Hvernig hjól áttu í dag?
„Ég á Trek-hjól, sem ég keypti vorið 1996 og hef notað mikið síðan. Það er reyndar með herrasniði, en hefur alltaf reynst mér vel.“
Manstu eftir fyrsta hjólinu sem þú áttir?
„Það var eldrautt Velamos, sem ég fékk í 10 ára afmælisgjöf.“
Hjólar þú reglulega?
„Eins undarlega og það kann að hljóma, þá hefur dregið mjög úr hjólreiðum hjá mér eftir að ég varð umhverfisráðherra.
Hvaða hjólaleiðir ferðu þá helst?
„Sem betur fer er ég svo heppin að hafa Ægisíðuna rétt við túnfótinn, þannig að það er lítið mál að renna sér af stað þegar tími gefst, til að fá ferskt loft í lungun og leyfa útsýninu yfir Skerjafjörðinn að blása sér anda í brjóst.“
Hvernig hefur ráðuneyti þitt (eða íslensk stjórnvöld yfir höfuð) komið að aukinni notkun reiðhjóla?
„Núverandi ríkisstjórn einsetti sér í upphafi kjörtímabils, að móta áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélögin. Hluti þeirrar áætlunar er að auðvelda fólki að komast leiðar sinnar gangandi eða á reiðhjóli. Vegna stöðunnar hjá ríkissjóði hefur þessu því miður ekki fylgt mikið fjármagn, en eitthvað er farið að horfa til betri vegar. Nú á haustdögum gerðu fjármálaráðuneytið og innanríkisráðuneytið t.d. með sér samkomulag um að veita stórauknum fjármunum til almenningssamgangna, og á hluti þeirrar fjárhæðar að renna til eflingar hjólreiða.
Hvað varðar umhverfisráðuneytið þá hefur það sett sér samgöngustefnu sem stuðlar að því að starfsfólk ráðuneytisins noti vistvænan ferðamáta. Í henni felast hvatar til að starfsfólkið noti m.a. reiðhjól til að koma sér til og frá vinnu, frekar en einkabílinn.
Til lengri tíma litið þarf svo að koma þeirri hugsun að í auknum mæli, að áhersla á almenningssamgöngur og hjólreiðar sé einhver besta fjárfesting sem hið opinbera getur lagt í. Gífurlega mikið og verðmætt landsvæði er tekið undir umferðarmannvirki fyrir einkabílinn og samgöngur krefjast innflutnings á miklu magni eldsneytis. Þá er lýðheilsuþátturinn ekki lítils virði – hjólreiðar eru heilsubót.“
Ert þú fylgjandi því að innanríkisráðherra hafi heimild til að skylda alla reiðhjólamenn til að nota hjálma, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi að nýjum umferðarlögum sem eru til umfjöllunar í samgöngunefnd?
„Sú lagaheimild er í meðförum þingsins, þannig að ég hef kannski ekki sérstaka skoðun á heimild til að skylda hjálmanotkun. Hitt er svo annað mál, að öryggi hjólreiðamanna snýst ekki bara um einstaka útbúnað hjólreiðamanna. Það sem skiptir máli í stóra samhenginu er að fjölga hjólreiðamönnum á götunum, þannig að bílstjórar læri betur að umgangast þá. Með því að auka vitund bílstjóra tryggjum við öryggi hjólreiðamanna.
Þá er annað stórt öryggismál að tillit sé tekið til hjólreiða við frumhönnun allra umferðarmannvirkja, frekar en að aðstöðu sé bætt við eftir á með misgóðum árangri. Hjólreiðamenn þurfa síður að brynja sig alls kyns varnarbúnaði, ef þeir eiga öruggari stað í umferðarflæðinu.“
Hvernig hefur ráðuneyti þitt komið að verkefnum eins og Hjólað í vinnuna eða Samgönguviku?
„Umhverfisráðuneytið hefur tekið þátt í báðum verkefnum frá upphafi. Það hefur lengi verið eitt af áhersluatriðum ráðuneytisins að styðja vel við aukna vitund um umhverfismál, sem Hjólað í vinnuna og samgönguvika hafa stuðlað að. Svo ég minnist sérstaklega á Hjólað í vinnuna, þá er ánægjulegt að í ár fór fjöldi þátttakenda í fyrsta sinn yfir 10 þúsund – sem hlýtur að gera þetta eitt fjölmennasta verkefnið á sviði aukinnar umhverfisvitundar.“
Hvernig sérð þú fyrir þér þróun Svansvottunar á næstu árum?
„Á þeim stutta tíma sem liðinn er síðan ég kom inn í umhverfisráðuneytið hefur fjöldi Svansleyfa svo gott sem fjórfaldast. Það hefur verið gaman að fylgjast með þessari þróun – sjá þá umhverfisvakningu sem orðið hefur. Núorðið þekkja langflestir neytendur Svansmerkið og velja Svansmerkta vöru í auknum mæli. Sífellt verður auðveldara að stunda vistvæn innkaup, en Umhverfisstofnun er með áform um að gera neytendum það ennþá léttara á næstu árum. Það verður því spennandi að fylgjast með áframhaldandi sókn Svansins.“
Getur þú gefið stutta samantekt af því sem gerst hefur hér á landi í kjölfar aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum?
„Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum var samþykkt í ríkisstjórn haustið 2010 og í kjölfarið var stofnaður samstarfshópur ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að hafa umsjón með því að áætluninni sé hrint í framkvæmd, setja ný verkefni á fót og veita umhverfisráðherra upplýsingar og ráðgjöf. Hópurinn mun skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar árlega um árangur við framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar, og ætti fyrstu skýrslunnar að vera að vænta á næstunni.
Ein stærsta aðgerðin sem nú er í gangi varðandi loftslagsmál er viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir, svokallaðs ETS, en fyrsta skrefið í innleiðingu þess hér landi var stigið í vor með samþykkt Alþingis á breytingum á lögum um losun gróðurhúsalofttegunda. Á grundvelli EES-samningsins hefði stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda fallið undir kerfið, þannig að til að koma í veg fyrir flókið tvöfalt kerfi var ákveðið að fella alla losun Íslands undir ETS. Allur flugrekstur mun falla undir viðskiptakerfið frá 1. janúar 2012 og stóriðja frá og með 1. janúar 2013.“