sjálfu sér en reynslan af hjálmalögum og áróðri fyrir hjálmum er sú að fólk er hrætt frá hjólreiðum sem aftur vinnur á móti öryggisáhrifum fjöldans.

 öryggisáhrif fjöldans

Á stöðum þar sem hjálmalögum er framfylgt og hlutfall (en ekki endilega fjöldi) hjólafólks sem notar hjálma hafði hækkað, sýndi rannsókn að hjálmanotkunin fækkaði ekki höfuðáverkum þeirra sem hjóla. Í raun virtist víðast meiri áhætta á höfuðáverkum, mjög líklega vegna áberandi fækkunar hjólafólks og þar með minna öryggi fjöldans.

Hjálmanotkun hjólreiðamanna er nú umdeildari en nokkru sinni, fleiri skrifa í heilsupressuna og draga í efa gagnsemi hjálma og gagnrýna meinta hlutdrægni þeirra rannsókna sem mæla með hjálmum. Breska ríkisstjórnin viðurkenndi nýlega að gögnin eru tvíræð og ætlar að láta rannsaka að nýju gagnsemi hjálma og aðrar hliðar öryggismála hjólafólks.

Ef tilgangur hjálmaskyldu er að auka öryggi hjólreiðafólks vinnur hún sem sagt á móti tilgangi sínum því hún dregur úr öryggi heildarinnar. Hún er ekki líkleg til að minnka alvarleg höfuðmeiðsl þegar hjólandi verður fyrir bíl enda eru hjálmar ekki hannaðir til þess, ólíkt því sem oftast er gefið í skyn.

Enn vitnað í úrelt og gölluð gögn

Þegar fyrri frumvörp um lögleiðingu hjálmaskyldu eru skoðuð sést að vitnað er í rannsókn frá 1989 þar sem því var haldið fram að „með notkun reiðhjólahjálma mætti draga úr hættu á alvarlegum höfuðmeiðslum um 85%". Þessi fullyrðing er röng. Þessi rannsókn er 20 ára gömul og því miður meingölluð og marklaus þó enn sé vitnað í þessa tölu af þeim sem hentar. Það hefði einnig mátt draga þá ályktun af niðurstöðum hennar að notkun hlífðarhjálma yki slysahættu sexfalt en því er síður haldið á lofti. Sjá nánar t.d. hér .

  • This assumption (from the Seattle study) leads to other conclusions. If 21.1% of children in bike accidents wore helmets, but only 3.2% of child cyclists riding round Seattle [3], helmet wearers must be (21.1/3.2) = 6.6 times more likely to have accidents. Thus wearers may be protected if they have accidents, but because they are nearly 7 times as likely to have accidents, their overall risk of HI is similar to non-wearers, but their risk of non-head injury is much higher! 

Staðreyndin er sú að ekki hefur verið sýnt fram á, með óyggjandi hætti, að reiðhjólahjálmar gagnist mikið í alvarlegum umferðaróhöppum. T.d. voru birtar í Læknablaðinu 1996 niðurstöður íslenskrar rannsóknar á slysatölum á árunum 1992-1995 þar sem borin var saman tíðni höfuðáverka hjá þeim sem notuðu hjálm og hinum sem ekki notuðu hjálm. Niðurstaðan var að enginn marktækur munur væri þar á

Eru reiðhjólahjálmar aðeins fyrir byrjendur?

Rétt er að benda á grein um reiðhjólahjálma eftir Brian Walker frá Head Protection Evaluations sem er rannsóknarstofa sem fæst við að prófa hjálma og staðfesta að þeir uppfylli staðla. Þar eru upplýsingar um hvað hjálmar þurfa að þola til að uppfylla Evrópustaðalinn og hversu miklu minni kröfur sá staðall gerir til hjálma en aðrir staðlar.

Reiðhjólahjálmar eru viðkvæmari og brothættari en aðrir hjálmar. Reiðhjólahjálmur er ekki mótorhjólahjálmur, hvað þá öryggisbelti. Ekki má bera saman epli og appelsínur eins og gert hefur verið í sumum fyrri hjálmaskyldufrumvörpum.

Fyrstu alvöru staðlarnir (Snell B-84) miðuðu fyrst og fremst að því að auka öryggi þeirra sem dyttu af hjóli sínu á sléttan flöt eða á gangstéttarbrún. Hjálmarnir gagnast þeim mun betur sem notandinn er lægri í loftinu og ferðaðist á minni hraða, líkt og börn sem eru að læra að hjóla. Staðallinn var ekki miðaður við að utanaðkomandi kraftur, s.s. bifreið á ferð, kæmi og æki á hjólreiðamanninn. Reiðhjólahjálmar eru sem sagt ekki hannaðir með það aðalhlutverk að forða hjólreiðamönnum frá alvarlegum höfuðmeiðslum í árekstum við bifreið á ferð.

Nýir staðlar hafa komið til síðar og þeir eru ekki jafn strangir. Staðallinn EN 1078 sem er notaður í Evrópu og á Íslandi krefst þess að hjálmur þoli aðeins 81-154 joules í prófunum meðan Snell B-84 vottaður hjálmur á að þola 313 joules. Hjálmar sem uppfylltu strangari staðalinn voru algengir áður fyrr en eftir að veikari staðallinn var innleiddur er leitun að hjálmum sem uppfylla strangari staðla.

different-standards450.png

Þeir kraftar sem mæta fólki þegar bifreið á miklum hraða ekur á reiðhjólamann geta verið meiri en jafnvel lokaðir hjálmar keppenda í Grand Prix kappakstri ráða við. Þó sumir vilji í óskhyggju sinni trúa því að reiðhjólahjálmar séu upphaf og endir öryggismála reiðhjólafólks verðum við að horfast í augu við staðreyndir og á heildarmyndina. T.d. er ákveðin tækni kennd við Bikeability eða Hjólafærni sem fjallar um hvernig megi forðast algengustu hætturnar sem mæta hjólreiðafólki í umferðinni.

Það má ekki skylda þá sem hafa náð fullkomnu valdi á reiðhjóli, og eru vanir að nota þau til samgangna, til að nota öryggisbúnað sem ekki er óyggjandi þörf á. Það verður að líta til þeirra neikvæðu áhrifa á öryggi heildarinnar þegar þeir sem ekki vilja hjóla með hjálm hætta að hjóla. Það þarf einnig að taka tillit til þeirra hliðarverkana á heilsu þeirra sem þannig geta orðið fórnarlömb offitu, hjartasjúkdóma og annarra fylgikvilla hreyfingarleysis sem valda þúsundfalt fleiri dauðsföllum hjá almenningi en hjólreiðar.

Það má aldrei verða að ráðherra einn og sér banni fullorðnu fólki að hjóla öðruvísi en með reiðhjólahjálm á höfði. Vilji einhverjir koma slíkri hjálmaskyldu á reiðhjólafólk í lög verður það að fara í gegnum opnar og upplýstar umræður á Alþingi. Hjólreiðasamtök og aðrir verða að hafa tækifæri til að upplýsa þingmenn um allt sem málinu tengist. Ákvörðunin um hjálmaskyldu má ekki fara fram á lokuðum fundum í nefnd eða ráðuneyti þar sem hagsmunir annarra en hjólreiðamanna geta haft áhrif. Í fyrri frumvörpum er m.a. vitnað í Bindindisfélag ökumanna, Samtök um öryggi evrópskra neytenda (ECOSA) o.fl. Hins vegar er t.d. ekkert minnst á Íslenska fjallahjólaklúbbinn sem hefur starfað að hagsmunagæslu hjólreiðafólks síðustu 20 ár og er nú eitt aðildarfélaga LHM sem voru stofnuð 1995. Ekki virðist hafa verið leitað til samtaka hjólreiðamanna yfir höfuð, hvorki innlendra né erlendra, eða sérfræðinga í öryggismálum hjólreiðamanna.  

Endurtökum ekki mistök annarra

LHM sem eru hagsmunasamtök hjólreiðamanna hafa lengi barist fyrir upplýstri umræðu um hjálmaskyldu og fært fyrir því mjög sterk rök að hún þjóni ekki tilgangi sínum. Við teljum það ekki þjóna hagsmunum hjólreiðafólks að leiða í lög skyldunotkun hlífðarhjálma. Það er von okkar að ráðuneytið skoði þessi mál með opnum hug eins og við höfum þurft að gera, horfi fram hjá úreltum málflutningi sem byggir á tilfinningum og skoði rökin og staðreyndirnar og byggi ekki niðurstöðurnar á 20 ára gamalli rispaðri plötu, bara af því að það er auðveldara en að skipta um.

Þó svo að hjálmaskylda verði ekki sett inn í ný umferðarlög er ekki verið að taka afstöðu á móti hjálmum heldur er horft til heildarhagsmuna í ljósi nýrrar þekkingar. Endurtökum ekki mistök annarra, lærum af reynslu þeirra. Þess ber að geta að norsk, bresk og frönsk yfirvöld hafa nýlega hafnað tillögum um að skylda hjálmanotkun hjólreiðamanna, meðal annars með tilvísun í reynslu Ástrala, Nýsjálendinga og nokkurra ríkja Kanada af hjálmalögum og viðamikillar vandaðrar rannsóknar sem sýndi að reglulegar hjólreiðar lengja lífið, þær beri að efla, en ekki hamla.

Að slæva réttarvitund almennings

Á stuttum fundi okkar síðasta haust með nefndinni sem yfirfór umferðarlögin var það skilningur okkar út frá málflutningi nefndarformannsins að hjálmaskylda yrði ekki leidd í lög nema jafnframt kæmu til sektarákvæði.

Í 76. grein í lagadrögunum er ekki gert ráð fyrir því að hjálmaskyldunni verði fylgt eftir að öðru leyti en að „lögregla og foreldrar skulu vekja athygli barna á skyldu" hjálmanotkunar. Núgildandi reglum hefur ekki heldur verið framfylgt og aðeins hluti ungmenna notar hjálma. Líklega er það sá hluti sem myndi nota hjálm án þessara stjórnvaldsfyrirmæla og þá er betra að sleppa lagaskyldunni og hvetja frekar til notkunar þeirra með öðrum aðferðum, ef þurfa þykir. Stuðningur við hjálmaskylduna gæti snarminnkað ef sektarákvæðum væri beytt. Í síðasta frumvarpi sem reynt var að leiða í lög stóð: „Börn 14 ára og yngri skulu bera viðurkenndan hlífðarhjálm á höfði við hjólreiðar. " (120. löggjafarþing. -- 152 . mál.):

„Flutningsmenn telja nauðsynlegt að brot gegn lögunum sé refsivert að einhverju marki. Refsilaus lagatilmæli slæva réttarvitund almennings og síst er það vilji löggjafans að draga úr virðingu fyrir lögum hjá æsku landsins." 

Upplýst ákvörðun með rökstuðningi

Verði það niðurstaða nefndarinnar – þrátt fyrir allt – að leggja til að leiða í lög núverandi reglur um hjálmanotkun, óskum við eftir ítarlegum rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun, hvaða markmiðum lagaskyldan á að ná fram svo hægt verði að meta árangurinn og upptalningu á þeim vísindalegu gögnum sem sú ákvörðun byggir á.

Það er í anda lýðræðis og nútímalegra stjórnsýsluhátta að athugasemdum LHM, sérstaklega í hjálmamálinu og varðandi skyldu til að fara ekki út fyrir hjólarein á stígum þar sem slíkt er merkt, sé svarað og að LHM fái að bregðast við þeim svörum áður en frumvarp til laga verður sent Alþingi til meðferðar. Ennfremur er eðlilegt að svör og rök Landssamtaka hjólreiðamanna fylgi frumvarpinu.

Athugasemdirnar eru í heild sinni á vef LHM lhm.is og þar má sjá í hvaða rannsóknir við erum að vitna og lesa fylgigögn.

Páll Guðjónsson ásamt Morten Lange.

 


 fyrir-og-eftir450.png

Mynd: Tíðni höfuð­áverka fyrir og eftir lög um skyldunotkun reiðhjólahjálma. Fyrir var hjálmanotkun undir 31% en fór upp í 75% án áberandi breytinga á tíðni höfuðáverka.

 random-breath-testing-450.png

Skýrustu dæmin um minnkaða tíðni alvarlegra höfuðmeiðsla hjólareiðafólks eftir aðgerðir stjórnvalda verða ekki rakin til innleiðingar hjálmaskyldu. Á sama tíma og alvarlegum höfuð­meiðslum hjólreiðafólks á einum stað fækkaði í kjölfar hjálmaskyldu urðu einnig færri slys á gangandi vegfarendum. Því er ekki hægt að rekja þessa fækkun til aukinnar hjálmanotkunar hjólreiðamanna. Skýringanna var að leita í átaki gegn ölvunarakstri og hraðakstri á sama tíma sem gagnaðist báðum hópum. Það þarf að horfa heildstætt á þessi mál og einfalda þau ekki um of. Þversagnirnar eru margar í öryggismálum hjólreiðafólks.
{jathumbnail off}