„Það var ekið á mig fyrir fimmtán árum þegar ég var við störf og það kviknaði í lögreglubifreiðinni og ég slasaðist nokkuð. Ég bæði braut og beyglaði hryggjar- og hálsliði við áreksturinn,“ segir Benedikt og bætir því við að þá hafi hann ákveðið að taka upp á því að hjóla meira og m.a. í og úr vinnunni eftir slysið.
„Það var ekkert annað í boði en að fara að hreyfa sig meira og koma sér aftur í gott stand. Að hjóla hefur haft meiri áhrif á mig en nokkuð annað enda er ég betri í bakinu í dag en margir aðrir á mínum aldri.“
Frá því Benedikt hóf að hjóla hefur orðið algjör bylting meðal landsmanna í hjólreiðum og miklu fleira fólk farið að hjóla.
„Það hefur orðið gífurlega mikil breyting. Ég sá lengi vel för eftir kannski einn eða tvo hjólreiðamenn þegar ég var að hjóla niður á lögreglustöð á veturna en nú er þetta orðinn mikill fjöldi sem hjólar allt árið. Aðstæður hafa líka lagast en við glímum samt enn við það að bílstjórar átta sig því miður ekki allir á því að við þurfum að sleppa lifandi í vinnuna,“ segir Benedikt og bætir því við að verst sé þegar bílstjórar taka fram úr hjólreiðamönnum til þess eins að beygja fyrir þá.
„Ég hef lent í því einu sinni að bílstjóri gerði þetta við mig og ég hjólaði utan í bílinn sem skemmdist lítillega og ég meiddist.“
Þó telur Benedikt að bílstjórar séu farnir að gæta meira að sér í dag.
Hjólreiðamenn og umferðaröryggi
Ýmsir hafa bent á hættuna af því að færa hjólin út á göturnar innan um mörg hundruð kílóa farartæki sem ferðast um á miklum hraða. Þá eru mörg dæmi þess að ung börn api eftir þeim sem eldri eru og vaði út á götur borgarinnar á hjólum sínum.
„Hjól þurfa að fá meiri forgang á Íslandi og margar götur bjóða upp á að hægt sé að setja sérstakan hjólreiðastíg. Sjálfur hjóla ég t.d. ekki á 60 km götum en fer einstaka sinnum í neyð út á 50 km götur. Við þurfum líka að byrja á réttum enda og aðlaga löggjöfina. Ef hjól eru að fara út á götu þurfa þau að vera með öryggisbúnað og hjólreiðamenn þurfa að fylgja umferðarlögunum.“
Benedikt segir heildarendurskoðun á umferðarlöggjöfinni þurfa að koma til.
„Við sjáum t.d. þessar rafmagnsvespur sem þeysast um á gangstígum og eru hvorki almenn hjól né skilgreind sem ökutæki. Þá er ég þeirrar skoðunar að hjól eigi ekki samleið á göngustígum með gangandi fólki. Við erum að hjóla á allt upp í 40 km hraða og það gengur ekki innan um gangandi vegfarendur.“
Ódýr og hollur valkostur
Það er ódýrt og hollt að hjóla, sérstaklega þegar eldsneytisverð rýkur upp í hæstu hæðir.
„Ég segi alltaf við fólk að fara rólega af stað, stíga létt og hafa gaman af því að hjóla í skemmtilegu umhverfi. Það er líka ódýrara að vera á hjóli en bíl. Þeir sem eru ekki að fara mikið meira en 5 km í vinnuna eiga tvímælalaust að fá sér hjól og fara sinna ferða á hjóli.“
Hjólabúnaður er orðinn mjög góður í dag og allur hjólafatnaður er til fyrirmyndar að sögn Benedikts. „Þú getur fengið gott hjól á hundrað þúsund krónur og það er brotabrot af því sem það kostar að kaupa og reka bíl. Viðhald á hjólinu, eins og að skipta um keðju og fá sér diskabremsu og nagladekk á veturna, er ekki mikill kostnaður ef þú berð það aftur saman við viðhald á bíl. Þetta er líka hollara bæði fyrir líkama og sál.“