Keppir í hjólreiðum
Hrönn segist finna mikinn mun á líkamlegu formi ár frá ári. Hún komist í sífellt betra form. Nú sé svo komið að hún sé meðlimur og stjórnarmaður í Fjallahjólaklúbbnum, sem sé skemmtilegur félagsskapur fyrir hjólreiðafólk af öllu tagi. „Ég er meira að segja farin að keppa í hjólreiðum,“ segir hún glaðbeitt.
Hrönn segir að fjárhagslegur ávinningur sé mikill. Hún spari um það bil fimmtán þúsund krónur í mánuði með því að hjóla til og frá vinnu, það samsvarar meira en 500.000 á þremur árum. Bíllinn slitni hægar og sparnaðurinn hafi verið fljótur að borga upp reiðhjólið. Hún segist aðeins nota bílinn þegar hún þurfi að sækja börnin eða fara í ferðalög út á land. „Ég keyri tugum þúsunda kílómetra minna en áður.“
Hjólreiðastíga með stofnbrautum
Hrönn, sem býr á Háaleiti, segir alltaf hægt að finna sér leiðir til að hjóla í Reykjavík, aðbúnaður hjólreiðamanna sé því ágætur. Hún hafi byrjað að hjóla á stígum en hafi fljótt fært sig út á götu. Hún velji þó götur þar sem hámarkshraðinn sé 50 kílómetrar á klukkustund. Hún hafi fyrst um sinn verið smeyk um eigið öryggi en það hafi liðið hjá. „Ég er í endurskinsvesti á veturna og er með ljós á sumrin auk þess sem ég klæði mig í áberandi fatnað. Ég ef ekki lent í neinu óhappi og hef ekki einu sinni verið nálægt því.“ Hún segir að stjórnvöld gætu bætt aðstöðu hjólreiðamanna til muna með því að sjá til þess að sérstökum hjólabrautum yrði komið upp meðfram stofnbrautum, líkt og sé til dæmis gert í Danmörku og Hollandi. „Það myndi gerbreyta landslaginu til hjólreiða,“ segir hún.
Hrönn segist ekki bara spara sér peninga með því að hjóla heldur sé tímasparnaðurinn nokkur. „Ég er 10 mínútur að hjóla í vinnuna en 5 mínútur að keyra. En þegar ég fer á bílnum þarf ég að finna stæði og ganga smá spöl. Það tekur mig í heildina 20 mínútur að fara á bílnum.“
Uppruni: http://www.dv.is/frettir/2011/9/21/missti-thrjatiu-kilo/