Furðulegt háttalag fjölskyldu

hjolafjolskylda_nbl_4_tbl_2011Eftir að hafa verið í bílabransanum í 15 ár samfleytt fengum við hjónin nóg og seldum bílinn okkar á vordögum. Forsaga málsins er sú að við höfum verið frekar óheppin í bílamálum í gegnum tíðina. Þó keyrði um þverbak þegar við keyptum bíl sem á hvíldu eftirstöðvar bílaláns en þessi fjárfesting kostaði óteljandi grátköst hjá undirritaðri og almennt álag í hjónabandinu. Vert er að taka fram að þetta var fyrir tíð stökkbreyttra gengistryggðra okurkúlulána.

Bíllinn bilaði í hverjum mánuði og áður en yfir lauk var hann búinn að fara heilan hring og átti ekki eftir að skipta um neitt í honum nema handbremsuna. Ég var orðin flugmælsk á bílamáli og vissi í raun meira um spindilkúlur og hvarfakúta en nokkurn tímann dagkrem og boddílósjon. Átta dögum eftir að við borguðum lokagreiðsluna af bílaláninu sprengdi headpakkningin alla fjóra ventlana í bílnum og vélin bræddi úr sér. Við reyndum þó að hrista þetta af okkur og fjárfestum í þýskum eðalvagni sem eyddi bensíni á við skriðdreka og hafði ofnæmi fyrir snjó. Auðvitað var þetta undarleg fjárfesting í ljósi þess að við búum í uppsölum Akureyrar og eins og við var að búast voru allir vetur sérlega snjóþungir meðan við áttum bílinn.

Það var svo í vor að við tókum ákvörðun um að selja bílinn. Dekkjakaup, eldsneytiskostnaður, smurning, tryggingar, minni háttar viðgerðir og viðhald voru orðin óþægilega stór liður í heimilis hald inu. Bíllinn seldist á fjórtán mínútum enda eftirlæti allra bíla áhugamanna sem vita vel að aðeins er hægt að keyra svona bíla rétt yfir sumartímann. Þá tók við algjörlega ógleymanlegt tímabil í lífi fjögurra manna fjölskyldu í úthverfi Akureyrarkaupstaðar.

Viðbrögð fólks við þessu uppátæki okkar voru nánast ofsafengin. Þegar ég lít til baka mætti skipta fólki í þrjá hópa. Fyrsti hópurinn nánast tapaði sér af hneykslan. Hvernig ætluðum við eiginlega að fara að þessu? Hvað ef eitthvað kæmi fyrir? Ætluðum við ekkert að ferðast með börnin um landið? Svo fylgdi á eftir langur lestur um að bílleysi gengi ekki upp og réttlæting í tíu liðum. Þegar hér var komið sögu var ég yfirleitt orðin klökk, hringdi í eiginmanninn og sagði honum að ég hefði vitað allan tímann að þetta væri ekki hægt. Annar hópur missti sig af einskærri aðdáun. Fólk lýsti því hvernig það hefði líka átt þennan draum og spurði hvernig við færum að hinu og þessu (Bónusferðum, tómstundaskutli o.s.frv.). Þriðja hópnum fannst við of undarleg, nennti ekki að ræða þetta og fór að gera eitthvað annað.

En hvernig fórum við þá að þessu? Akureyri er draumastaður bíllausa fólksins. Ókeypis strætisvagnar, ágætis aðstæður fyrir hjólafólk og frekar stutt á milli staða. Heimili mitt og vinnustaður eru í sitthvorum enda bæjarins. Engu að síður er ég fljótari að hjóla til vinnu þá fimm mánuði á ári sem vel er fært til þess en að aka sömu leið. Umhugsunarvert. Leikskóladrengurinn okkar hjólaði með okkur í skólann allan tímann, líka í kalsarigningu og slyddudumbungi. Slíkt er nefnilega algjört ævintýri fyrir fimm ára börn. Eldri drengurinn okkar hjólaði í skólann og hljóp uppi strætisvagna eða hjólaði á íþróttaæfingar og í sund. Við nýttum okkur strætisvagnana óspart til að fara á kaffihús, í matvöru versl anir, á bókasafnið og í ævintýraferðir með nesti.

Allt í einu varð til tími. Tími til að spjalla lengur, tími til að vera meira saman, tími til að þegja saman og hugsa. Þegar enginn bíll er til staðar þarf skipulagið að vera skothelt. Leggja þarf tímanlega af stað og gæta þess að allt sé með í för. Það er ekki í boði að snúa við og sækja það sem gleymdist. Við áttum líka góða að sem kipptu okkur með á ættarmót og lánuðu okkur bílinn sinn í eitt stutt ferðalag. Þá kyngdi maður stoltinu og naut bílferðanna eins og um drauma utanlandsferð væri að ræða. Eldri drengurinn var mikið spurður að því hvernig væri að eiga ekki bíl. Jafnöldrum hans fannst við stórfurðuleg fjölskylda. Hans upp lifun var að við vær um að gera miklu meira saman. Við þurftum jú að hjálpast heilmikið að.

Bílleysið snérist líka um yfirlýsingu. Það er lúxus að eiga bíl. Við eyðum óhemjumiklu fjármagni í þennan farkost. Rekstrarkostnaður er kannski um 1 milljón á ári! Svo ekki sé minnst á verðrýrnun. Íslendingum sem stunda nám erlendis finnst ekkert tiltökumál að nýta sér almenningssamgöngur árum saman en um leið og heim er komið þarf að fjárfesta í bíl. Þjóðfélag okkar er bíla sjúkt. Heimabærinn sýnir framsýni með því að hafa ókeypis í strætisvagna. Fyrir það er ég ótrúlega þakklát. Það er mikilvægt skref í átt að umhverfisvænna samfélagi og brýnir okkur vonandi til að breyta hugarfari okkar gagnvart einkabílnum.

Ég á ekki bíl í dag en hef aðgang að einum slíkum. Mig grunar, innst inni, að ég muni kaupa mér bíl einn góðan veðurdag. Til hugsunin er nánast óbærileg. Það venst nefnilega ótrúlega vel að vera furðu legur.

Hildur Hauksdóttir

Uppruni: Neytendablaðið 4. tbl. nóvember 2011