Hjólar danskur í vinnuna

 

  • Eldsneyti fyrir 1.500-2.000 kr. á viku
  • Gott að geta kúplað sig út á heimleið

Fyrir tæplega fjórum mánuðum losuðu Pétur Ívarsson og eiginkona hans sig við Pajero-jeppann og Mözduna, keyptu nýjan Volkswagen Passat- metanbíl og ákváðu að héðan í frá myndu þau ekki nota bíl til að komast til og frá vinnu. Tilraunin hefur gefist vel og Pétri reiknast til að vikulegur eldsneytiskostnaður fjölskyldunnar sé nú á bilinu 1.500 -2.000 krónur.

 

„Maður þarf bara að taka þá ákvörðun að bíllinn sé ekki til þess að fara á í vinnuna,“ segir hann. Þau séu ekkert hreintrúarfólk og fari á bílnum í vinnuna ef þörf krefji, s.s. ef skutla þurfi börnunum um miðjan dag.

 

Pétur er verslunarstjóri í Bossbúðinni, vinsælli herrafataverslun í Kringlunni, og þarf að sjálfsögðu að vera snyrtilega til fara í vinnunni. Hjólreiðarnar setja ekkert strik í reikninginn að þessu leyti. „Ég hjóla alltaf danskur í vinnuna,“ segir Pétur, það er að segja í vinnufötunum, og útskýrir að úr því að Kaupmannahafnarbúar geti hjólað í vinnuna í vinnufötunum hljóti hann að geta það líka. Hann svitni lítið sem ekkert á leiðinni og jafnvel þótt hann svitnaði skipti það ekki máli – það komi engin lykt af manni sem sé nýkominn úr morgunsturtunni og í hreinum fötum. „Hjólið virkar ekki sem samgöngutæki fyrir mig ef maður þarf að skipta um föt.“

Á föstudögum og laugardögum mætir Pétur alltaf í jakkafötum í vinnuna. Ef mikið rignir segir hann ekki hægt að hjóla því þá krumpist fötin af raka undir regngallanum. Á slíkum dögum tekur hann strætó. Hann bætir við að fjórir starfsmenn búðarinnar hjóli í vinnuna allt árið.

Þau hjónin eiga þrjá drengi, tvo á unglingsaldri og einn í leikskóla. Pétur segir að vissulega sé stundum púsluspil að koma unglingunum á íþróttaæfingar og -mót en það takist með því að foreldrar í hverfinu skiptist á að skutla. Sá yngsti, fimm ára, fái bílfar í leikskólann ef veðrið sé sérstaklega leiðinlegt en að öðrum kosti hjóli drengurinn sjálfur. Þegar Pétur er búinn að skutla drengnum á leikskólann fer hann með bílinn heim og hjólar síðan í vinnuna.

Pétri líkar hjólreiðarnar vel og hann hjólaði raunar allt árið um kring áður en strákarnir fæddust. Í starfi sem krefjist samskipta við fólk allan daginn sé gott að geta kúplað sig út á hjólinu á leiðinni heim. Fjárhagslega komi þetta líka vel út. „Ég er ekki grænn að eðlisfari en það er bara búið að ýta manni út í að vera umhverfisvænn.“

Gera samgöngusamninga við starfsfólk

Sleppur við bílastæðaleit

Pétur er verslunarstjóri í Kringlunni og konan hans vinnur í miðbænum. Hann er um það bil 15 mínútur að hjóla frá heimili þeirra í Suðurmýri á Seltjarnarnesi upp í Kringlu, um 5,2 km leið. Hann er því um það bil 9-10 mínútum fljótari heldur en ef hann tekur strætó, leið 13.

Kona Péturs er fljótari að hjóla í vinnuna heldur en að keyra og hringsóla svo um miðbæinn í leit að bílastæði. Á vinnustað hennar hefur verið gerður samgöngusamningur við starfsmenn sem felst í því að þeir skuldbinda sig til að koma til vinnu nokkra daga vikunnar með öðrum hætti en á bíl. Í staðinn fá starfsmennirnir samgöngustyrk sem þeir geta t.d. nýtt til að kaupa strætókort eða reiðhjól.


Uppruni: Morgunblaðið 28. nóvember 2011, baksíða.

mbl-111128

Nýtt frá LHM

Skoðið þetta

Allir hagnast á samgögnusamningum. Bætt heilsa, færri veikindadagar, skattfrjáls peningur og það bara fyrir að hvíla bílinn?
Samantekt Landssamtaka hjólreiðamanna um gerð samgöngusamninga.
LHM hefur útbúið leiðbeiningar fyrir umferð hjólandi á stígum og gangstéttum og götum. Markmiðið með úgáfu leiðbeininganna er að auka öryggi hjólandi í umferðinni og draga úr núningi milli hjólandi og annara vegfaranda hvort heldur er á stígum eða götum.
Leiðbeiningar LHM um umferð hjólandi á stígum og götum
Sáttmálinn innheldur góð ráð bæði til hjólreiðafólks og atvinnubílstjóra. Hann var gerður í samvinnu Samgöngustofu, Hjólafærni, Vegagerðarinnar, Eflu verkfræðistofu, Hjólaþjálfun (María Ögn), Landsamtaka hjólreiðamanna, Strætó, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar Sáttmáli atvinnubílstjóra og hjólandi vegfarenda
Nú geta einstaklingar gerst aðilar að LHM með einföldum hætti. Nánar hér.