Ávinningur af hjólreiðum þrefaldur og gott betur

Sagt er að þrefaldur ávinningur sé af því að hjóla í vinnuna.  Það er fjárhagslega hagkvæmt, það eflir heilsuna og er umhverfisvænt. Skoðum þetta nánar.

1. Heilsufarsávinningur

Það er hollt að hreyfa sig á hverjum degi og hjólreiðar eru mjög góð leið til þess að vinna gegn því hreyfingarleysi sem margir búa við. Þetta á sérstaklega við um kyrrsetufólk, þ.e.a.s. fólk sem vinnur skrifstofuvinnu, situr á skólabekk o.s.frv.  Offita var nýlega skilgreind sem alvarlegt heilsufarsvandamál af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (World Health Organisation) og sagt er að ástandið líkist faraldri í hinum vestræna heimi.  Helsta ástæða offitu er hreyfingarleysi.

Auk offitu veldur hreyfingarleysi fjölmörgum alvarlegum sjúkdómum. Fram kemur í opinberri norskri skýrslu [SEF 2000] að aukin hreyfing lækki tíðni og alvarleika sjúkdóma. Þar eru nefndir vöðva- og liðamótasjúkdómar, ákveðnar tegundir krabbameins, hár blóðþrýstingur og sykursýki af tegund tvö.

Samkvæmt fleiri rannsóknum gæti dagleg hreyfing eins og hjólreiðar, sparað einstaklingum, fyrirtækjum og samfélaginu verulegar fjárhæðir vegna lægri tíðni nokkurra alvarlegra sjúkdóma og færri veikindadaga.

2. Umhverfisávinningur

Reiðhjól menga ekki en einkabíllinn mengar loftið, bæði þar sem bílarnir aka, þ.e. svæðisbundið (á stærðargráðu 100-10000 kílómetrar) og loftið í heiminum öllum. Þetta er beinar afleiðingar af notkun bifreiða.  Ef notkun reiðhjóla kemur í veg fyrir heimilisbíl númer tvö myndi það minnka mengun umtalsvert.

Bílar hafa almenn neikvæð áhrif á umhverfið; hráefnistöku, smíði, flutning, sölu, viðhald og förgun, auk samsvarandi áhrifa vegna eldsneytis, hjólbarða, akvega, bílageymsla og fleira. Mengun tengd framleiðslu og flutningi reiðhjóla er mjög lítil í samanburði við bíla.

Ef bílum fækkar á götunum, minnkar umferðarþunginn og umferð verður greiðari. Lögreglubílar, sjúkrabílar og slökkviliðsbílar njóta að sjálfsögðu góðs af því.

3. Fjarhagsávinningur

Reiðhjólið er mun ódýrara í rekstri heldur en einkabíll og er álitlegur kostur fyrir flesta þegar vegalengdir eru styttri en 3-5 kílómetrar. Vélknúin ökutæki menga mest á styttri vegalengdum. Vélarnar vinna ekki á fullum afköstum fyrr en þær hafa hitnað að fullu og því er óhagkvæmt að aka ávallt köldum bíl. Batnandi heilsufar mundi spara útgjöld bæði fyrir heilbrigðiskerfið og sömuleiðis fyrir atvinnulífið vegna færri veikindadaga. Í norskri skýrslu [Sælensminde 2002]  er varlega áætlað að sparnaður samfélagsins í heild nemi um 75.000 ISK á ári fyrir hvern einstakling sem fer að hreyfa sig meira en hann gerði áður.

Ef fjöldi vegfarenda sem nota reiðhjól, strætisvagna eða gengur eykst til muna,  gætu sparast töluverðar fjárhæðir sem sveitarfélög, ríki og fyrirtæki verða annars að verja í  byggingu og viðhald á vegum,  mislægum gatnamótum og bílastæðum.

Það tekur oft aðeins lengri tíma að komast í vinnu hjólandi frekar en akandi á Íslandi, nema vegalengdir séu mjög stuttar. En þessi tími er nýttur í heilsusamlega      hreyfingu (e.t.v. daglega). Þeir sem hafa vanist því að fara í heilsurækt geta örugglega fækkað þeim ferðum vegna þess ávinnings sem hjólareiðarnar veita þeim.

Fleira kemur til

Margir finna fyrir frelsi á reiðhjóli. Jafnvel á leiðinni í og úr vinnu má í mörgum tilvikum haga ferðinni þannig að hana megi flokka sem „útivist í snertingu við náttúruna“. Maður sér allan himininn og finnur ilm af gróðri, finnur vindinn og hvernig hann breytist eftir leiðinni sem farin er. Ég fullyrði að hjólreiðar, eins og önnur útivist og holl hreyfing, bæti almenna geðheilsu okkar.

Margir hrósa þeim sem hjóla daglega í vinnuna og öllum þykir lofið gott. Hjólandi og gangandi umferð gerir umhverfið mannlegra. Arkitektar sem teikna umferð á götu teikna oftast menn á gangi eða hjólandi (og svo örfáa bíla) til að gefa teikningunni notalegt yfirbragð og ekki að ástæðulausu.

Bíllinn er ágætur á margan hátt. Samt sem áður mælir margt með því að hvíla bílana mun oftar en gert er. Það hefði margvísleg jákvæð áhrif á okkur, samfélagið og náttúruna.

Þingsályktunartillaga

Fyrir nokkrum vikum síðan mátti sjá á vef Alþingis að komin væri fram þingsályktunartillaga þess efnis að skipuð verði nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar verði að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Það er því einlæg von allra hjólreiðamanna að þingmenn samþykki þessa tillögu svo hjólreiðar verði valkostur í samgöngumálum Íslendinga, þá sérstaklega í þéttbýli.

Tilvísanir í skrifin hér fyrir ofan má nálgast í Greinasafn LHM á vef Landsamtaka hjólreiðamanna. www.hjol.org  Einnig á vef Transportøkonomisk institutt, TØI í Noregi. www.toi.no

Morten Lange, varaformaðuri Landssamtaka hjólreiðamanna 2003.

Norsk samantekt og skýrslan sjálf.  http://www.toi.no/program/program.asp?id=35830

Ensk samantekt http://www.toi.no/Program/program.asp?id=36338